SKÓLANEFND Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði (FVÍ) hefur lagt til að nafni skólans verði breytt í Menntaskólinn á Ísafirði að því er fram kemur í blaðinu Bæjarins besta á Ísafirði.
SKÓLANEFND Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði (FVÍ) hefur lagt til að nafni skólans verði breytt í Menntaskólinn á Ísafirði að því er fram kemur í blaðinu Bæjarins besta á Ísafirði. Er það í höndum menntamálaráðherra að úrskurða um nafnbreytinguna og segir í Bæjarins besta að ekki þyki ósennilegt að ráðherra staðfesti nafnið í væntanlegri kynnisferð hans til skólans í mars nk.

Skólinn hlaut nafnið Menntaskólinn á Ísafirði þegar hann var stofnaður fyrir þremur áratugum en núverandi nafn var tekið upp fyrir um áratug eftir að hann hafði verið sameinaður Iðnskóla Ísafjarðar.

Hefur ekki áhrif á núverandi starfsemi

Í bókun skólanefndarinnar um nafnbreytinguna segir að hún muni ekki hafa áhrif á núverandi starfsemi skólans en samhliða henni sé fyrirhugað að skerpa áherslur í starfi hans.

Vilji virðist vera fyrir því meðal nemenda og kennara skólans að breyta nafni hans í fyrra horf enda skrifuðu 152 nemendur og kennarar skólans undir áskorun þess efnis á síðasta vori.