Elín Fanney Ingólfsdóttir fæddist í Reykjavík 15. september 1912. Hún lést á Vífilsstaðaspítala 20. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ingólfur Daðason, f. 22.12. 1886, d. 24.6. 1947, og Lilja Halldórsdóttir, f. 7.6. 1881, d. 6.11. 1956. Faðir hennar var verkstjóri í Reykjavík. Börn þeirra voru sjö talsins: 1) Oddfríður, f. 25.6. 1908, d. 23.3. 1995. 2) Kristín Laufey, f. 2.7. 1910. 3) Elín Fanney, sem hér er kvödd. 4) Örn, f. 21.3. 1917, d. 3.11. 1922. 5) Hrefna Solveig, f. 19.9. 1921, d. 17.11. 1945. 6) Erna, f. 9.5. 1924. 7) Dóra María, f. 20.10. 1926.

Hinn 3. ágúst 1935 giftist Fanney Hákoni Hjaltalín málarameistara, f. 17.8. 1910, syni hjónanna Jóns Hjaltalín Kristinssonar og Ingibjargar Egilsdóttur. Hákon lést 7.6. 1977. Börn þeirra: 1) Jón Hjaltalín, vélvirki, f. 13.9. 1937, d. 26.2. 1961. 2) Ingólfur Hjaltalín, læknir, f. 13.10. 1941, maki Kristrún I. Magnúsdóttir. Þau eiga þrjú börn, Þór, f. 10.5. 1966, í sambúð með Sigríði K. Þorgrímsdóttur og eiga þau tvö börn, Elínu Fanneyju, f. 18.12. 1969, maður hennar er Héðinn Þ. Helgason og eiga þau tvö börn, og Vilborgu Önnu, f. 20.12. 1972, í sambúð með Friðgeiri Rúnarssyni og eiga þau þrjú börn. 3) Gunnar Hjaltalín, lögg. endurskoðandi, f. 8.6. 1946, maki Helga R. Stefánsdóttir. Þau eiga fimm börn, Ragnheiði Huldu, f. 23.5. 1970, sambýlismaður hennar er Guðni N. Aðalsteinsson og eiga þau eitt barn, Jón Hákon, f. 8.2. 1976, Stefán, f. 2.8. 1977, Hauk Inga, f. 30.5. 1983 og Davíð Heimi, f. 15.12. 1987.

Útför Elínar Fanneyjar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Nú legg ég augun aftur,

ó Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virzt mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Með þessum sálmi viljum við kveðja elskulega ömmu okkar, Fanneyju, sem verður jarðsungin í dag.

Amma bjó í vesturbænum og kunni vel við sig þar. Hún fylgdist með strákunum sínum í KR og sjálf æfði hún íþróttir með KR á unga aldri. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til ömmu og spjalla við hana. Hún hafði mikinn áhuga á fólkinu sínu hvort sem það voru fjölskyldur sona hennar eða systra. Þær systur voru mjög samrýndar og var amma í mjög nánu sambandi við þær, en ein þeirra, hún Laufey, bjó í næstu götu við hana. Jón Hákon bjó síðastliðna tvo vetur hjá ömmu á Ásvallagötunni, á meðan hann stundaði nám sitt í Háskólanum. Það gaf honum mikið að hafa fengið að dvelja hjá henni og spjalla við hana um daginn og veginn. Aldursmunur skipti þá engu máli því alltaf var hún sér vel meðvitandi um málefni líðandi stundar og hlógu þau mikið saman.

Það var komið að leiðarlokum í hennar jarðneska lífi en við trúum nú að afstöðnum erfiðum veikindum sé hún hvíldinni fegin. Eiginmann sinn, hann Hákon afa, missti hún fyrir tuttugu og þremur árum. Þau amma og afi höfðu mikla ánægju af því að spila og minnist Ragnheiður spilamennsku þeirra þriggja og kaffiboða með gleði.

Nóttina áður en amma dó birtist afi í draumi þar sem hann sagðist eiga annríkt við að undirbúa komu ömmu til sín. Við trúum því að nú líði ömmu betur þar sem veikindi eru að baki og að amma og afi séu saman á ný ásamt Jóni syni sínum sem lést rúmlega tvítugur að aldri.

Við kveðjum elsku ömmu með söknuði og geymum góðar minningar um hana í hjörtum okkar sem og þær samverustundir sem við systkinin fimm áttum með henni. Þar sem Þórhildur, unnusta Jóns Hákonar, er við nám á Ítalíu og Guðni, sambýlismaður Ragnheiðar, starfar í London senda þau sínar innilegustu samúðarkveðjur.

