Helga Björg Hilmarsdóttir fæddist á Borgum, Akureyri, 3. nóvember 1948. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 19. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Áslaug Þorleifsdóttir frá Ytri-Bægisá í Glæsibæjarhreppi, húsmóðir á Akureyri, f. 14.4. 1930, og Hilmar Steingrímsson, frá Árbakka í Glerárhverfi, f. 19.7 1925, d. 8.8. 1974. Sambýlismaður Áslaugar er Sigfús Stefánsson, f. 15.11. 1926, frá Efri- Rauðalæk í Glæsibæjarhreppi. Systkini Helgu eru Gunnhildur, f. 25.10. 1951, iðnverkakona, búsett á Akureyri, gift Guðbirni Jónssyni, og Gylfi, f. 1.5. 1960, iðnverkamaður, búsettur á Akureyri, kvæntur Maríu Ýri Donaire.

Frá árinu 1965 til dauðadags var Helga í sambúð með Hermanni Jónssyni, f. 17.10. 1939, frá Mýlaugsstöðum í Aðaldal, hafnarstarfsmanni á Akureyri. Foreldrar Hermanns voru Jón Kristjánsson frá Mýlaugsstöðum í Aðaldal, f. 2.5. 1895, d. 3.11. 1949, og Laufey Hernitsdóttir frá Sýrnesi í Aðaldal, f. 22.2. 1906, d. 28.3. 1984. Börn Helgu og Hermanns eru: 1) Steina Jóna, f. 14.9. 1966, meinatæknir á Akureyri, gift Núma Ingimarssyni, f. 1.2. 1963, vélstjóra. Börn þeirra eru Andrea, f. 23.3. 1992, og Helga Guðrún, f. 12.6. 1993. 2) Rúnar, f. 17.6. 1968, vélfræðingur á Akureyri, kvæntur Ragnheiði Jakobsdóttur, f. 28.10.1968, rekstrarfræðingi. Sonur þeirra er Baldvin, f. 15.1. 1994.

Helga lauk gagnfræðaprófi frá Gangfræðaskólanum á Akureyri árið 1965. Hún vann ýmis iðnaðarstörf, lengst af á Sambandsverksmiðjunum á Akureyri og síðar hjá Skinnaiðnaðinum á Akureyri, eða til 1995, en þá þurfti hún að láta af störfum vegna veikinda.

Útför Helgu fer fram frá Glerárkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Far þú í friði,

Friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyr allt og allt.

(V.Briem).

Elsku Helga. Allt er í lífinu hverfult, þú leist svo vel út þegar þú komst til okkar í sex ára afmælið hans Baldvins 15. janúar síðastliðinn. Það hvarflaði ekki að okkur að þetta ætti eftir að verða síðasta heimsóknin þín til okkar.

Það er einnig skrýtið að hugsa til þess að eiga ekki eftir að hitta þig aftur í Lyngholtinu, við eldhúsborðið að lesa blöðin, skoða spilasafnið, taka til kaffi handa okkur, eða uppi í klöpp að reyta arfa. Þú barðist hetjulega við illvígan sjúkdóm sem fyrst gerði vart við sig í lok árs 1994. Þú náðir þér fljótt vel á strik og allir trúðu að barátta þín og harka hefði skilað fullum árangri. En því miður, eftir tæplega fimm ár tók sjúkdómurinn sig upp aftur og hafði betur í þetta sinn. Ég kynntist þér fyrir rúmlega tíu árum sem fullfrískri ungri konu sem vann erfiðisvinnu og lét sér fátt um finnast. Þegar ég kom fyrst inn á heimili ykkar, tókst þú mér opnum örmum. Ég fór smám saman að flytja inn á ykkur, fyrst með sængina mína og síðan nokkrum máðuðum seinna með allt mitt dót. Þetta fannst þér alveg sjálfsagt. Þú áttir fallegt heimili, glæsilegan garð sem þú lagðir allt þitt í, færðir til blóm, bættir við nýjum tegundum, hreinsaðir beðin og betrumbættir. Það var varla hægt að hugsa sér betri tengdamóður. Við urðum fljótt góðar vinkonur, gátum talað um allt milli himins og jarðar, um barnauppeldið, um ættfræði sem var eitt af þínum helstu áhugamálum og svona gæti ég lengi talið. Þú fylgdist vel með okkur, en lést okkur fara eigin leiðir. Þú varst alltaf boðin og búin að hjálpa til ef þess þurfti, passaðir barnabörnin hvort sem um var að ræða einn klukkutíma eða nokkra daga, allt var svo sjálfsagt.

