• Guðrún Sigmundsdóttir var fæddist 29.12. 1911 á Vestara Hóli í Fljótum í Skagafirði. Foreldrar hennar voru Sigmundur Jónsson, bóndi á Vestara Hóli, og Halldóra Baldvinsdóttir. Systkini hennar sem upp komust voru tíu, fjögur hálfsystkini og sex alsystkini, þau voru Björgvin, Jón, Sigrún, Sveinn, Sigurbjörg og Indiana. Hálfsystkini hennar voru Anton, Stefán, Guðrún og Jón. Öll systkini Guðrúnar eru látin. Guðrún ólst upp í foreldrahúsum að Vestara Hóli.

  Árið 1942 fluttist hún að Nesi í Flókadal og hóf þar búskap með unnusta sínum, Sæmundi Baldvinssyni. Bjó Guðrún þar uns Sæmundur andaðist 1949 eftir aðeins sjö ára búskap. Árið 1949 flutti Guðrún til Siglufjarðar og átti þar heima í nokkur ár en flutti síðan aftur að Vestara Hóli og átti þar heimili til dauðadags.

  Útför Guðrúnar fer fram frá Barðskirkju í Fljótum í dag og hefst athöfnin kl. 14.

  ævi>

  Við Gunna Sigmunds fórum saman í Vestur-Fljótin. Hún ákvað að hafa mig með sér í sína fæðingarsveit eitt sumarið, rétt þegar mér var orðið treystandi til að halda á hrífu. Hún hafði verið nokkur ár á og í Siglufirði, meðal annars starfað sem ráðskona á Hólsbúinu, sem faðir minn stýrði, inni í firðinum. Þetta var sumarið eftir að við fluttum í bæinn. Henni var ekki alveg sama um mig, fannst öruggara að hafa auga með mér, trúði því að sveitalífð yrði mér að meira gagni en bæjarröltið, enda ýmis sollurinn sem fylgdi síldinni á Sigló á þessum árum - og ekki síður í síldarleysinu.

  Hún sleppti eiginlega aldrei af mér hendi eftir þetta. Taugin við fjölskyldu mína, foreldra og systkini, rofnaði heldur ekki. Sjálfur lagði ég leið mína í Flókadalinn í sjö sumur í röð og Addý systir mín slóst í för með mér nokkrum sinnum. Gunna átti lögheimili hjá okkur á Eyrargötunni í nokkur ár, þótt hún dveldist lengst af í sveitinni. Hún fylgdist vel með því sem á daga okkar dreif, sendi hvatningarorð og deildi áhyggjum okkar og hugðarefnum þegar fundum okkar bar saman.

  Vorið sem við fórum fyrst yfir Siglufjarðarskarð í dal Hrafna-Flóka skildi ég að Gunna var á leiðinni heim. Á Vestara-Hóli höfðu foreldrar hennar búið áður, en bróðir og systursonur hennar bjuggu þar nú. Það vantaði að hennar mati konu til að sjá um heimilisstörfin. Henni rann blóðið til skyldunnar að taka hlutverkið að sér; hún efaðist víst sjaldan á ævinni um það sem skyldan bauð.

  Flókadalurinn var á sjöunda áratugnum gróskumikil og þéttbýl sveit. Jarðirnar voru ekki stórar, en þær voru vel setnar. Hver skiki var nýttur, hlunnindum úr ríki náttúrunnar var gefinn verðugur gaumur. Stórar fjölskyldur, með fjölda barna og unglinga, byggðu flesta bæi; það var oft líf og fjör, ekki síst á kynslóðablönduðum fótboltaæfingum, sem stundaðar voru af krafti á Austara-Hóli. Skíðagöngumenn úr Fljótum voru sigursælir á þessum árum. Haganesvík var þá líflegur athafnastaður. Nú búa orðið fremur fáir í Flókadal og ekki er lengur verslað í Víkinni; líklega hefur búseta í fáum sveitum á landinu breyst jafnmikið á síðustu þrjátíu árum en í dal Flóka.

  Þetta var alla tíð dalurinn hennar Gunnu, þar sem hún undi best, lifði og starfaði mestan hluta ævinnar. Á milli brattra fjallanna átti hver þúfa, hver lækur, hver laut, sína sögu, sem hún kunni að segja frá. Hún gaf þessu sögusviði aukið líf með sögum af fólki, þjótrú, þjóðsögum og draumum, sem voru henni ljóslifandi og hún tók mið af.

  Á Vestara-Hóli var óþrjótandi brunnur kveðskapar af ýmsu tagi. Mig undraði oft hvernig heimilisfólkið gat þulið heilu kvæðabálkana án þess að hiksta. Tækifærisvísan var sérstaklega í hávegum höfð, hún var drjúgur skemmtivaldur sem gjarnan flaug á milli bæja. Þau áttu öll þrjú auðvelt með að setja saman hnyttnar vísur. Þessi íþrótt var svo spennandi í augum sumarstráks að hann fór að reyna sjálfur, með heldur tímabundnum árangri, en æfingarnar urðu til þess að bragfræðin reyndist auðveld viðureignar þegar hún kom á dagskrá í gaggó.

  Hvort sem það snerti bragæfingar eða annað, var sumardvöl okkar gestanna á Vestara-Hóli okkur mikilvægur skóli. Hér voru ný verk, verkfæri, vandamál og úrlausnarefni að glíma við; plöntur og dýr að læra á. Heimilisfólkið sýndi ómældan áhuga á störfum okkar, veitti hvatningu og viðurkenningu fyrir unnin störf, og ekki síður fyrir sæmilega viðleitni. Gunna hafði síður en svo á móti því að maður lærði af reynslunni, kímdi við þegar ákafi eða þvermóðska leiddi í hreinar ógöngur, og svo gátum við öll skemmt okkur yfir villuráfinu á eftir. Gunna setti þó alltaf stífan ramma utan um reynsluna, hún mátti ekki vera hættuleg eða skaðleg. Því kom dráttarvélaakstur ekki til greina, þó hann væri stundaður meðal krakka á öðrum bæjum.