Megi Guð geyma þig og hvíl þú í friði, amma.

Ragnheiður, Guðni og Andrea Helga, Jón Hákon og Þórhildur, Stefán og Nanna, Haukur Ingi og Davíð Heimir.

Nú hefur Fanney amma kvatt þennan heim, en síðustu tvö árin voru henni erfið, þar sem nýir sjúkdómar tóku við hver af öðrum.

Amma og Hákon afi hófu sinn búskap á Ásvallagötunni í vesturbæ Reykjavíkur og þar bjuggu þau alla tíð. Í huga okkar var íbúðin hennar á Ásvallagötunni eins og fastur punktur í tilverunni, athvarf þar sem gott var að koma og virtist óbreytanlegt eins og fjöllin. En tíminn vinnur á, bæði náttúru og fólki, og yngri kynslóðir eru skildar eftir með tóm í hjarta. Eftir að Hákon afi dó árið 1977 dvaldi amma mikið á heimili okkar systkinanna. Þar tók hún þátt í uppeldi okkar og var ætíð nálæg þegar eitthvað bjátaði á. Við barnabörnin uxum úr grasi og við nám var gott að eiga vinnuaðstöðu í herbergi í íbúð hennar vestur í bæ.

Amma var af þeirri kynslóð sem mundi tímana tvenna. Í kössum geymdi hún ljósmyndasafn sitt sem tók yfir næstum heila öld. Það eru ljúfar minningar, þar sem við sitjum inni í stofu og virðum fyrir okkur gömlu myndirnar. Úr einum kassanum dregur hún fram fallega mynd af sjálfri sér þriggja ára og föður sínum árið 1915. "Mynd þessi var tekin af sérstöku tilefni," segir hún. "Pabbi og mamma héldu að ég væri að deyja og þess vegna var ég klædd uppá og farið með mig á ljósmyndastofu." Árin áttu þó eftir að verða fleiri. Á annarri mynd er hún sextán ára og klædd í KR-búning, eins og sannur vesturbæingur. Á yngri árum stundaði hún íþróttir og var í kvennaliði KR í handknattleik. Amma átti einnig tengsl í sveitina og á einni myndinni er hún í útreiðartúr hjá Daða afa sínum og Maríu ömmu á Setbergi á Skógarströnd. Heyra mátti undrunartón í rödd hennar þegar hún velti fyrir sér öllum þeim breytingum sem hún hafði lifað. Frásagnargáfa virtist henni af náð gefin og notaði óspart hvort sem verið var að rifja upp lífið í Reykjavík á fyrri hluta aldarinnar eða ræða málefni líðandi stundar.

Amma hafði "græna fingur" og hún og afi bjuggu fjölskyldunni sælureit þar sem þau reistu sumarhús í Sléttuhlíð, á næstu lóð við Laufeyju systur hennar. Meðan heilsan leyfði var á hverju sumri farið og hirt um gróðurinn og nýjum trjám komið í moldina. Áratugirnir liðu og á landinu er nú kominn myndarlegur skógur. Sumarbústaðurinn varð samkomustaður fjölskyldunnar og ævintýraleiksvæði fyrir okkur börnin, enda skipulagt með þeim hætti að það þjónaði þörfum okkar sem best. Oft var glatt á hjalla og minnisstæðar eru stundirnar þar sem setið var við og spilað bridge og þar stóðust henni fáir snúning. Þó að árin færðust yfir og líkaminn færi að gefa sig var lundin síung og hugurinn skýr og með henni varð maður lítið var við kynslóðabilið.

Hún fylgdist alltaf vel með, jafnt fréttum sem atburðum í daglegu lífi og var að eðlisfari kát og fjörug, en hafði skoðanir á málum og lá ekki á þeim ef svo bar undir. Það er með sorg og söknuði sem við kveðjum Fanneyju ömmu, en einnig með þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Guð geymi þig elsku Fanney amma.

Þór, Fanney og Vilborg.

Elsku systir.

Mig langar að kveðja þig með fáeinum orðum. Það eru margar minningarnar sem koma upp í hugann. Ég man hvað ég var stolt af þér, elsku systir mín, þegar þú varst að passa okkur yngri systurnar. Þú varst alltaf svo glæsileg og vel til höfð og hafðir gaman af því að klæða þig upp. Ég var ekki há í loftinu þegar þú fluttir að heiman og stofnaðir heimili með yndislegum eiginmanni þínum, Hákoni Hjaltalín, sem lést langt fyrir aldur fram. Saman eignuðust þið þrjá myndarlega drengi og fékk ég þá að fara í barnfóstruhlutverkið.

