18. janúar 2000 | Minningargreinar | 1166 orð | 1 mynd

BÁRÐUR ÍSLEIFSSON

Bárður Ísleifsson fæddist á Akureyri 21. október 1905. Hann lést á Landakotsspítala 6. janúar síðastliðinn. Bárður var sonur hjónanna Ísleifs Oddssonar, trésmiðs, f. 1874, d. 1958, og Þórfinnu Bárðardóttur, f. 1876, d. 1957. Systkini Bárðar eru: Katrín, f. 1904, d. 1928; Ásta Gyðríður, f. 1914, búsett í Reykjavík, og María Guðrún, f. 1915, búsett í Bandaríkjunum.

Bárður kvæntist árið 1938 Unni Arnórsdóttur, píanókennara, f. 18. júní 1918. Þau eignuðust fjögur börn. 1) Arnór, f. 15. september 1939, d. 16.september 1939. 2) Margrét, f. 28. febrúar 1944, d. 14. apríl 1963. 3) Leifur, f. 8. maí 1948, barnaskurðlæknir, forstöðumaður gæðaskorar Landspítalans, kvæntur Vilborgu Ingólfsdóttur, f. 3. júní 1948, hjúkrunarfræðingi, yfirhjúkrunarfræðingi hjá Landlæknisembættinu. Börn þeirra eru a) Margrét María, f. 31. júlí 1972, fiðlusmiður, sambýlismaður hennar er Helgi Örn Pétursson, f. 27. maí 1975, háskólanemi. Barn þeirra er Máni, f. 9. febrúar 1999. b) Inga María, f. 5. september 1977, nemi við Kennaraháskóla Íslands. 4) Finnur, iðjuþjálfi, f. 5. ágúst 1953, yfiriðjuþjálfi á Landspítalanum, kvæntur Iréne Jensen, f. 23. mars 1953, myndlistarmanni.

Bárður las til stúdentsprófs á Akureyri en brautskráðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1927. Hann nam arkitektúr við Kunstakedemiet før de skønne kunster í Kaupmannahöfn árin 1928 til 1935 og lauk þaðan lokaprófi það ár. Hann hóf störf hjá Húsameistara ríkisins árið 1935, varð yfirarkitekt þar árið 1966 og starfaði þar til starfsloka árið 1975. Í því starfi kom hann að teikningu og hönnun ýmissa bygginga svo sem Landspítalans, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Hjúkrunarskóla Íslands, Flensborgarskóla og ýmissa annarra skóla, stofnana og embættisbústaða. Ásamt starfi sínu hjá Húsameistara ríkisins starfaði hann sjálfstætt að ýmsum verkefnum. Bárður teiknaði m.a. prófessorabústaðina við Háskóla Íslands, Sundlaug Vesturbæjar, Reykjalund, kirkjuna á Svalbarðseyri, Landsbankahúsin á Akureyri, Ísafirði og Selfossi. Bárður var einn af stofnendum Akademíska arkitektafélagsins árið 1936 og var formaður þess árin 1944 og 1957. Bárður átti sæti í mörgum nefndum og ráðum á vegum opinberra aðila. Bárður hlaut oft viðurkenningu og vann til verðlauna fyrir teikningar sínar. Hann hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1960 og Skálholtsorðuna árið 1963.

Jarðarför Bárðar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Tengdafaðir minn, Bárður Ísleifsson, hefur kvatt hinstu kveðju. Hann taldi sig hafa lifað löngu og góðu lífi og kvaddi lífið sáttur við Guð og menn. Lán mitt er einstakt að hafa fengið að eiga samleið með honum í þrjátíu og tvö ár. Hver samverustund var sérstök þar sem góðvild hans, umhyggja og jákvæði voru grunnurinn í öllum samskiptum. Ég hafði oft þá tilfinningu að hann vildi bera mig á höndum sér.

Þessi ljúfi, hógværi, lítilláti og æðrulausi maður bar umhyggju fyrir öllu sem lifir. Þar vorum við sem næst honum stóðum ætíð í öndvegi. Hann gleymdi þó engum, gerði engar kröfur fyrir sjálfan sig og varð við hverri bón sem hann var beðinn. Fengu þeir sem minna máttu sín og bágstaddir oft að njóta góðvildar hans og samhugar.

Fáir áttu betra með að gleðjast yfir velgengni annarra og taka af heilum hug þátt í gleði þeirra.

Eftir Bárð standa mörg minnismerki í formi bygginga sem hann teiknaði.

Dýrmætustu minnismerkin mín um hann eru hins vegar dætur okkar Leifs sem bera svo mörg sérkenni hans. Margrét María og Inga María hafa báðar mildina hans og Inga María einnig augu hans. Þær komu sem perlur inn í líf hans og fylgdist hann af alúð með þroska þeirra og lífsskrefum og gladdist yfir hverjum áfanga.

