Jósefína Stella Þorbjörnsdóttir fæddist á Blönduósi 28. september árið 1952. Hún andaðist á Landspítalanum 18. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Elín Sigurtryggvadóttir, f. 26.9. 1920, húsmóðir á Kornsá, og Þorbjörn Kristján Jónsson (fósturfaðir), f. 12.10. 1905, d. 30.6. 1976. Systkini Stellu sammæðra eru Jón Tryggvi, f. 21.5. 1941, Guðmundur Karl, f. 21.10. 1943, Sigurður Ingi, f. 30.11. 1945, Aðalheiður, f. 14.4. 1950, d. 28.4. 1950, Kristján, f. 10.7. 1954, Ingibjörg, f. 13.12. 1955, d. 23.4. 1956, og Ingibjörg, f. 2.6. 1957. Faðir Jón Hannesson, f. 2.6. 1927, stjúpmóðir Ásta Magnúsdóttir, f. 8.10. 1929, búsett á Blönduósi. Systkini samfeðra eru Steinar, f. 3.10. 1954, Rúnar, f. 6.1. 1957, Hannes, f. 4.1. 1961, og Jónína Guðbjörg, f. 27.8. 1963. Hinn 18. nóvember 1994 giftist Stella eftirlifandi eiginmanni sínum, Jónasi Helga Sveinssyni, f. 20.3. 1953. Hann á fjórar dætur, Helgu Birnu, f. 11.12. 1975, í sambúð með Sighvati Rúnarssyni. Þau eiga tvo syni, Sigurstein Atla, f. 14.12. 1993, og Brynjar Nóa, f. 25.5. 1998; Bryndísi, f. 18.9. 1980, í sambúð með Arnari Má og þau eiga eina dóttur, Lenu Rós, f. 6.6. 1999; Kristjönu, f. 20.6. 1984, og Klöru, f. 17.4. 1986. Foreldrar Jónasar eru Sveinn Jónasson, f. 18.11. 1923, d. 26.9. 1999, og Ellen Sigríður Emilsdóttir, f. 2.5. 1929. Stella giftist Kristjáni Sigurðssyni bónda á Breiðabólstað hinn 6.6. 1971. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Jón Hannes, f. 7.10. 1970, í sambúð með Sigrúnu Gísladóttur, f. 16.2. 1973, og á hann eina dóttur, Arnheiði, f. 20.10. 1989, móðir Fanney Magnúsdóttir; Sigurður Hólmar, f. 15.2. 1972, kvæntur Önnu Huldu Hjaltadóttur, f. 24.8. 1971, og eiga þau tvo syni, þá Kristján Hjalta, f. 12.5. 1995, og Hall Aron, f. 12.8. 1998; og Jóhannes Ægi, f. 21.2. 1976. Stella giftist Einari Óla Sigurbjörnssyni og slitu þau samvistum. Þau eignuðust tvö börn, þau Sigurbjörn Þór, f. 9.6. 1984, og Elínu Guðmundu, f. 8.11. 1986. Útför Stellu fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Jósefína Stella Þorbjörnsdóttir fæddist á Blönduósi 28. september árið 1952. Hún andaðist á Landspítalanum 18. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Elín Sigurtryggvadóttir, f. 26.9. 1920, húsmóðir á Kornsá, og Þorbjörn Kristján Jónsson (fósturfaðir), f. 12.10. 1905, d. 30.6. 1976. Systkini Stellu sammæðra eru Jón Tryggvi, f. 21.5. 1941, Guðmundur Karl, f. 21.10. 1943, Sigurður Ingi, f. 30.11. 1945, Aðalheiður, f. 14.4. 1950, d. 28.4. 1950, Kristján, f. 10.7. 1954, Ingibjörg, f. 13.12. 1955, d. 23.4. 1956, og Ingibjörg, f. 2.6. 1957. Faðir Jón Hannesson, f. 2.6. 1927, stjúpmóðir Ásta Magnúsdóttir, f. 8.10. 1929, búsett á Blönduósi. Systkini samfeðra eru Steinar, f. 3.10. 1954, Rúnar, f. 6.1. 1957, Hannes, f. 4.1. 1961, og Jónína Guðbjörg, f. 27.8. 1963.