  Ég skildi það þannig að lífsreynslan hefði kennt Gunnu að fara með gát. Hún hafði misst heitmann sinn eftir aðeins nokkurra ára búskap. Sú reynsla setti mark sitt á hana. Hún gekk heldur ekki heil til skógar. Það var þó langt frá því að lífreynslan skildi eftir hjá henni biturð; miklu frekar þögula en andríka einbeitni við siglinguna sem framundan var.

  Kannski hafa forgengin tækifæri stuðlað að því að hún brýndi fyrir okkur krökkunum að nýta okkar tækifæri í lífinu vel, ekki síst til menntunar. Hún undirstrikaði líka við okkur dyggðina að vera trú því sem okkur væri treyst fyrir.

  Gunna hafði oft afdráttarlausar skoðanir á mönnum og málefnum, lét þær gjarnan í ljósi og fylgdi þeim eftir. Að kveða skýrt að orði var að hennar áliti skyldubundin hreinskilni. Það gat soðið upp úr við slíkar kringumstæður, en slíkt var jafnað við næsta horn. Hún átti ekki erfitt með að taka álit sitt á samferðafólki til endurskoðunar.

  Þegar ég lít til baka, minnist ég þess að hafa stundum glímt við svipað val og söguhetjan í kvikmyndinni Bíódögum, sem dvaldi á svipuðum tíma nokkru innar í Skagafirðinum, valið á milli bæjar- og sveitalífs. Ég þurfti að vísu hvergi að fórna fótboltanum. Gunna hafði þó örugglega rétt fyrir sér. Dalurinn átti betur við mig á þessum árum. Þar var ég sífellt að læra eitthvað nýtt. Fyrir það vildi ég gjarnan hafa þakkað betur og fyrr.

  Þótt líkamlega væri nokkuð af henni dregið, fékk Gunna að halda skýrri hugsun og hressum anda allt fram á það síðasta. Það fengum við dóttir mín að reyna þegar við litum til hennar á sjúkrahúsinu í ágúst í sumar. Þá ræddum við, eins og svo oft áður, með gagnrýnum hætti um hugðarefni okkar og nýjustu tíðindi.

  Við erum þakklát fyrir hennar andlega úthald, og fyrir að hafa fengið að deila með henni lærdómsríkri lífsspeki og lífsreynslu. Að því munum við búa.

  Jónas Guðmundsson.

  Hinn 20. október síðastliðinn dreymdi mig draum, þar var í aðalhlutverki afa systir mín Gunna á Vestara Hóli í Fljótum. Ekki get ég nú sagt að mér hafi verið sérstaklega brugðið, því oft hefur mig dreymt þá ágætu konu. En þegar mig dreymdi hana aftur næstu nótt og reyndar næstu nætur þá þóttist ég vita að þetta sætti einhverjum tíðindum. Ég hringdi í bróður minn sem býr fyrir norðan og reyndar fleiri og spurðist frétta af heilsu Gunnu og svörin voru á þá leið að þeir vissu ekki annað en að hún væri frísk. Ég var ekkert farinn að reyna að ráða þessa drauma mína þegar fregnir bárust af andláti Gunnu, og þykir mér nokkuð ljóst að þar með sé ráðningin í höfn.

  Ég læt hugann reika aftur um svo sem 30 ár, þá var ég póstur sveitarinnar og gekk á skíðum á vetrum og hjólaði á reiðhjóli á sumrin, hringinn í Flókadalnum. Oft var veðrið og færið erfitt á vetrum og oft var lítill stubbur orðinn ansi þreyttur þegar komið var fram að Vestara Hóli, en þar beið mín ég held að mér sé óhætt að segja alltaf eithvert góðgæti hjá henni Gunnu, stundum matur og einu sinni allavega kyrrsetti hún mig og sagði að ekki væri neitt vit í að halda áfram för sökum veðurútlits, enda sagði hún að væri norðanbylur í aðsigi. Ég var ekkert sérlega hress með þessa ákvörðun og hélt að lítið mál væri fyrir mig að komast á leiðarenda áður en veður versnaði, en það var einsog við manninn mælt að stuttu síðar brast á aftaka veður svo að vart sá handa skil. Þá hefði ég ekki viljað vera á ferð. En Gunna vissi hvað hún var að gera, þarna var ég látinn bíða af mér veður til morguns.

  Mér hefur oft verið hugsað til þessa atviks á seinni árum, ekki er gott að segja hvernig eða yfirleitt hvort mér hefði yfirleitt gengið hefði Gunna ekki gripið inní. Gunna var ákveðin manneskja og hafði fastmótaðar skoðanir á mönnum og málefnum, en skoðanir hennar voru ekki neinar skyndiákvarðanir, þær voru byggðar á langri reynslu og miklu raunsæi, þess vegna bar að hlusta vel á það sem hún hafði fram að færa, ég verð alveg að játa að ég mundi vilja muna meira af okkar samskiptum frá fyrrgreindum árum.

  Nú er Gunna komin til nýrra heimkynna, og þá eru þau öll systkinin komin heim ef svo má segja. Ég kveð merka konu og þakka henni alla velvildina í minn garð. Guð gefi henni góða ferð.

  Ég votta Sigmundi og öðrum ættingjum samúð mína.

  Gylfi Björgvinsson.