Bænir hans og hugsanir hafa frá fyrstu dögum þeirra snúist um þær. Á síðasta æviári Bárðar var Máni langafabarnið hans gimsteinninn sem hann taldi glóa öðrum fremur. Vakti ekkert með honum jafnmikla gleði og nærvera við Mána.

Bárður kvaddi jarðlífið á síðasta kvöldi jóla og bar með sér jólaljósin inn í dýrðina eilífu.

Allar minningar mínar um Bárð Ísleifsson eru sveipaðar himneskum ljóma.

Vilborg Ingólfsdóttir.

Léttstígur og beinn í baki, silfurhærður með hátt enni, - það er bjart í kringum þennan höfðinglega mann.

Þetta er Bárður Ísleifsson.

Það var eins og alltaf væri birta og sólskin í kringum Bárð. Hann var svo óvenjulega jákvæður og sá alltaf eitthvað gott og fagurt við allt og alla. Jafnvel veðrið lastaði hann

ekki. "Ljómandi veður," sagði hann svo mildilega, þó rigningin byldi á glugganum.

Hann var heiðursmaður af gamla skólanum, kurteis og skilningsríkur hlustandi, hlédrægur fyrir sjálfan sig og ávallt tilbúinn að hjálpa öðrum. Heilladísin hans var Unnur, eiginkonan hans, vinkonan hans, ástkonan hans, listakonan hans.

Bárður var ljúfur höfðingi. Þegar ég hugsa um ljúfmennsku hans og kurteisina sönnu þá spyr ég sjálfa mig hvort svona heiðursmenn verði til í framtíðinni, á þessum breyttu og þreyjulausari tímum.

Bárður átti langt líf og lífið hans varð gott því viðhorf hans voru slík að hann lét ekki hugfallast þótt dimmdi við barnamissi og alla erfiðleika bar hann prúðmannlega.

Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað.

Vinur aftansólar sértu,

sonur morgunroðans vertu.

Þessi orð Stephans G. gætu verið yfirskrift yfir lífið hans Bárðar. Glaður og reifur, hæverskur og sáttur bar hann birtu til okkar allra sem fengum að njóta nærveru hans og vináttu.

Fyrir það þökkum við öll, fjölskyldan okkar.

Bárður var maður birtunnar.

Ég sé hann fyrir mér, léttstígan og bjartleitan, við hið Gullna hlið. Þar verður tekið vel á móti þessum ljúfa höfðingja.

Þorgerður

Ingólfsdóttir.

Margar góðar minningar og dýrmætar koma upp í huga okkar við andlát Bárðar Ísleifssonar, þess mæta manns. Þau hjón, Unnur og Bárður, voru sannkallaðir örlagavaldar í lífi okkar. Þegar við giftum okkur byrjuðum við búskap á heimili þeirra á Reynimel og nokkru síðar útveguðu þau okkur leiguíbúð í næsta húsi. Seinna fengum við lóð í smáíbúðahverfi. Teiknaði Bárður húsið og gaf okkur teikninguna að húsinu og var okkur á margan hátt til aðstoðar við bygginguna. Tíu árum seinna, þegar bætt var við húsið endurtók sagan sig.

Fyrir þetta og margt fleira sem við áttum saman að sælda á langri vegferð viljum við að leiðarlokum þakka. Á þau löngu kynni og samferð alla féll aldrei neinn skuggi.

Genginn er sannur heiðursmaður, sem mátti ekki vamm sitt vita og var þekktur fyrir alúð, heiðarleika og vandvirkni í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og eru það góð eftirmæli sérhvers manns. Blessuð sé minning hans.

Hulda og Óðinn.

Er ég frétti af andláti Bárðar Ísleifssonar arkitekts 6. jan sl. kom mér það ekki á óvart.

Ég hafði fylgst með þessum mæta manni um nokkurra ára skeið.

Bárður var listamaður á sínu sviði og allra manna hugljúfi er honum kynntust.

Ég vil með orfáum orðum staldra við og þakka allar ánægjustundir, er ég naut með Bárði og Unni eiginkonu hans á þeirra heimili og með sameiginlegum vinum.

Minningin um þær stundir ylja, því fátt er dýrmætara en slíkar minningar og verða þær því kærari eftir því sem árin líða.

Bárður náði 94 ára aldri og var eftir því sem ég best veit óvenju hress til hins síðasta.

Allir sem til þekktu höfðu miklar mætur á því mikla starfi sem Bárður vann sem arkitekt.

Hann hlaut Riddarakross hinnar íslensku fálkorðu 1960 og Skálholtsorðuna 1963.

Nú er jarðnesku lífi Bárðar lokið.

Far þú í friði

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hanns dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Ég sendi Unni, börnunnum og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Anna

Hansen.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.