Árið 1961 urðuð þið fyrir þeirri sáru lífsreynslu að missa ykkar elsta son, Jón Hjaltalín, úr hvítblæði, aðeins 23 ára gamlan. Þetta var mikið áfall fyrir litlu fjölskylduna á Ásvallagötunni. En lífið hélt áfram og þið áttuð líka ykkar gleðistundir. Sameiginlegt áhugamál ykkar hjóna var m.a. spilamennska og oft spiluðum við brids saman langt fram á nótt þegar þið heimsóttuð okkur hjónin í Álfheimana. Þá var oft glatt á hjalla. Allar góðu minningarnar, er við dvöldum í sumarbústaðnum ykkar, ,Hlíðarenda, með ykkar yndislegu sonum. Þá var farið í leiki, gengið á Helgafell o.m.fl. Margar ferðir fórum við utanlands sem innan sem við geymum eins og perlur í minningunni.

Þú varst listræn, smekkleg og mikill fagurkeri og vildir hafa allt hreint og fágað í kringum þig. Þú varst dama fram í fingurgóma.

Síðustu árin hafa verið þér erfið. Því miður hafa læknamistökin verið keðjuverkandi svo ekki sé meira sagt. En þú bjóst yfir miklum viljastyrk sem ég dáðist að og stóðst þig eins og hetja alla tíð.

Elsku systir, við hjónin eigum eftir að sakna þín sárt. Guð geymi þig.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Dóra og Sigurður.

Elskulega systir mín. Mér gafst ekki tækifæri til að vera í nálægð við þig þína síðustu ævidaga eins og ég hefði kosið. Hin síðari ár, þegar ég hef komið til Íslands í heimsókn, hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að búa hjá þér og njóta gestrisni þinnar og vil ég þakka þér það af heilum hug. Ég á svo margar góðar minningar um þig sem ylja mér um hjartarætur. Ég og fjölskylda mín á Long Island þökkum þér fyrir dýrmætar stundir. Með söknuð í hjarta kveð ég þig, elsku systir mín. Hvíl þú í friði.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Þín systir,

Erna.

Kynni okkar Fanneyjar voru ekki löng. Þau hófust fyrir um það bil átta árum þegar ég tók saman við sonarson hennar, Þór Hjaltalín. Ég man að Þór sagði við mig eitthvað á þá leið að það yrði ef til vill erfiðast að komast í náðina hjá ömmu hans. En okkur Fanneyju samdi vel frá fyrstu stund. Við fundum til að mynda strax út að við værum báðar í meyjarmerkinu og ættum þannig ýmislegt sameiginlegt og göntuðumst oft með það að "við meyjurnar" værum svo nákvæmar og vildum hafa allt í röð og reglu.

Fljótlega eftir að við Þór tókum saman fluttum við norður í Skagafjörð og bjuggum þar í tvö ár. Þangað heimsótti Fanney okkur oftar en einu sinni ásamt tengdaforeldrum mínum, en hún hafði afskaplega gaman af að ferðast.

Þótt hún byggi ein í gömlu íbúðinni sinni á Ásvallagötunni var hún afskaplega félagslynd. Hún tók þátt í félagsstarfi aldraðra og kom óþreytandi í öll fjölskylduboð, alltaf kát og glöð. Hún hafði líka mikið saman að sælda við hinar konurnar í húsinu á Ásvallagötunni og þá ekki síst við Laufeyju systur sína sem býr rétt hjá, á Brávallagötu.

Þótt Fanney væri komin hátt á níræðisaldur hafði maður það ekki á tilfinningunni, jafnvel þótt ellin væri farin að segja til sín með tilheyrandi heilsuleysi. Hún var svo ótrúlega hress þrátt fyrir ýmsa líkamlega kvilla. Langlífi og góð heilsa er reyndar einkenni á ætt hennar, ég vissi t.d. til þess að hún og Laufey eldri systir hennar fóru af og til að spila við föðurbróður sinn nú fyrir örfáum árum! Þótt heilsan væri vissulega farin að gefa sig héldum við satt að segja að hún myndi hrista þessi síðustu veikindi af sér líka, alveg eins og hún gerði fyrir tveimur árum. Hún var fárveik þegar við heimsóttum hana á jóladag, en á nýársdag var hún nokkurn veginn eins og hún átti að sér, kát og hress í anda. Þá vonuðum við að nú lægi leiðin upp á við. En það fór á annan veg.

