Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans, kynntu söfnunarátak sem er miðað að því að styðja við þróunarverkefni á sviði fjarkennslu og upplýsingatækni við háskólann.
Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans, kynntu söfnunarátak sem er miðað að því að styðja við þróunarverkefni á sviði fjarkennslu og upplýsingatækni við háskólann.
"HÁSKÓLINN á Akureyri þarf á öflugum stuðningi að halda og á víða vísan stuðning" segir í bréfi sem tæplega 40 manns rita undir, en hópurinn hefur ákveðið að efna til almennrar söfnunar til að efla Háskólann á Akureyri.
"HÁSKÓLINN á Akureyri þarf á öflugum stuðningi að halda og á víða vísan stuðning" segir í bréfi sem tæplega 40 manns rita undir, en hópurinn hefur ákveðið að efna til almennrar söfnunar til að efla Háskólann á Akureyri. Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður á Akureyri sem sæti á í undirbúningshópi vegna söfnunarinnar kynnti átakið á fundi á Akureyri.

Markmiðið með átakinu er að sögn Björns Jósefs að gera háskólanum kleift að vinna enn betur en nú að því að flytja háskólanám nær fólkinu í landinu. Takist það geta landsmenn allir hvar sem þeir búa á landinu notið þjónustu Háskólans á Akureyri. Söfnunarfénu verður varið til að styðja þróunarverkefni á sviði fjarkennslu og upplýsingatækni, útvega fullkomnari búnað til fjarkennslu og efla tölvukost háskólans.

Leitað verður til fyrirtækja, sveitarfélaga og einstaklinga um land allt í þeirri von að sem flestir sjái sér fært að láta eitthvað af hendi rakna. Sparisjóður Norðlendinga hefur tekið að sér fjárvörslu fyrir þessa söfnun og hefur verið opnaður reikningur þar númer 1145-26-3900.Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri sagði átakið merki um mikla velvild og fórnfýsi í garð háskólans. Það væri einnig mikilvæg viðurkenning á gildi hans og þeirri starfsemi sem þar færi fram. Hann sagði sífellt meiri áherslu lagða á fjarkennslu við háskólann, enda væri það sjónarmið ríkjandi að einfaldara væri að flytja tæknina til fólksins en að safna fólki saman á einn stað til að njóta ávaxta tækninnar. "Þetta er mikilvægt atriði í byggðaumræðunni," sagði rektor.

Hann sagði búnað sem til þyrfti dýran og framfarir miklar þannig að menn mættu hafa sig alla við að fylgjast með því nýjasta. Því væri ánægjulegt að hópur valinkunnra Íslendinga hefði tekið sig saman um að styðja við bakið á háskólanum og efla þannig þau þróunarverkefni sem framundan væru á sviði fjarkennslunnar.

"Fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar hafa oft í 12 ára sögu háskólans sýnt mikinn rausnarskap og ég trúi því að svo verði einnig nú," sagði Þorsteinn.