Hinn 18. nóvember 1994 giftist Stella eftirlifandi eiginmanni sínum, Jónasi Helga Sveinssyni, f. 20.3. 1953. Hann á fjórar dætur, Helgu Birnu, f. 11.12. 1975, í sambúð með Sighvati Rúnarssyni. Þau eiga tvo syni, Sigurstein Atla, f. 14.12. 1993, og Brynjar Nóa, f. 25.5. 1998; Bryndísi, f. 18.9. 1980, í sambúð með Arnari Má og þau eiga eina dóttur, Lenu Rós, f. 6.6. 1999; Kristjönu, f. 20.6. 1984, og Klöru, f. 17.4. 1986. Foreldrar Jónasar eru Sveinn Jónasson, f. 18.11. 1923, d. 26.9. 1999, og Ellen Sigríður Emilsdóttir, f. 2.5. 1929. Stella giftist Kristjáni Sigurðssyni bónda á Breiðabólstað hinn 6.6. 1971. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Jón Hannes, f. 7.10. 1970, í sambúð með Sigrúnu Gísladóttur, f. 16.2. 1973, og á hann eina dóttur, Arnheiði, f. 20.10. 1989, móðir Fanney Magnúsdóttir; Sigurður Hólmar, f. 15.2. 1972, kvæntur Önnu Huldu Hjaltadóttur, f. 24.8. 1971, og eiga þau tvo syni, þá Kristján Hjalta, f. 12.5. 1995, og Hall Aron, f. 12.8. 1998; og Jóhannes Ægi, f. 21.2. 1976.

Stella giftist Einari Óla Sigurbjörnssyni og slitu þau samvistum. Þau eignuðust tvö börn, þau Sigurbjörn Þór, f. 9.6. 1984, og Elínu Guðmundu, f. 8.11. 1986.

Útför Stellu fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Þótt sagt sé að þeir deyi ungir sem guð elskar mest, finnst okkur, Stella mín, hann hefði getað beðið lengur eftir þér. Þú sem svarst svo ung og áttir margt eftir. En þú ert þó laus við þínar kvalir, sem fylgdu þínum sjúkdómi, og eitt er víst að pabbi og litlu systur okkar hafa tekið vel á móti þér. Það var oft gaman að hafa þig í kringum sig þegar þú varst að vaxa úr grasi, og þú þurftir oft að koma með og vera með í því sem var að gerast.

Síðan er við Gulla fórum að búa varst þú hjá okkur í sveitinni til að hjálpa okkur við bústörfin, en of lítið var af hestum sem þú hafðir svo gaman af.

Bestu þakkir fyrir allt, Stella mín, og eins hvað þú varst börnunum mínum góð.

Þinn bróðir,

Jón.

Stundin líður, tíminn tekur

toll af öllu hér.

Sviplegt brotfall söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

(Hákon Aðalsteinsson)Stella dó í kvöld.

Svo lítil setning sem þó flytur svo óskaplega sáran boðskap. Við vissum að að þessu kæmi en ekkert okkar reiknaði með því svona fljótt. Við höfum sennilega alltaf búist við að kraftaverk gerðist svo að yndislega frænka okkar yrði ekki tekin frá okkur. Frænka svo margra. Hvernig verða nú fjölskyldusamkomurnar án kátínu hennar? Það er eins og ákveðinn partur af manni sjálfum sé horfinn.

Þegar við vorum lítil hlökkuðum við alltaf til að fá Stellu í heimsókn. Með henni kom kraftur og gleði sem fáum einum er gefið. Stella þýðir stjarna og það var einmitt það sem Stella var fyrir okkur í sveitinni í gamla daga, því hún skar sig alltaf úr hópnum, hún bar af og hún tók athyglina svo auðveldlega til sín. Hvort sem hún reið um á hestunum sínum með hárið flaxandi eða var uppáklædd í veislum.

