MARGT bendir til að samkomulag sé hugsanlegt á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líftækniiðnað og erfðabreytt matvæli í Montreal í Kanada.
MARGT bendir til að samkomulag sé hugsanlegt á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líftækniiðnað og erfðabreytt matvæli í Montreal í Kanada. Kom það fram í máli aðalsamningamanns Bandaríkjanna í gær en Bandaríkin og fimm önnur ríki komu í veg fyrir árangur af sams konar ráðstefnu í Kólumbíu fyrir ári.

"Við erum mjög hlynntir reglum, sem vernda umhverfið án þess að leggja hömlur á viðskipti með matvæli, og teljum að samkomulag um það geti tekist," sagði David Sandalow, aðalsamningamaður Bandaríkjanna á ráðstefnunni, og Richard Ballhorn, aðalsamningamaður Kanada, sagði að viðræðurnar gengju mjög vel. Fulltrúar ýmissa þróunarríkja, þar á meðal Kína og Indlands, voru þó ekki jafn ánægðir og sögðu að í málamiðlunartillögunum væri ekki tekið á áhyggjum þeirra af erfðabreyttum matvælum.

Á ráðstefnunni hefur mikið verið um það deilt hvernig unnt sé að ganga úr skugga um að erfðabreytt matvæli séu hættulaus og vilja sum ríki hafna þeim með öllu þar til sannað hefur verið að óhætt sé að neyta þeirra. Afstaða Bandaríkjamanna hefur hins vegar verið sú, að verslun með erfðabreytt matvæli skuli heimil þar til sannað hafi verið að þau séu hættuleg.

Sandalow og fulltrúar hinna ríkjanna fimm, Kanada, Argentínu, Chile, Uruguay og Ástralíu, lýstu því þó yfir í fyrradag að þeir gætu fallist á einhvers konar varúðarreglur hvað varðaði erfðabreytt matvæli. Þá sagði Sandalow að væntanlegar reglur um öryggi erfðabreyttra matvæla ættu að hafa sama gildi og alþjóðlegir sáttmálar. Með því var hann að sefa ótta Evrópumanna við að Bandaríkjamenn krefðust þess að reglur Heimsviðskiptastofnunarinnar, WTO, yrðu einar látnar ráða ferðinni. Öryggisreglurnar um erfðabreyttu matvælin og reglur WTO yrðu sem sagt jafn réttháar, en sumir fulltrúar þróunarríkjanna vilja að öryggi umhverfisins verði rétthærra viðskiptahagsmunum.

Í málamiðlunartillögunum, sem Bandaríkjamenn styðja, munu reglurnar um öryggi erfðabreyttra matvæla aðeins taka til alþjóðlegra umhverfismála en eftir sem áður getur hvert ríki verið með sínar eigin reglur hvað þetta varðar.

Kanadamenn tala máli Bandaríkjamanna

Ráðstefna SÞ í Montreal er haldin í anda samþykktarinnar um líffræðilegan fjölbreytileika en Bandaríkjaþing hefur aldrei fallist á hana. Bandaríkjamenn eru því í raun ekki fullgildir þátttakendur og eiga því engan fulltrúa í eiginlegum samningaviðræðum. Þess vegna reiða þeir sig á Kanadamenn og fulltrúa hinna ríkjanna fjögurra eða Miami-hópinn, sem svo er kallaður. Hefur það vakið óánægju meðal sumra Kanadamanna, sem saka Kanadastjórn um að vera aðeins málpípa Bandaríkjastjórnar.

Umræða um þessi mál er mikil í Bandaríkjunum og einnig í Kanada þar sem samtök heilsuverslana hafa krafist þess af stjórnvöldum að erfðabreytt matvæli verði sérstaklega merkt. Þá ætla þessar verslanir sjálfar að auðkenna þær vörur sínar sem ekki innihalda erfðabreytingar af neinu tagi.

Eitraður maís

Margir hafa áhyggjur af hugsanlega óhollum áhrifum erfðabreyttra matvæla á neytendur en mestur ótti er þó við að erfðabreyttar nytjajurtir geti valdið stórslysi í náttúrunni. Þær geti auðveldlega dreifst og hugsanlega útrýmt öðrum tegundum og með kynblöndun valdið ónæmi fyrir skordýraeitri í jurtum sem almennt er litið á sem illgresi.

Rannsókn, sem gerð var við Cornell-háskólann í Bandaríkjunum á síðasta ári, leiddi í ljós að erfðabreyttur maís er eitraður fyrir keisarafiðrildi. Er það vegna þess, að nú framleiðir hann sitt eigið skordýraeitur.