ALLT fólk sem er að komast undan einhvers konar fíkn þarf á aðstoð að halda. Þinni aðstoð. Þú mátt ekki dæma það samkvæmt fyrri mistökum. Fólk verður að fá rými til að breytast.
ALLT fólk sem er að komast undan einhvers konar fíkn þarf á aðstoð að halda.

Þinni aðstoð. Þú mátt ekki dæma það samkvæmt fyrri mistökum. Fólk verður að fá rými til að breytast. Í námskeiðahaldi mínu sem tóbaksvarnaráðgjafi hitti ég fjölmarga sem hafa reynt að hætta að reykja en gefist upp vegna þess að þeir fá ekkert nema neikvætt áreiti frá umhverfinu. Hér koma nokkrar algengar setningar sem flokkast undir neikvætt áreiti. "Ég gef þér tíu daga." "Ég hef enga trú á því að þú náir að hætta." "Er þetta ekki erfitt?" "Þú ert alltaf að hætta. Af hverju ætti það að takast í þetta sinn?" Neikvætt áreiti er einmitt það sem fólk sem er að komast undan fíkn þarf ekki á að halda, alveg sama hversu oft því hefur mistekist áður. Þitt framlag felst í hrósi. Maðurinn er tilfinningavera og þarf á hrósi að halda.

Öllum gengur betur þegar þeim er hrósað. Þú þarft mögulega að sníða hrósið að persónuleika viðkomandi, sjá hvort aðilinn þarf klapp á bakið, faðmlag eða stutta setningu á borð við: "Þetta gengur vel hjá þér." Þeir sem ennþá eru fíklar ættu að styðja þá sem vilja komast undan fíkn sinni, jafnvel þótt það fækki í minnihlutahópunum. Gullna reglan er: Ef þú hefur ekkert fallegt að segja, þegiðu þá! Jafnvel þótt ég sérhæfi mig í því að hjálpa fólki að hætta að reykja á þessi regla við um allar fíknir og hegðun almennt. Neikvætt áreiti er mannskemmandi og óþarft. Þeir sem standa fíklunum næst, t.d. makar og börn, ættu að leggja sig harðast fram við að hrósa og skapa þeim jákvætt umhverfi.

Ekki búast við því að fólki mistakist ætlunarverk sín. Jákvæði og jákvæðar væntingar eru það sem við þurfum öll á að halda.

Algengasta setningin sem ég heyri frá fólki sem kemur til mín á námskeið er: "Ég hefði ekki trúað að þetta yrði svona auðvelt!" Þar liggur hundurinn grafinn. Okkar eigin sannfæringar og sannfæringar samfélagsins, oft neikvæðar, hjálpa okkur að mynda rangar skoðanir á því hvernig okkur á að ganga að komast undan fíknum.

Hvort sem við trúum því að við getum eitthvað eða ekki, höfum við rétt fyrir okkur! Hjálpum þeim sem vilja gera breytingar á eigin lífi - á endanum hefur það jákvæð áhrif á allt og alla í kringum okkur.

GUÐJÓN BERGMANN,

tóbaksvarnaráðgjafi

Brautarholti 8, Reykjavík.

Frá Guðjóni Bergmann: