JÁKUB Jacobsen, aðaleigandi Rúmfatalagersins, sagði enn að því stefnt að opna nýja og fullbúna verslunarmiðstöð á Gleráreyrum á Akureyri hinn 1. nóvember í haust en þó er ráðgert að hún verði enn stærri en rætt hefur verið um.

JÁKUB Jacobsen, aðaleigandi Rúmfatalagersins, sagði enn að því stefnt að opna nýja og fullbúna verslunarmiðstöð á Gleráreyrum á Akureyri hinn 1. nóvember í haust en þó er ráðgert að hún verði enn stærri en rætt hefur verið um. Það eru KEA og Rúmfatalagerinn sem að framkvæmdinni standa og er hönnunarvinna í fullum gangi og næsta skref að bjóða verkið út, að sögn Jákubs. Hann taldi líklegt að verkið yrði boðið út í heilu lagi.

Verslunarmiðstöðin verður um 9.000 femetrar að stærð og er þegar frágengið að stærstu aðilarnir þar inni verða Rúmfatalagerinn, KEA með Nettó-verslun og Byko með Elko-verslun og verður hver verslun í um 2.000 fermetra rými. Einnig verður verslunin Sportver með minna rými í húsnæðinu og þá verður apótek í Nettó-versluninni. "Við hefðum viljað hafa verslunarmiðstöðina stærri, eða 12-13.000 fermetra en því miður er það ekki hægt," sagði Jákub.

Auk áðurnefndra verslana er gert ráð fyrir að um 20 sérverslanir og veitingasala verði í verslunarmiðstöðinni og eins og áður hefur komið fram er gífurlegur áhugi fyrir því á meðal ýmissa aðila hérlendis og erlendis að komast þar inn með rekstur sinn. Jákub sagði stefnt að því að ákveða hvaða aðrar verslanir verði í verslunarmiðstöðinni í lok næsta mánaðar en að þar yrði um fjölbreyttan rekstur að ræða.

Rúmfatalagerinn og KEA hafa keypt hluta af húseignum Skinnaiðnaðar og fá þær afhentar í lok mars. Skinnaiðnaður er þessa dagana að flytja starfsemi sína yfir í húsnæði Foldu, sem fyrirtækið hefur tekið á leigu. Félögin hafa jafnframt keypt húseignir á samliggjandi lóð Skinnaiðnaðar til niðurrifs, fyrir um 100 milljónir króna en þar af leggur Akureyrarbær fram 30 milljónir króna. Þá verður aðalverksmiðjuhús Skinnaiðnaðar nánast byggt upp frá grunni og breikkað nokkuð.

"Við ætlum að vanda vel til verksins en það er ljóst að það á mikið eftir að gerast á þessum tíma fram til 1. nóvember." Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður 500-600 milljónir króna en eftir að uppbyggingunni er lokið er ráðgert að verslunarmiðstöðin verði alfarið í eigu Rúmfatalagersins.