UNDIRBÚNINGUR Reykjavíkur vegna Staðardagskrár 21 er vel á veg kominn, að sögn Hjalta Guðmundssonar, verkefnisstjóra Staðardagskrár 21 hjá borginni. Undanfarin 2 ár hefur verið unnið að því að koma koma staðardagskrá 21 á í Reykjavík.
UNDIRBÚNINGUR Reykjavíkur vegna Staðardagskrár 21 er vel á veg kominn, að sögn Hjalta Guðmundssonar, verkefnisstjóra Staðardagskrár 21 hjá borginni.

Undanfarin 2 ár hefur verið unnið að því að koma koma staðardagskrá 21 á í Reykjavík. Umhverfisstefna borgarinnar var samþykkt í borgarstjórn 1998 en mótun slíkrar stefnu um framtíðarsýn og stefnu í umhverfismálum var fyrsta skrefið í ferlinu.

Könnun meðal borgarbúa

Hjalti segir að þegar framtíðarsýn umhverfisstefnunnar hafi legið fyrir hafi verið unnið stöðumat umhverfismála í borginni og lá það fyrir á síðasta ári. Liður í því var gerð skoðanakönnunar meðal 800 borgarbúa á ýmsum viðhorfum til umhverfismála enda segir Hjalti það eitt grundvallaratriða Staðardagskrárinnar að rödd borgarbúa fái að hljóma í stefnumótunarvinnunni.

Meðal niðurstaðna í könnuninni var að 58% Reykvíkinga telja sig ekki verða fyrir óþægindum vegna loftmengunar á heimili sínu, 13% segja áhrifin mjög lítil, 11% frekar lítil, 3% hvorki lítil né mikil, 11% frekar mikil og 5% mjög mikil. Almennri spurningu um viðhorf til umhverfismála svöruðu

93% þannig að umhverfismál skiptu sig miklu máli, 3% hvorki litlu né miklu og 4% litlu eða engu máli.

Einnig voru þátttakendur beðnir að forgangsraða viðfangsefnum í umhverfismálum. Þar voru efst á blaði loftmengun, umferðaröryggi, flokkun og endurvinnsla, útivistarsvæði, umgengni borgarbúa og verndun strandlengju.

Hjalti segir að nú sé búið að skilgreina málaflokkana sem staðardagskrá borgarinnar nær yfir og verið sé að vinna að markmiðssetningu og undirbúningi framkvæmdaáætlana sveitarfélagsins og stefnt sé að því að ljúka henni á þessu ári.

Lögð verður áhersla á að afla þekkingar um ýmislegt sem að þeim vandamálum, sem við er að etja, snýr. T.d. nefnir Hjalti, að væntanlega verði tekið á einu helsta áhyggjuefni borgarbúa, áhrifum loftmengunar, með þeim hætti að gera athugun á uppruna loftmengunar í borginni, svo hægt verði að taka á vandamálinu frá rótum. Hann segir að Heilbrigðiseftirlit borgarinnar hafi reglulega mælt loftmengun og því liggi fyrir hve mikil hún er en eftir eigi að rekja upptök hennar. Slíkrar þekkingar þurfi að afla áður en hægt verði að bæta úr.

Grænt bókhald

Miðað er við að vinna við staðardagskrána verði í framtíðinni stöðugt í endurskoðun enda sé þetta ferli sem lýkur aldrei.

Meðal annars sem stefnt er að er að taka upp svokallað grænt bókhald fyrir borgina sem mælikvarða á ástand umhverfismála með tilliti til sjálfbærrar þróunar.

Hjalti segir líklegt að þegar Staðardagskrá 21 verður hrundið í framkvæmd verði farið af stað með tilraunaverkefni í bættri flokkun sorps, nýtingu á vatni og slíku til að fá almenning til þátttöku.