Hvert og eitt okkar minnist líka þeirrar athygli sem Stella veitti okkur og hversu vel hún studdi okkur elstu systurnar þegar við fluttum ungar suður og pabbi og mamma voru fyrir norðan. Stella átti alltaf tíma til að tala við lítil frændsystkini og talaði við þau eins og jafningja. Hún stríddi okkur líka en kom okkur alltaf til að hlæja aftur, oft með því að knúsa og tuskast á. Hún fékk okkur til að gleyma stund og stað. Þegar við urðum eldri og okkar börn fæddust fengu þau sömu jákvæðu athyglina. Hún kom alltaf eins fram við alla, og þegar hún var dagmamma var oft erfitt að greina hvað af börnunum voru hennar eigin vegna þess að á meðan hún gætti barna annarra átti hún þau einnig.

Stella lagði sig alltaf fram um að heilla börnin í fjölskyldunni og laða fram bros hjá þeim hverjar sem aðstæðurnar voru. Núna er svo sárt að hugsa til þess að þau yngstu eiga ekki eftir að fá að kynnast henni. Við munum segja þeim frá henni, hún mun ekki gleymast.

Það fór ekki fram hjá neinum hversu mikil fjölskyldumanneskja Stella var og ef eitthvað bjátaði á var nóg að leiða talið að börnum hennar eða barnabörnum þá breyttist raddblærinn og varð svo ljúfur og hlýr. Við pössuðum yngri krakkana oft og vorum sammála um að það var ekki létt verk. Þau vildu nefnilega bara vera hjá mömmu sinni.

Elsku pabbi, Kalli, Siggi, Kiddi og Inga, nú kveðjum við systur ykkar. Systur sem ásamt ykkur ásamt elsku ömmu myndaði svo samhentan hóp sem er svo sterkur saman. Hóp sem er og mun alltaf verða fyrirmynd okkar systkinanna. Elsku Jónas, Nonni, Sigrún, Siggi, Anna Hulda, Jói, Bjössi Þór, Ella Munda og barnabörnin, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur, við vitum hve missir ykkar er mikill.

Elsku systkini, mamma ykkar fylgist með ykkur, þið hafið átt góða fylgd sem þið eigið eftir að njóta góðs af um alla framtíð.

Elsku Stella, við þökkum þér.

Ástarkveðjur,

systkinin frá Snæringsstöðum.

Það var mikil gæfa mín, þegar Lilla kynnti mig fyrir beztu vinkonu sinni, Stellu, sem er látin. Á þeim tíma bjó hún við lægð í lífi sínu, sem endaði með hjónaskilnaði skömmu síðar, en strax þá skynjaði ég samt þann mikla og sterka persónuleika, sm hún bjó yfir ásamt þeim hlýhug sem streymdi ætíð frá henni.

Stella var að flestu leyti óvenjuleg og einstök manneskja, sem ætíð fylgdi lífsstefnu sinni, sem einkenndist af höfðingsskap, heiðarleika, drenglyndi og trygglyndi. Hún lagði hart að sér að sinna fjölskyldu sinni af alúð og hafði í hávegum gömlu gildin, að góð og traust fjölskyldubönd væru grunnurinn að gæfu í lífinu.

Hestamennska var sameiginlegt áhugamál okkar Stellu. Það gustaði af þeim vinkonunum, Lillu og Stellu, þegar þær riðu út, og var oft ótrúlegt að fylgjast með, hvea natnar þær voru við þjálfun hestanna, og skipti þær litlu máli, hvort veður væru góð eða slæm. Ég minnist þess oft, þegar Stella kom til okkar í hesthúsið og tók til hendinni af áhuga og vinnugleði. Smitaði hún þá okkur hin, svo að þreytan var á bak og burt. Og þannig var Stella ætíð, hvort heldur var um störf eða leik að ræða.

Stella kynntist eftirlifandi manni sínum, Jónasi Sveinssyni, 1993 og mynduðust strax góð tengsl milli okkar Jónasar. Við, vinir Stellu, sáum þá hvernig hún öðlaðist hamingjuna á nýjan leik í farsælu hjónabandi. Alltaf var jafn ánægjulegt að koma í heimsókn til þeirra hjóna, hvort heldur var til skrafs eða ráðagerða því að hjálpsöm og úrræðagóð voru þau bæði. Enginn efaðist um annað en að framtíð þeirra yrði björt. En fyrir tæpum þremur árum kom reiðarslagið. - Stella greindist með sjúkdóm, sem leiddi hana að endalokum.

Í hinum erfiðu veikindum gerði maður sér enn betur grein fyrir hinum gífurlega viljastyrk og lífsþrótti, sem hún bjó yfir. Aldrei fann maður fyrir uppgjöf hjá henni, og þó hún oft á tíðum væri sárþjáð, kveinkaði hún sér aldrei. Stella trúði því, að við fæðingu væru líf og örlög manna fyrirfram ákveðin, og skýrir það kannski að hluta til það æðruleysi, sem hún sýndi í mestu erfiðleikum sínum. Varð reisn hennar þeim mun meiri, sem örlögin háðu hatrammara stríð gegn henni.

Það er með öllu óskiljanlegt afl, sem leggur slík örlög á mannfólkið.

Stella er öllum þeim sem hana þekktu mikill harmdauði og skilur hún eftir skarð í hugum og hjörtum manna, sem aldrei verður fyllt. En mesta sorgin er hjá Jónasi og börnunum, sem ég votta mína dýpstu samúð.

Ástmundur Norland.

Fallin er nú frá fyrir brandinum beitta mín besta vinkona, hún Stella. Mikill harmur kveður að og stórt skarð er skilið eftir í vinahópnum sem með tíð og tíma mun fyllast góðum minningum um heilsteypta og glaðlynda konu sem ávallt var hrókur alls fagnaðar í gegnum þykkt og þunnt á hennar lífsferli.

Það voru börnin okkar sem leiddu okkur saman er við bjuggum í Arnartanganum fyrir hart nær tólf árum síðan og var þar lagður grunnur að náinni vináttu sem átti eftir að rista djúpt. Stella var mikið náttúrubarn, fædd og uppalin að Kornsá í Vatnsdal þar sem hún ólst upp í nánum tengslum við náttúruna. Dugnaður og atorka var alla tíð hennar aðal hvort sem var í leik eða starfi, gengið í hlutina án hugarvíls og alltaf stutt í galsann og gleðina. Hestarnir urðu fljótlega þungamiðjan í okkar vinskap og þar fékk Stella endurnýjuð tengsl sín við náttúruna. Það voru ekki eingöngu hestarnir hennar sem hún elskaði eins og börnin sín sem veittu henni lífsfyllingu, heldur var athyglin á útopnu að upplifa og njóta umhverfisins í útreiðartúrunum. Hláturmildin og einlægnin sem ég varð aðnjótandi í útreiðartúrum okkar, lengri sem skemmri mun klingja í huga mér um ókomna tíð og minna mig á hversu mikils virði það er að eiga jafn sterkan og traustan vin og Stella var mér. Hún veitti mér örvun og styrk þegar á þurfti að halda og gaf mér færi á að endurgjalda í sínu andstreymi. Hún var mér sannur trúnaðar- og ástvinur.

Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um líf Stellu. Þrátt fyrir það hélt hún sínum sterka persónuleika þar sem bjartsýnin og jákvæðnin var ávallt í öndvegi og þannig mun hún lifa í minningunni. Fyrir um það bil þremur árum greindist Stella með krabbamein, tíðindi sem hún tók með ótrúlegu jafnaðargeði. Að sjálfsögðu lagði hún upp í stranga baráttu með miklum styrk og sigurvilja eins og henni var lagið. Í erfiðri lyfjameðferð eirði hún ekki heima, hún varð að komast út, fara á hestbak. Eftir tvo útreiðartúra kvaðst hún vera betri, höfuðverkurinn horfinn og brosið og glettnin búin að ná yfirhöndinni að nýju. Þá var hægt að hefja moksturinn undan hrossunum. Þannig brást hún Stella við sínu andstreymi. Það kom ekki til greina að láta undan síga því margt var ósagt og ógert. Í þessari hörðu baráttu kom styrkur hennar vel í ljós. Baráttuviljinn hélst óbilaður til hinstu stundar og aldrei kom til greina að láta undan síga þótt langt væri gengið á líkamlegt þrek. Hún hélt sinni reisn og virðingu þar til yfir lauk, það var hennar stíll.

Nú þegar skilnaðarstundin rennur upp hrannast minningarbrotin að. Ógleymanlegar stundir á fundum ferðanefndar Hestamannafélagsins Harðar þar sem lagt var á ráðin um ferðir vors og sumars. Reiðtúrarnir í Fák og Andvara og svo ekki sé minnst á Þingvallarferðirnar. Í áningarstöðum fengum við ferðafélagarnir oft að heyra æskuminningar hennar úr Vatnsdalnum þar sem hún geystist um grundir á skjóttu gæðingunum, engum háð í algleymi vornæturinnar. Eða þegar við tvær vorum einar saman á útreiðum og skvöldruðum saman um allt og ekkert, léttúðug dægurmál eða alvöru lífsins allt eftir því hvernig barómet hugans stóð þann daginn. Samverustundirnar sem aldrei bar skugga á voru margar og góðar og hafi mín kæra vina þökk fyrir allt og allt.

Jónasi, börnum Stellu og öðrum aðstandendum flyt ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um góða konu og ástríka móður veita ykkur styrk á sorgarstundu.

Herdís (Lilla).

Nú þegar borin er til grafar góð vinkona mín og útreiðarfélagi, hún Stella, er mér bæði ljúft og skylt að minnast góðs félaga og vinar sem hún svo sannarlega var. Í hestahúsahverfinu að Varmárbökkum hafa á undaförnum árum myndast útreiðar- og vinahópar og var mitt lán að lenda í hópi þar sem þær vinkonur Stella og Lilla virtust ókrýndir leiðtogar. Þetta var fyrir einum átta árum og á þeim tíma hafa gleðistundirnar safnast saman hver af annarri. Að eiga að jafn glaðsinna og traustan félaga sem Stella var er eitthvað sem gefur lífinu gildi og skapar dýpri skilning á því hvað góð vinátta er hverjum manni mikilsvirði. Líklega hef ég verið meira í hlutverki þiggjandans þegar farið er yfir vinskap okkar Stellu á þessum árum. Bara það að vera í nálægð við hana skapaði notalegheit og vellíðan, hún var traust og heilsteypt manneskja sem ekki bara kunni heldur naut að gefa af sér hvort sem var á gleðistundum eða í alvöru lífsins.

Samskipti okkar Stellu snérust fyrst og fremst í kringum hestamennskuna. Við vorum saman í ferðanefnd Harðar um árabil þar sem hugmyndaríki hennar og glettni naut sín til hins ýtrasta. Það eitt að sitja á fundunum var á við hálfa ferðina sem síðar var farin. Og margar fórum við ferðirnar saman til nágrannafélaganna og Þingvallaferðirnar voru mér ógleymanlegar og vart hægt að hugsa sér betri ferðafélaga í slíkum ferðum en Stellu. Þá stend ég í mikilli þakkarskuld við mína góðu vinkonu þegar hún af sínum mikla rausnarskap léði mér húsnæði undir afmælisveislu fyrir rúmum tveimur árum og aðstoðaði á alla lund. Mörg heimsspekiumræðan fór fram á kaffistofunni í hesthúsi Stellu og Jónasar þar sem glímt var við hina margslungnu lífsgátu með ómældum lítrum af kaffi og stöku tilvika tári af brennivíni. Í slíkum samræðum var ekki komið að tómum kofanum hjá Stellu þar sem lífsskoðanir hennar byggðust á einlægni, heiðarleika og trausti. Sérhver maður má vera þakklátur forsjóninni að fá tækifæri til að ferðast part af lífsgöngunni með jafn heilsteyptri manneskju og Stella var.

