[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FJÖRUTÍU ár eru í dag liðin frá því að varðskipið Óðinn sigldi til hafnar í Reykjavík í fyrsta sinn. Skipið, sem er elst þeirra varðskipa sem nú eru í notkun, hefur marga hildina háð á Íslandsmiðum, m.a.
FJÖRUTÍU ár eru í dag liðin frá því að varðskipið Óðinn sigldi til hafnar í Reykjavík í fyrsta sinn. Skipið, sem er elst þeirra varðskipa sem nú eru í notkun, hefur marga hildina háð á Íslandsmiðum, m.a. verið beitt í þremur þorskastríðum og tekið þátt í björgun um 370 skipa.

Óðinn kom til hafnar í Reykjavík 27. janúar 1960 eftir þriggja sólarhringa siglingu frá Álaborg í Danmörku þar sem skipið var smíðað, fjórum árum eftir að Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, bar fram á Alþingi ályktun um smíði nýs varðskips fyrir Íslendinga. Skipið er 880 rúmlestir, 64 metra langt og 10 metra breitt. Sama aðalvélin hefur knúið skipið áfram í rúm 40 ár, því sem nemur upp undir 40 hringi í kringum hnöttinn.

Bjargað 370 skipum

Óðinn hefur alla tíð verið viðloðandi björgunarstörf og landhelgisgæslu. Skipið hefur staðið að aðstoð eða björgun um 370 skipa frá upphafi. Eitt frægasta björgunarafrekið vann áhöfn Óðins í mikilli björgunaraðgerð í Ísafjarðardjúpi 1968 þegar bjargað var skipverjum af breskum togara sem strandaði undir Snæfjallaströnd við hrikalegar aðstæður. Þá var skipherra á Óðni Sigurður Þ. Árnason. Síðustu árin hefur skipið sinnt ýmsum sérverkefnum, m.a. annast viðhald og endurnýjun siglingabauja. Óðinn var einnig fyrsta varðskip Íslendinga til að fylgja fiskveiðiflota í úthafið þegar hann fór sem hjálparskip með síldarflotanum norður fyrir Jan Mayen í lok 7. áratugarins og var einnig íslenskum togurum til aðstoðar í Smugunni í Barentshafi á árunum 1994-6.

Lent í ýmsum pústrum

Kristján Þ. Jónsson skipherra hefur að eigin sögn verið viðloðandi Óðin allt frá árinu 1968 og var skipherra á skipinu um árabil. Hann segir að Óðinn hafi náð í skottið á deilunum við Breta um útfærslu landhelginnar í 12 mílur. "Óðinn var hinsvegar í hringiðu þorskastríðsins vegna útfærslu landhelginnar í 50 mílur árið 1972. Hann lenti þá í ýmsum átökum, beitti togklippunum óspart og lenti í ásiglingum. Ég var meðal annars um borð þegar dráttarbáturinn Lloydsman sigldi á okkur, svo að taka þurfti skipið í slipp á Akureyri."

Óðni var siglt til Árósa í Danmörku sumarið 1975 þar sem gerðar voru talsverðar breytingar á skipinu, sett á það þyrluskýli og tveir skorsteinar. Þá voru tveir léttabátar fjarlægðir af skipinu. "Það hafði sýnt sig að bátarnir voru of stórir og óþjálir í sjósetningu og söfnuðu á sig mikilli ísingu. Þeir voru því fjarlægðir og allur búnaður sem þeim fylgdi."

Þegar Óðinn kom úr breytingunum síðla árs 1975 var 200 mílna þorskastríðið hafið og fékk skipið þar ýmsa pústra að sögn Kristjáns, missti meðal annars skrúfu í einni ásiglingunni. "Þetta er hörkuskip og hefur reynst vel. En skipið er orðið 40 ára gamalt og það eru fyrirsjáanlegar miklar og kostnaðarsamar endurbætur á því. Því verður því að öllum líkindum lagt þegar nýtt varðskip verður tekið í notkun."

Í fyrstu voru alls 27 menn í áhöfn Óðins en eru aðeins 18 í dag sem Kristján segir vera lágmarksfjölda til að skipið sé starfshæft sem björgunarskip. Hann segir að margir hafi byrjað sinn starfsferill um borð í Óðni. "Meðal annars var Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, viðvaningur og háseti á dekki á Óðni á sínum tíma. Þannig hafa margir ungir menn komið um borð í Óðin og lært að vinna og að bjarga sér sjálfir," segir Kristján.

Skip með sál

Einar H. Valsson er núverandi skipherra á Óðni. Hann segir skipið eldast vel og láta ennþá ljómandi vel að stjórn. "Fjörutíu ár er kannski ekki svo ýkja hár skipsaldur en það fer vissulega eftir því hvernig er hugsað um skipið. Reyndar má segja að ekki hafi mikið verið endurnýjað í þessu skipi, skrokkur og yfirbygging eru upprunaleg. Eins er vélbúnaðurinn upprunalegur en öllu þessu hefur verið haldið mjög vel við og er í góðu standi og eru vélarnar komnar tvöfalt fram yfir þann tíma sem framleiðandinn lofaði. Vitaskuld hefur ýmislegt verið endurnýjað, enda komnar fram margar nýjungar í siglingatækjum og fjarskiptatækjum, en vissulega eldist skipið eins og annað og sjálfsagt kemur að því að Óðni verður skipt út fyrir nýtt skip. En hann er enn í fullu fjöri. Hann hefur staðið af sér ýmsa hildarleiki, þar á meðal þrjú þorskastríð og hefur verið farsælt skip og reynst afskaplega vel. Skipið hefur sál, manni líður vel þarna um borð og þykir orðið vænt um skipið."

Greint var frá heimkomu Óðins í Morgunblaðinu 28. janúar 1960. Allmargt fólk hafði safnast saman á Ingólfsgarði og fylgdist með þessari fyrstu innsiglingu skipsins í Reykjavíkurhöfn. Þegar landfestar höfðu verið bundnar í fyrsta sinn gekk þáverandi dómsmálaráðherra, Bjarni Benediktsson, um borð ásamt fylgdarliði og skoðaði skipið í fylgd Eiríks Kristóferssonar skipherra og Péturs Sigurðssonar, þáverandi forstjóra Landhelgisgæslunnar. Ráðherrann ávarpaði áhöfn Óðins og bauð þá velkomna til landsins. Sagði hann það fagnaðarefni að nýtt skip hefði bæst við hinn litla flota gæsluskipa sem samboðið væri hinum vösku mönnum er sækja sjóinn til að gæta þar lífshagsmuna þjóðarinnar. "Gifta fylgi hinum nýja. glæsta Óðni og megi hann koma rammefldur og heill á húfi úr hverri raun," sagði ráðherrann meðal annars.