LANDSSÍMINN ætlar að verja á annan milljarð króna á þessu ári til uppbyggingar á GSM-kerfinu. Þetta verður mesta uppbygging sem átt hefur sér stað í GSM-kerfi Símans á einu ári til þessa.
LANDSSÍMINN ætlar að verja á annan milljarð króna á þessu ári til uppbyggingar á GSM-kerfinu. Þetta verður mesta uppbygging sem átt hefur sér stað í GSM-kerfi Símans á einu ári til þessa. Undirritaður var í gær samningur milli Símans og Ericsson, sem afhendir tæknibúnað sem notaður verður við uppbyggingu kerfisins. Þórarinn V. Þórarinsson, forstjóri Landssímans, sagði við það tækifæri að nú væri svo komið að fleiri virk númer væru í farsímakerfunum en í fastlínukerfunum.

Þórarinn segir að í uppbyggingu GSM-kerfisins á þessu ári verði einkum lögð áhersla á að bæta samband á vinsælum ferðamannastöðum og á fjölfarnari vegum og að kerfið muni ná til 97% allra landsmanna. Slíkt væri árangur sem líklega ekkert annað farsímafyrirtæki gæti státað af við svipaðar aðstæður.

Hann kveðst sannfærður um að allir þröskuldar í GSM-kerfinu muni hverfa að loknum þessum framkvæmdum þar sem móðurstöð GSM-kerfisins verði jafnframt tvöfölduð, sem eykur afköst og öryggi kerfisins. "Auðvitað geta komið upp aðstæður þar sem bið verður eftir þjónustunni, eins og t.d. á Laugavegi á Þorláksmessu, vegna þess að þar höfum við ekki línur inn á svæði í samræmi við þann tímabundna fjölda sem þar kemur saman," segir Þórarinn.

WAP-gátt í notkun í lok febrúar

Áformað er að stækka dreifisvæði Símans GSM til muna með 60 nýjum GSM-stöðvum um allt land, þar af 47 á landsbyggðinni og 13 á höfuðborgarsvæðinu. Dreifistöðvum fjölgar því úr 150 í 210 eða um meira en þriðjung og verður framkvæmdinni dreift niður á þrjá áfanga.

Jafnframt uppbyggingu í GSM-kerfinu verður boðið upp á nýja þjónustu í kerfinu og þar ber hæst svokallaða WAP-þjónustu. Þórarinn V. Þórarinsson sagði að þarna væri á ferðinni samtvinnun síma og tölvunnar, sem svo mjög hefði verið í umræðunni undanfarin misseri. Magnús Ögmundsson, framkvæmdastjóri farsímasviðs Símans, sagði að keypt hefði verið WAP-gátt frá Ericsson sem verður komin í gagnið í lok febrúar. Hann segir að með WAP-gáttinni geti Síminn boðið mun styttri tengitíma en verið hefur. Hann lækkar úr 20-40 sekúndum í u.þ.b. 5 sekúndur. Gjaldið fyrir mínútu í gáttina er 16 krónur í stað 18 krónur ef hringt er í gegnumnetþjónustuaðila.

Þangað til gáttin verður tekin í notkun býður Síminn viðskiptavinum sínum aðgang að WAP-þjónustu með bráðabirgðalausn. Með því að hringja í númerið 8900900 fá þeir aðgang að WAP-fordyri Símans, http://wap.is/, þar sem verða tengingar á innlenda og erlenda WAP-vefi.

Sérstaða Finna, Íslendinga og Norðmanna

Ole Kaalund Rasmussen, viðskiptastjóri hjá Ericsson í Danmörku, sagði að með þeirri uppbyggingu sem nú yrði hrundið af stað í GSM-kerfi Símans ykist afkastageta kerfisins til muna sem og öryggi þess. Rasmussen sagði að þrjú lönd í heiminum, Finnland, Ísland og Noregur, hefðu algera sérstöðu hvað varðar útbreiðslu GSM-kerfisins.

Hann segir að sú ákvörðun Landssímans að byggja GSM-kerfið enn frekar upp þannig að það nái til 97% allra landsmanna gefi Íslendingum tækifæri til þess að ná forystunni af Finnum í útbreiðslu á notkun GSM-síma.