Að leiðarlokum er mér þakklæti í huga eftir þessu góðu kynni sem hefðu gjarnan mátt vara lengur. Jónasi og börnunum og öllum aðstandendum sendi ég samúðarkveðjur á raunastund. Megi almáttugur Guð veita ykkur styrk í djúpri sorg.

Júlíus J. Ármann.

Daginn eftir að þú kvaddir heimsótti ég æskuslóðir þínar í fyrsta sinn. Ég sat í fjallinu andspænis þeim og lét hugann reika til þín.

Og minningarnar streymdu fram. Ég kynntist þér fyrir fimm árum þegar ég kom fyrst í hesthúsahverfið í Mosó. Allt frá fyrstu tíð bauðstu mig velkomna og sýndir strax hlýju og hvatningu. "Mér finnst svo gaman þegar við ríðum út saman," sagði ég. Þú samsinntir því þótt stundum væri dálítið bras á mér í hestamennskunni. "Mér þykir svo vænt um þig," sagði ég í miðri hópreiðarstemmningu á leið úr Víðidal. "Og mér um þig," sagðir þú. "Mér finnst svo gott þegar fólk getur tjáð tilfinningar sínar," sagðir þú, "getur sagt hvað því finnst." Og þannig varst þú. Tjáðir þig í orðum og gerðum. Alltaf reiðubúin til þess að hjálpa, til þess að hlusta.

Þú varst mér ómetanleg hjálp þegar ég missti hestinn minn, hann Vin. Þú hringdir í mig og lést mig vita að hann hefði orðið fyrir slysi og að það liti illa út. Ekki var það auðvelt verk að hringja því að þú vissir hvað mér þótti vænt um hann. Og þú komst til mín út í gerði, þar sem ég stóð ráðalaus, og hjálpaðir mér að láta hann leggjast. Þú hélst utan um mig í lengri tíma á meðan ég grét.

Þú reiðst merinni minni á meðan ég var í útlöndum og alltaf varstu svo góð og skilningsrík við hana þótt hún væri erfið. Þú skildir svo vel lundarfar hvers og eins hests og varst svo góð og nærfærin við þá. Enda treystu þeir þér. Oft varst þú sú eina í reiðtúrnum sem gast sleppt hestunum þínum. "Þeir fara ekki neitt," sagðir þú. Og þeir fóru ekki neitt.

Sjúkrasaga þín var löng og erfið en aldrei misstir þú móðinn. Alltaf hélstu áfram og alltaf var ríkjandi umhyggja þín fyrir öðrum. Þegar ég var á sjúkrahúsi í vor og þú komst í vikulegt eftirlit þangað, gættir þú þess að koma alltaf við hjá mér. Og það var ekki eins og það væri einhver skylda að koma, það var þér bara svo eðlilegt að líta til annarra.

Í veikindum þínum spurðir þú stöðugt hvernig mér gengi að batna og viku áður en þú dóst, kvalin og áttir erfitt um mál, spurðir þú mig hvernig ég hefði það.

Sárveik varstu á hestaki því að það væri bara verra að vera inni og liggja. Ég gerði mér varla grein fyrir því hvað þú varst veik, eða kannski vildi ég ekki trúa því. Þú varst alltaf á ferðinni niðri í hesthúsum, að moka og líta til með hestum jafnt sem manneskjum. Og þangað sóttir þú eflaust styrk þinn.

