Í Félag íslenskra safnmanna hafa ratað menn af ýmsum toga. Þarna eru jafnt sprenglærðir fræðingar sem brennandi áhugamenn úr héraði, menn af ólíkum uppruna og á ólíkum aldri. En öllum er þeim sameiginlegur óseðjandi áhugi á sögu lands og lýðs, atvinnu- og búsháttum, menningarminjum, og umfram allt því fólki sem hefur búið í þessu landi, á sambýli fólks og lands fyrr og síðar. Flestir vinna við söfn af einhverju tagi og kynslóðirnar hafa borið gæfu til að ræðast við og vinna saman, hver sem undirstöðumenntunin er, læra hver af annarri.

Í þessum hópi eru nokkrir eldhugar sem verða öðrum minnisstæðari, vegna þess hversu sérstætt lífsverk þeirra hefur orðið, vegna þess að þeir hafa haft orku til að hlúa að þeim verðmætum sem ekki verða umsvifalaust látin í askana en skila sér til lengri tíma, vegna þess að þeim hefur tekist, oft nánast af eigin rammleik einum, að byggja upp þá minnisvarða sem geta orðið nokkur kjölfesta íslenskri þjóðarvitund á tímum mikilla breytinga og mikillar alþjóða- og gróðahyggju.

Einn þessara góðu manna er nú genginn, Egill Ólafsson á Hnjóti. Áhugamál hans voru víðfeðm. Auk búskaparins vestra vann hann bæði að samgöngumálum og landgræðslu- og náttúruverndarmálum um langa hríð. En auðvitað verður hans þó fyrst og fremst minnst fyrir safnið á Hnjóti. Safnið var formlega opnað 1983, en safn verður aldrei til í einni sjónhendingu. Egill hafði vitaskuld lengi dregið að gripi, einkum þá sem tengdust sjósókn og búskap - og svo kom hann þarna upp fyrsta flugminjasafni á Íslandi. En hann safnaði ekki aðeins munum og minjum úr sveitinni heldur og sögulegum fróðleik og frásögnum, og það sýnir best framsýni Egils, að hann lét setja nokkrar merkar frásagnarheimildir héraðsins á vefsíðu safnsins þar sem þær hafa verið aðgengilegar öllum netvæddum áhugamönnum. Þó að söfn sem það á Hnjóti segi kannski óskipulega þjóðarsögu, eru þau þó kjarni þess sem öll fróðleiksmiðlun og öll fræðimennska á þessu sviði mun síðar styðjast við. Og - gleymum ekki einu: héðan af vita allir hvar Hnjót við Örlygshöfn er að finna.

Félag safnmanna varð til fyrir 18 árum og gerðist Egill á Hnjóti fljótt félagi. Þar reyndist hann lifandi og áhugasamur þátttakandi og mörgum mun minnisstæð sú kurteisi sem honum var í blóð borin en ýmsum gengur illa að tileinka sér á langri ævi. Fyrir rúmum áratug hóf félagið að standa fyrir farskóla, sem eru nokkurra daga námsstefnur, haldnar árlega að hausti, sóttar hvaðanæva af landinu og haldnar víða um land. Í haust áttum við góða daga í Borgarfirði, þar sem Egill átta drjúgan þátt í því að sú dagskrá sem þar var skipulögð, blönduð fróðleik og skemmtan, tókst svo vel. Á næsta ári verður skólinn haldinn í menningarborginni Reykjavík, en síðan hafði Egill boðið að farskóli Safnmannafélagsins yrði þar næst haldinn á hans heimaslóðum. Mennirnir gera sínar áætlanir en Guð ræður. Og hvar sem sá skóli verður haldinn, mun andi Egils svífa þar yfir vötnunum og hans verða minnst fyrir sitt mikilsverða frumherjaverk.

Blessuð sé minning Egils safnvarðar á Hnjóti.

Þóra Kristjánsdóttir