Helmut Kohl
Helmut Kohl
SAKSÓKNARINN í Bonn tilkynnti þýzka þinginu í gær, að hann hygðist hefja sakarannsókn á málum Helmuts Kohls, fyrrverandi kanzlara, vegna meintra ólöglegra greiðslna í flokkssjóð Kristilegra demókrata, CDU, sem Kohl hefur viðurkennt að hafa tekið við.

SAKSÓKNARINN í Bonn tilkynnti þýzka þinginu í gær, að hann hygðist hefja sakarannsókn á málum Helmuts Kohls, fyrrverandi kanzlara, vegna meintra ólöglegra greiðslna í flokkssjóð Kristilegra demókrata, CDU, sem Kohl hefur viðurkennt að hafa tekið við.

Forseta þingsins, Wolfgang Thierse, barst þessi tilkynning í gærmorgun, en Kohl situr enn á þingi. Thierse hefur tvo daga til að andmæla rannsókninni, en ekki er búizt við að hann geri það. Ekki mun þörf á því að svipta Kohl þinghelgi til að rannsóknin geti hafizt, en engu að síður kom Thierse bréfi saksóknara í hendur þingnefndar þeirrar sem fjallar um þinghelgismál.

Í tilkynningu frá skrifstofu Kohls segir að hann harmi ákvörðun saksóknara, en heiti góðum samstarfsvilja. "Hann setur traust sitt á fagleg vinnubrögð saksóknaryfirvalda og mun liðsinna þeim við þetta verk eins vel og honum er unnt," segir í tilkynningunni, sem talsmaður Kohls miðlaði til fjölmiðla.

Kanzlarinn fyrrverandi sat á valdastóli í 16 ár samfleytt unz hann tapaði þingkosningum í fyrrahaust og var formaður CDU í 25 ár. Hann viðurkenndi fyrir nokkrum vikum að hafa ráðið yfir kerfi leynilegra bankareikninga, þar sem geymd voru framlög til flokksins frá aðilum sem heitið var nafnleynd. Slíkar leynigreiðslur eru brot á þýzkri löggjöf um stjórnmálaflokka.