Stella, ég get ekki vanist þeirri hugsun að þú munir ekki oftar bíða eftir okkur fyrir utan hesthúsið. Ég veit að ég á ósjálfrátt eftir að skyggnast um eftir þér. Ég náði hvorki að kveðja þig né þakka þér en ég vona að þessi orð nái til þín þrátt fyrir allt.

Kristín Norland.

Þau ljós sem skærast lýsa

þau ljós sem skína glaðast

þau bera mesta birtu,

en brenna líka hraðast.

En fyrr en nokkur uggir

fer um þau harður bylur

er dauðadómur fellur

og dóm þann enginn skilur.

En skinið logaskæra

er skamma stund oss gladdi

það kveikti ást og yndi

með öllum sem það kvaddi.

Þótt burt úr hörðum heimi

nú hverfi ljósið bjarta

þá situr eftir ylur

í okkar mædda hjarta.

(Friðrik Guðni Þórleifsson.)

Elsku Stella, mig langar til að minnast þín með örfáum orðum á kveðjustundu. Þú varst búin að stríða við alvarleg veikindi og hefði andlátsfregn þín ekki átt að koma mér á óvart. Engu að síður er dauðinn ávallt köld staðreynd sem erfitt er að sætta sig við og sorgin svo mikil. Upp í hugann streyma ótal minningar en ég var svo lánsöm að fá að kynnast þér og verða vinkona þín. Alltaf þegar ég hitti þig dáðist ég að hversu dugleg þú varst og raungóð, hvað þú varst mér mikil stoð og stytta í mínum veikindum. Ég veit að ég hefði aldrei farið svo létt í gegn um þann feril ef þín hefði ekki notið við. Þú alltaf svo sterk og umhyggjusöm, alltaf tilbúin að stappa í mig stálinu.

Elsku Stella, ég hugga mig með því og trúi því að góður guð hafi tekið á móti þér núna og linað þjáningar þínar og ég veit að við munum hittast einhvers staðar aftur, en á meðan varðveiti ég minningu þína í hjarta mínu.

Ég þakka fyrir allar samverustundirnar sem við áttum og vil ég votta eiginmanni hennar og börnum og öllum ástvinum hennar samúð mína á þessari stundu. Megi góður guð gefa ykkur styrk í ykkar sorg.

Ósk.

Kæra vinkona. Þegar ég heimsótti þig síðast óraði mig ekki fyrir því að það væri okkar síðasta stund saman. Ég var á leið á aðalfund hestamannafélagsins Harðar og kvöddumst við með þeim orðum að ég liti inn til þín seinna og segði þér fréttir af fundinum. Þær fréttir verða að bíða seinni tíma. Margar man ég góðar og skemmtilegar stundir með ykkur Jónasi heima í stofu, í reiðtúrum og ekki síst á kaffistofunni í hesthúsinu. Var oft þröngt setinn bekkurinn af vinum í spjalli og söng, sem við vinkonurnar allar höfðum gaman af, og ég tala ekki um ef við náðum okkur í harmonikuleikara. Var þá ansi glatt á hjalla og sjálfsagt orðnar misfagrar raddir þegar líða tók á nótt.

Stórt skarð hefur verið höggvið í vinahópinn sem aldrei verður fyllt.

Oft lágu leiðir þínar ríðandi í Mosfellsdalinn og föst venja var hjá ykkur mæðgum að koma á vorin í fjárhúsið að kíkja á lömbin.

Það er mér kært að þú hefur ákveðið að hvíla í Mosfellsdalnum, á þeim stað þar sem ég sleit mínum barnsskóm og veit fyrir víst að kyrrðin ríkir. Þú varst hetjan okkar allra. Það góða styrki fjölskyldu þína og vini.

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,

þótt duni foss í gljúfrasal.

Í hreiðrum fuglar hvíla rótt,

þeir hafa boðið góða nótt.

(Magnús Gíslason.)

Guðlaug Sigurðardóttir (Gullý).