SAMVINNUFÉLAG mjólkurframleiðenda í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu mun eignast allt að 34% í félagi sem yfirtekur eignir og rekstur mjólkursamlaganna á Akureyri og á Húsavík.
SAMVINNUFÉLAG mjólkurframleiðenda í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu mun eignast allt að 34% í félagi sem yfirtekur eignir og rekstur mjólkursamlaganna á Akureyri og á Húsavík. Ekki er full samstaða meðal framleiðenda um niðurstöðuna, meðal annars vegna þess að KEA skerðir eigið fé mjólkursamlags síns um hálfan milljarð.

Lengi hefur verið deilt um eignarhald á mjólkursamlögunum á Akureyri og Húsavík. Fyrirtækin hafa verið skráð eign kaupfélaganna en bændur gert kröfu um beinan eignarhlut. Fyrirhugað er að stofna eitt hlutafélag um reksturinn og hafa staðið yfir viðræður við kúabændur um aðild þeirra.

500 milljónir teknar

Stjórn KEA samþykkti í gær að heimila stjórnarformanni og kaupfélagsstjóra að ganga frá samningum við bændur um allt að 34% eignaraðild framleiðendasamvinnufélags kúabænda að hinu nýja mjólkurfélagi, á móti 66% eign KEA, gegn viðskiptasamningum sem skuldbinda þá til að leggja alla mjólk í samlagið í fimm ár.

Jafnframt verður gert hluthafasamkomulag þar sem bændum eru tryggð jöfn áhrif á við kaupfélagið á stjórnun félagsins, um kauprétt bænda að hlut KEA og að greiðslur á samkeppnishæfu hráefnisverði hafi forgang fram yfir arðgreiðslur til hluthafa.

Ekki er full samstaða meðal mjólkurframleiðenda um ágæti þessa samkomulags. Hópur bænda krefst meirihlutaeignar bænda að mjólkurfélaginu. Þá gera menn úr hópnum athugasemdir við að KEA muni taka til sín 500 milljónir af eigin fé mjólkursamlags síns, áður en það verður lagt inn í nýja félagið.