Með þessum fáu orðum kveð ég þig, kæra Helga. Missir okkar er mikill, nú hefur þú fengið nýtt hlutverk á æðri stöðum. Minningin um þig lifir í brjóstum okkar.

Takk fyrir allt.

Ragnheiður.

Enn einu sinni höfum við verið minnt á það hversu stutt lífið getur verið þegar við kveðjum vinkonu okkar Helgu í síðasta sinn.

Helga hefur í gegnum tíðina verið einn af okkar föstu punktum í lífinu, allt frá því Steina dóttir hennar byrjaði að passa okkar fyrsta barn fyrir nærri tuttugu árum. Þar fengum við ekki aðeins frábæra barnfóstru heldur líka kynntumst við heilli og mjög góðri fjölskyldu sem varð okkar bestu vinir, vinir, sem alltaf eru tilbúnir að rétta hjálparhönd ef á þarf að halda eða gefa sér tíma til að spjalla um lífið og tilveruna ef þannig ber við.

Já, lífið og tilveran voru Helgu mjög hugleikin og hafði hún ótrúlega þekkingu á ýmsum hlutum, t.d. var hún mjög vel að sér í ættfræði og varla til sá innfæddur Akureyringur sem hún kunni ekki einhver deili á. Þá var einnig gaman að ræða um blómarækt og garðrækt við þau Helgu og Hermann en þar var ekki komið að tómum kofunum, enda áttu þau margverðlaunaða lóð og voru að koma sér upp sumarbústaðarlandi austur í Aðaldal á æskuslóðum Hermanns. Þangað var ekki síður gaman að koma og er okkur sérstaklega minnisstæð berjaferð þangað sl. sumar. Berjaferð á frábærum degi eins og þeir geta bestir orðið í ágúst, í fallegu umhverfi með allri hennar fjöskyldu þar sem lífið virtist brosa við öllum.

Aðeins örfáum dögum síðar kom fyrsta áfallið er aftur greindist krabbamein hjá Helgu, en hún hafði þá í tæplega fimm ár barist við þann vágest og virtist sigur vera að vinnast á þessum tíma. Síðan má segja að allt haustið hafi verið tími veikinda og vonbrigða en samt komu alltaf góðir dagar og góðir tímar á milli, tímar sem vert er að þakka.

Það var okkur mikið áfall þegar Steina hringdi á þriðjudaginn í síðustu viku og sagði okkur að mamma sín hefði veikst þá um nóttina og mætti búast við að leiðarlok væru að nálgast. Aðeins örfáum dögum fyrr höfðum við talað saman í síma og þá var ekki grunur um neina breytingu á heilsu hennar, þótt hún væri ekki góð á þeim tíma.

En þessu verður víst ekki breytt, nú þurfum við að sætta okkur við orðinn hlut. Það verða ekki fleiri kvöld þar sem við sitjum í öðru hvoru Holtinu og spjöllum um daginn og veginn, ekki fleiri haustferðir til útlanda eða ferðir þar sem við förum öll saman. Hér eftir verðum við án Helgu. Eftir lifir minning um góða og trausta vinkonu sem leit á okkur sem jafningja sína. Minning um konu sem leit á okkar börn sem sína ættingja og vildi allt fyrir gera og var áhugasöm um þau og þeirra málefni. Minning um vinkonu sem hægt var að tala við í trúnaði og hægt var að treysta. Minning um vinkonu sem alltaf hafði nógan tíma til að vera hún sjálf, vildi standa óstudd, þoldi ekki kvart og kvein og hafði sínar skoðanir á hreinu. Minning um mjög heilsteypta persónu sem eru forréttindi að fá að kynnast og eiga að vini.

Kæru vinir, Hermann, Steina, Rúnar, Áslaug, og aðrir aðstandendur. Ykkar missir er mikill og sár, þar sem einn af föstu punktunum í tilveru ykkar er farinn. Farinn þrátt fyrir alla ykkar baráttu og stuðning sem þið veittuð henni og var henni ómetanleg eins og hún sjálf hafði orð á. Tómleikinn er mikill en með tímanum verða hlýjar og fagrar minningar honum yfirsterkari. Við biðjum góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Svana og Jón.