Eftir tæplega 50 ára vináttu okkar við Eirík Jónsson kveðjum við hann með söknuði. Eiginkona Eiríks og Þorleifur eru náskyld, hafa þekkst frá barnæsku, þau stofnuðu fjölskyldur um svipað leyti og vinskapur hélst alla tíð þótt langt væri á milli heimila um áratuga skeið. Þegar við hjónin fluttum síðan til Hveragerðis fyrir fimm árum vorum við svo lánsöm að í nálægð við okkur bjuggu þau Gunnlaug og Eiríkur. Þau tóku okkur tveim höndum og voru okkur hjálpsöm á einn og allan hátt.

Eiríkur var öllum mönnum bónbetri, hafði einkar góða návist, var ljúfur, hlýr og brosmildur. Hann var sannarlega maður starfsins, samstarfs og hjálpsemi. Hann var hinn fjölhæfi drengskaparmaður sem allt vildi vel vinna og láta gott af sér leiða.

Fráfall hans var óvænt og ótímabært því hann var hraustur og heilbrigður til líkama og sálar.

Við sem höfum notið vináttu hans eigum nú mikils að sakna og einnig margt að geyma og þakka af heilum hug.

Eiríkur var mikill heimilisfaðir og vafði alla tíð ástríka eiginkonu, börn og afkomendur sem og aðra nána ættingja og tengdafólk kærleika og ást.

Eiginkonu hans og öllum ástvinum sendum við dýpstu samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja þau á þessum erfiða tíma.