Leikstjórn og handrit: Michael Hoffman. Kvikmyndataka: Oliver Stapleton. Aðalhlutverk: Kevin Kline, Michelle Pfeiffer, Rupert Everett, Stanley Tucci, Calista Flockhart og Christian Bale. (116 mín.) Bandaríkin. Skífan, janúar 2000. Öllum leyfð.
AF einhverjum ástæðum kjósa aðstandendur þessarar nýjustu uppfærslu á Jónsmessudraumi að láta atburði eiga sér stað í Toscana-héraði á 19. öld. Ef til vill er markmið þessarar tilfærslu frá Grikklandi hinu forna til Ítalíu á tímum reiðhjólsins að gera kvikmyndina aðlaðandi í augum bíógesta og tengja hana um leið við aðra vinsæla kvikmyndaútfærslu á Shakespeare-gamanleik, þ.e. Ys og þys út af engu, í leikstjórn Kenneths Branaghs, sem tekin var í hinu rómantíska umhverfi héraðsins. Jónsmessudrauminn sem hér um ræðir skortir hins vegar mikið af þeirri lipurð er einkenndi uppsetningu Branaghs. Ævintýrið kemst aldrei almennilega af stað og kómedían nær aldrei að lifna við. Þrátt fyrir bráðskemmtilegt og fjölbreytt leikaraval er samstillingu leikara ábótavant og virðist glíman við texta meistarans hafa verið látin eftir hverjum að leysa úr eftir bestu getu. Í lokaatriðinu tekst reyndar vel til. Þessi kvikmyndaútfærsla er litfögur og áferðarfalleg en tekst engan veginn að gæða verk Shakespeares lífi.

Heiða Jóhannsdóttir