HAFÍS er nú í um 23 til 29 sjómílna fjarlægð frá landi á Vestfjörðum að því er fram kom í ískönnunarflugi Landhelgisgæslu Íslands í gær. Kom í ljós að ísinn er 23 til 29 sjómílur norður af Hornströndum og 24 sjómílur norður af Skagatá.
HAFÍS er nú í um 23 til 29 sjómílna fjarlægð frá landi á Vestfjörðum að því er fram kom í ískönnunarflugi Landhelgisgæslu Íslands í gær. Kom í ljós að ísinn er 23 til 29 sjómílur norður af Hornströndum og 24 sjómílur norður af Skagatá. Þór Jakobsson, veðurfræðingur og verkefnisstjóri hafísrannsókna Veðurstofu Íslands, segir að ísröndin sé nær landi nú en í meðalári vegna langvarandi vestanáttar undanfarnar vikur.

Óhagstætt veðurútlit

Hann segir útlit fyrir að ísinn muni áfram berast austur á bóginn með straumnum og varar við því að hann geti borist nær siglingaleiðum á laugardag vegna þess að líkur séu á norðaustan hvassviðri á þessum slóðum um helgina.

"Enn er hægt að sigla norður fyrir Horn," segir Þór en vegna veðurútlitsins um helgina sé spurning hvort ísinn geti færst nær landi og orðið sjófarendum til ama. Hann bendir því skipstjórnarmönnum á að fara að öllu með gát. "Það er full ástæða til þess að vara við að siglingaleiðir geti orðið varasamar," segir hann.

Að sögn Þórs er ísinn undan Vestfjörðum all þéttur en samkvæmt mælingum Landhelgisgæslunnar mældist þéttleikinn 7-9/10 næst ísbrúninni að vestanverðu en eftir því sem austar dró var brúnin gisnari eða um 5-7/10 og allt niður í 2-3/10.