HLUTABRÉF fyrirtækja sem byggja starfsemi sína á Netinu eru mörg hver töluvert hátt metin, sem kunnugt er.
HLUTABRÉF fyrirtækja sem byggja starfsemi sína á Netinu eru mörg hver töluvert hátt metin, sem kunnugt er. Í janúarhefti tímaritsins Fortune birtist úttekt dálkahöfundarins Geoffrey Colvin á verðlagningu hlutabréfa í nokkrum bandarískum netfyrirtækjum sem notið hafa mikillar velgengni á mörkuðum undanfarið.

Í úttektinni er spurt hvort verð á hlutabréfum fyrirtækja sem byggja starfsemi sína á Netinu sé komin út yfir skynsamleg mörk.

Athyglisverður samanburður við önnur fyrirtæki

Colvin segir í greininni að vel megi vera að erfitt sé að verðmeta hlutabréf í netfyrirtækjum. Fyrirtækin séu í þann mund að valda byltingu í viðskiptum, og heimur Netsins sé auk þess sífelldum breytingum undirorpinn.

Í greininni segir að þó ekki sé hægt að meta virði netfyrirtækja megi þó mynda sér skoðun á því hvers virði þau eru ekki. Í greininni eru tekin nokkur dæmi í því sambandi:

America Online netþjónustufyrirtækið, AOL, er meira virði á hlutabréfamörkuðum en bílaframleiðendurnir General Motors, Ford Motor Company og allur bandaríski stáliðnaðurinn samanlagðir. Samanburðurinn var gerður fyrir samruna AOL við Time Warner. Amazon.com bóka- og gjafavöruverslunin á Netinu, sem aldrei hefur skilað hagnaði, er meira virði en Sears, Kmart, J.C. Penney, Saks og Neiman Marcus verslunarfyrirtækin samanlögð.

Yahoo-leitarvélin á Netinu er meira virði en allt bandaríska járnbrautakerfið ásamt járnbrautafyrirtækjum samanlögð.

Red Hat, fyrirtæki sem markaðssetur Linux-stýrikerfi fyrir tölvur sem nálgast má ókeypis annars staðar á Netinu, er meira virði á hlutabréfamörkuðum en British Airways, Japan Airlines og KLM-flugfélögin samanlögð.

Vissulega eru þetta rosalegar tölur, segir í greininni, en það þarf þó ekki að þýða að verðlagningin sé röng. Þessi samanburður hvetur mann þó til frekari athugana.

Þörf á gífurlegri aukningu hagnaðar

Þegar keypt eru hlutabréf er í raun verið að kaupa væntan hagnað framtíðarinnar sem koma munu til baka til fjárfestisins í formi arðgreiðslna auk gengishækkana hlutabréfanna, færð til núvirðis.

Því er í greininni spurt hve mikið afrakstur þessara fyrirtækja þurfi að aukast í framtíðinni til að verð þeirra nú sé réttlætanlegt, enda skila þau mörg hver engum hagnaði og því ljóst að eitthvað verður hagnaður að aukast til að núverandi verð sé réttlætanlegt.

Í greininni er kynnt til sögunnar hugtakið hagsauki, eða "economic value added", EVA, á ensku, sem samsvarar hagnaði fyrirtækis af rekstri eftir skatta, að frádregnum fjármagnskostnaði, og segir að þessi stærð sé meira notuð sem mælikvarði á hlutabréfaverð en bókhaldslegur hagnaður fyrirtækja.

Í greininni eru birtir útreikningar sem unnir eru af Stern Stewart ráðgjafarfyrirtækinu sem þróaði hugtakið hagsauka, og sýna þeir að til að verð AOL sé raunhæft þyrfti hagsauki fyrirtækisins að aukast um nálægt 5 milljarða bandaríkjadala eða um 370 milljarða íslenskra króna, á hverju einasta ári, til eilífðar! Þetta er athyglisverð niðurstaða í ljósi þess að hagnaður AOL nam um 55 milljörðum króna á seinasta rekstrarári. Samkvæmt því hefði hagsauki óbreytts fyrirtækisins þurft að verða um 425 milljarðar á næsta rekstrarári, 795 milljarðar á því þar næsta, 1.165 milljarðar króna árið 2002 og um 4.100 milljarðar árið 2010 svo dæmi sé tekið.

Er það raunhæft? Í greininni eru birtar þær upplýsingar að seinasta 21 ár hafi hæsti hagsauki nokkurs fyrirtækis meðal 1.000 stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna verið árið 1998 hjá Philip Morris tóbaksframleiðandanum, og var sú tala um 370 milljarðar króna! Hagsauki AOL þarf því að aukast á hverju ári út í það óendanlega um sömu upphæð og samsvarar besta árangri sem bandarískt fyrirtæki hefur náð á einu einstöku ári á síðastliðnu 21 ári.

Fleiri dæmi eru tínd til. Hagsaukinn hjá Yahoo netleitar- og netþjónustufyrirtækinu þarf að aukast um 1,2 milljarða dollara eða tæpa 90 milljarða króna á hverju ári, einnig til eilífðar. Og hagsauki Amazon.com þarf að aukast um nálægt 500 milljónir dollara eða um 37 milljarða íslenskra króna á hverju ári, til eilífðarnóns.

Í lokin er tekið fram að þetta þýði ekki að um góð fyrirtæki sé ekki að ræða sem muni geta vaxið og dafnað til framtíðar. Einungis vakir fyrir greinarhöfundi að benda á, að líklega er verðlagning þessara fyrirtækja á markaði komin út fyrir öll skynsemismörk. Og líklega muni verð hlutabréfa í þessum fyrirtækjum nálgast jörðina aftur einhvern tímann í óráðinni framtíð.