LANDLÆKNIR hefur skipað starfshóp til að undirbúa hugsanlega leit að krabbameini í ristli og endaþarmi. "Við munum leggja til að farið verði af stað með skipulega leit að krabbameini í ristli og endaþarmi," sagði Sigurður Guðmundsson...
LANDLÆKNIR hefur skipað starfshóp til að undirbúa hugsanlega leit að krabbameini í ristli og endaþarmi.

"Við munum leggja til að farið verði af stað með skipulega leit að krabbameini í ristli og endaþarmi," sagði Sigurður Guðmundsson landlæknir. Hann sagði leit geta farið fram með þrennum hætti: Með leit að leyndu blóði í saur sem hann segir ódýra; með speglun á neðri hluta ristils sem hann segir fljótlega og í þriðja lagi með fullri ristilspeglun, en hún er dýrari. Landlæknir telur líklegast að ráðist verði í leit með tveimur fyrrnefndu aðferðunum, annarri eða báðum saman, og að fólk frá fimmtugu verði kallað í leit á hverju ári eða annað hvert ár. Hann segir rannsóknir og reynslu manna sýna að hægt sé að lækka tíðni þessara krabbameina með skipulagðri hópleit. Kostnaðinn segir hann ekki mikinn miðað við það að fækka megi tilfellum, sem hafi fjölgað hérlendis síðustu árin.

Starfshópnum hefur verið falið að kanna tilhögun leitarstarfs og leggja fram tillögur. Segir landlæknir að meðal atriða sem kanna þurfi sé hversu mikill kostnaður samfélagsins sé vegna sjúkdómsins. Í hópnum eru fulltrúar landlæknis, meltingarsérfræðinga, heilsugæslulækna og Krabbameinsfélagsins.