Ásdís og Marta Ólafsdætur opna vef átaksins AUÐUR í krafti kvenna ásamt móður sinni Guðrúnu Pétursdóttur, formanni verkefnisstjórnar.
Ásdís og Marta Ólafsdætur opna vef átaksins AUÐUR í krafti kvenna ásamt móður sinni Guðrúnu Pétursdóttur, formanni verkefnisstjórnar.
AUÐUR í krafti kvenna er átak til atvinnusköpunar kvenna sem hleypt var af stokkunum í gær.
AUÐUR í krafti kvenna er átak til atvinnusköpunar kvenna sem hleypt var af stokkunum í gær. Guðrún Pétursdóttir er formaður verkefnisstjórnar átaksins en í ávarpi sínu við kynningu á verkefninu lagði hún áherslu á að nýjar rannsóknir sýndu að ný fyrirtæki stuðluðu hvað mest að auknum hagvexti og skilvirkasta leiðin til að fjölga fyrirtækjum væri að hvetja konur til atvinnusköpunar.

Á Íslandi eru skráð fyrirtæki í eigu kvenna um 18% en til samanburðar er hlutfallið 38% í Bandaríkjunum. Guðrún segir atvinnulífið hafa farið á mis við sköpunarkraft kvenna og hjól hagkerfisins sem konur gætu fengið til að snúast og skapa verðmæti standa kyrr fyrir vikið. Oft væri ástæðan áhættufælni eða skortur á sjálfstrausti hjá konum, en úr því mætti bæta með fræðslu og hvatningu.

Að átakinu standa Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Íslandsbanki, auk Morgunblaðsins og Deloitte&Touche. Fulltrúar frá þessum aðilum skipa verkefnisstjórn sem falið hefur Háskólanum í Reykjavík að annast framkvæmd verkefnisins.

Halla Tómasdóttir frá Háskólanum í Reykjavík er framkvæmdastjóri átaksins. Hún kynnti námskeið og atburði sem verða á vegum átaksins á næstu þremur árum. Til dæmis mun AUÐUR tileinka einn dag á ári dætrum Íslands. 18. apríl nk. mun ungum stúlkum verða boðið til vinnu með fullorðnum. Markmiðið er að gefa þeim tækifæri til að kynnast þeim fjölbreyttu möguleikum sem atvinnulífið hefur að bjóða.

Einnig verða starfræktar leiðtogabúðir, FramtíðarAUÐUR, fyrir stúlkur á aldrinum 13-16 ára á næstu þremur sumrum. Fimmtíu stúlkum verður boðin þátttaka í kjölfar ritgerðasamkeppni um nýsköpun.