Við eigum ekki eftir að fara saman út í Viðey eins og við ræddum um, þegar við hittumst á nýársdag. Þá sagði Fanney okkur að þangað hefði hún aldrei komið, en hefði verið á leiðinni þangað fótgangandi ásamt föður sínum og Laufeyju systur sinni, frostaveturinn mikla árið 1918 þegar fraus milli lands og eyjar. En þau sneru við, því henni varð svo kalt. Okkur varð hugsað til þess hve ótrúlegar breytingar Fanney og fólk af hennar kynslóð hefur lifað. Minningar hennar spönnuðu næstum alla öldina og alla þá merkisatburði og breytingar sem við lesum aðeins um í sögubókum. Margt af þessu bar á góma yfir kaffibolla á Ásvallagötunni, þegar við Þór fengum vinnuaðstöðu hjá henni meðan við vorum við nám í Háskólanum. Þegar ég var að grúska við sagnfræðiskrif leitaði ég oft til hennar til að fá lifandi mynd af Reykjavík fyrri hluta aldarinnar. Allt vildi hún fyrir mig gera og sá til þess að ég fengi nóg að borða og kaffibolla og spjall ef ég vildi, en gætti þess alltaf að trufla mig ekki við vinnuna. Það voru góðar stundir sem ég átti hjá henni þessi ár sem við höfðum herbergið og ég mun minnast þeirra stunda með hlýju.

Sigríður K. Þorgrímsdóttir.

Í glugganum á vinnuherbergi mínu í Bretlandi stendur innrömmuð ljósmynd. Hún sýnir stórfjölskyldu æsku minnar; foreldra, systkini, frændur, frænkur, tengdafólk og venslalið. Sennilega var þessi svarthvíta mynd tekin í stórafmæli móðurömmu minnar fyrir fjórum áratugum. Stundum þegar ég horfi á þessa mynd slær það mig hve mörg andlitanna eru horfin og hve mikið tómarúm hefur skapast við fráfall hvers og eins.

Nú er enn eitt andlit slokknað; Fanney móðursystir mín er látin. Fanney átti sérstakan sess í æsku minni og uppvexti. Hún bjó á Ásvallagötunni með eiginmanni sínum Hákoni Hjaltalín Jónssyni málarameistara og þremur sonum: Jóni, sem alltaf var kallaður Jonni, Ingólfi sem kallaður var Ingó og Gunnari sem allir kölluðu Didda. Fjölskylda mín bjó handan við hornið á Brávallagötunni og það sköpuðust sterk og eftirminnileg tengsl milli heimilanna tveggja. Hákon var einstaklega hlýr maður og Fanney var ávallt brosandi og væn. Hún var hlédræg kona, orðfá en glaðvær og mild augu hennar sögðu oft meira en margar orðræður. Synir þeirra urðu allir dugmiklir einstaklingar, enda þótt elsta syninum, Jonna, hafi hlotnast stutt líf en hann lést af sjúkdómi um aldur fram. Ingólfur varð farsæll barnalæknir og Gunnar framtakssamur endurskoðandi og athafnamaður. Víst er að Fanney átti mikinn þátt í að móta framtíð sona sinna - og síðar barnabarna - með kærleik og umhyggju.

Samband Fanneyjar og móður minnar Laufeyjar var einstakt. Þær ólust upp í stórum systkinahópi sem taldi sex stúlkur og einn dreng. Móðir mín var tveggja ára þegar Fanney fæddist árið 1912. Mamma tók Fanneyju strax undir sinn verndarvæng og ég held að hún hafi ekki lyft þeim væng svo lengi sem Fanney lifði. Innilegra systrasamband er vandséð. Allt frá æsku voru þær saman öllum stundum. Þegar mamma hélt ung til Kaupmannahafnar á þriðja áratugnum til náms á húsmæðraskóla linnti Fanney ekki látum fyrr en faðir þeirra samþykkti að hún fengi að dvelja hjá henni síðustu tvo mánuðina af námstímanum. Svo háð var Fanney systur sinni. Og öfugt.

Hákon og Fanney giftust um miðjan fjórða áratuginn og fluttu í þrílyft húsið á Ásvallagötunni. Foreldrar mínir bjuggu í Færeyjum á stríðsárunum en sneru aftur til Íslands að stríði loknu. Ég held að það hafi verið sjálfgefið að hefja ekki búskap á Íslandi langt frá Hákoni og Fanneyju, að minnsta kosti ekki utan Vesturbæjarins, enda öll gamlir Vesturbæingar. Þau voru öll einnig viðriðin KR og síðar þeirra börn og barnabörn. Þegar KR stofnaði handboltadeild kvenna á þriðja áratugnum var Fanney með í liðinu frá upphafi og tók þátt í mörgum sigrum þess.

Frá þeim degi sem foreldrar mínir settust að á Brávallagötunni í stríðslok leið varla sá dagur að þær systur hittust ekki eða töluðust við í síma. Þegar eiginmaður Fanneyjar lést fyrir tæpum aldarfjórðungi varð samband þeirra systra enn sterkara. Foreldrar mínir tóku Fanneyju með sér í ýmsar ferðir innanlands sem utan.

Ævi manna fer oft í hring. Eftir að faðir minn lést árið 1987 sótti móðir mín mikinn styrk í systur sína og þær urðu tvær einar á nýjan leik eins og fyrr á árum áður en eiginmenn þeirra komu til sögunnar. Þrátt fyrir langa ævi og ýmis áföll voru þær lífskátar og bjartsýnar og nutu stuðnings hvor annarrar. Þær héldu áfram að vera saman og ferðast saman. Fanney átti við vaxandi vanheilsu og veikindi að stríða á undanförnum árum. Þrátt fyrir spítalalegu og erfiðar aðgerðir fór ljóminn sjaldnast úr augum Fanneyjar og enn sem fyrr naut hún stuðnings systur sinnar sem og eigin fjölskyldu. Á hverjum degi hafði móðir mín samband við Fanneyju, allt fram á dánardag hennar fyrir viku.

Fanney var ekki manneskja sem fór mikinn í samfélaginu. Hún var hógvær alþýðukona sem hlúði vel að sínum og gætti þess smáa sem er undirstaða hins mikla og sterka. Fanneyju fylgdi lífsgleði og ylur sem lengi vermir eftir að hún er horfin á braut. Ég sendi sonum Fanneyjar og afkomendum samúðarkveðjur yfir hafið.

Ingólfur Margeirsson.

Okkur langar til að minnast ástkærrar móðursystur okkar sem kvaddi þennan heim fimmtudaginn 20. janúar sl. Um hug okkar streyma góðar minningar um yndislega konu. Fanney var sérlega trygg þeim sem hún tók, en var alls ekki allra. Varkár var hún í orði, vönd að virðingu sinni og annt um mannorð sitt og sinna. Hún naut þess að ferðast og eigum við ófáar minningar um ferðir með henni og Hákoni, eiginmanni hennar, sem féll allt of snemma frá. Margar góðar stundir áttum við í sumarbústaðnum þeirra í Sléttuhlíð þar sem ýmislegt var brallað. Ógleymanleg er ferðin sem farin var 1965 til Danmerkur og Skotlands, þar sem margir merkisstaðir voru heimsóttir og var Fanney þar hrókur alls fagnaðar. Til merkis um það hversu ern og ungleg hún var, heimsótti hún foreldra okkar í sumarhús þeirra á Spáni og var hún þá tæplega áttræð. Þar gerðist ýmislegt spaugilegt sem lengi verður í minnum haft. Alla tíð bjó Fanney á Ásvallagötunni og var það henni dýrmætt að geta notið þess að vera á heimili sínu. Það veitti henni mikla gleði að fylgjast með afkomendum sínum sem orðnir eru fjölmargir og var hún stolt er hún sýndi okkur myndir af nýjum fjölskyldumeðlimum sem höfðu bæst í hópinn. Okkar skemmtilegustu minningar af elskulegri frænku okkar eigum við þegar komið var saman í Álfheimunum í húsi foreldra okkar. Þar var oft mikið hlegið langt fram á nótt og hreif Fanney þar alla með sér með sínum smitandi hlátri. Þegar heim var haldið fannst henni gaman að keyra niður Laugaveginn og sjá næturlífið og skoða í búðarglugga. Ekki fannst okkur það síður skemmtilegt að fá að njóta nærveru hennar og gleðja hana, því hún var sérstaklega þakklát fyrir allt sem fyrir hana var gert, sama hversu lítið það var.

Elsku Fanney frænka, nú er komið að kveðjustund. Við vitum að þú varst trúuð og treystir á mátt bænarinnar og þess vegna erum við sannfærð um að vel verður tekið á móti þér í nýjum heimkynnum. Ljós þitt mun lifa áfram með okkur.

Guð blessi þig, elsku frænka okkar.

Elsku Ingó og Diddi, við sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Lilja, Anna, Erna, Ingi og Berglind.