SJÓRÁNUM fjölgaði um tæp 40% á síðasta ári og í kjölfar þeirrar ringulreiðar sem ríkt hefur í stjórn- og efnahagsmálum í hluta Asíu og Afríku eru þau nú algeng á nokkrum fjölförnustu skipaleiðum heims.

SJÓRÁNUM fjölgaði um tæp 40% á síðasta ári og í kjölfar þeirrar ringulreiðar sem ríkt hefur í stjórn- og efnahagsmálum í hluta Asíu og Afríku eru þau nú algeng á nokkrum fjölförnustu skipaleiðum heims.

Fjölda árása og árásartilrauna á snekkjur og skip víðsvegar um heiminn fjölgaði úr 202 árið 1998 í 258 í fyrra að því er fram kemur í ársskýrslu Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMB). Að sögn Jayants Abhyankars, aðstoðarframkvæmdastjóra IMB, sýnir skýrslan að sjórán í dag einkennast af ofbeldi og miskunnarleysi.

113 sjóránanna urðu í fyrra undan ströndum Indónesíu og hafði þeim fjölgað um helming frá árinu áður. Ofbeldi færist sífellt í vöxt í Indónesíu á meðan efnahagur landsins fer síversnandi. Þá hafa vopnaðar hópar í Sómalíu haldið áhöfnum skipa í gíslingu og krafist lausnargjalds og varar IMB sjófarendur því við að halda sig í a.m.k. 50 mílna fjarlægð frá ströndum landsins.

Dauðsföllum vegna sjórána fækkaði hins vegar úr 78 árið 1998 í 3 á síðasta ári og tengist sú þróun þeirri ákvörðun Kínverja að taka harðar á slíkum brotum. Í síðasta mánuði dæmdi dómstóll í Suður-Kína til að mynda 13 sjóræningja til dauða vegna morða á 23 manna áhöfn fraktskips. Leiðtogi sjóræningjanna var sagður hafa neytt sína menn til að taka þátt í að berja áhöfnina til bana.

Fyrri hluta aldarinnar höfðu sjórán á Kínahafi á sér rómantískan blæ þar sem sjóræningjarnir vopnuðust gömlum fallbyssum. Í dag er árásarhópurinn hins vegar líklegri til að ferðast á hraðbát og hafa áhuga á peningaskáp skipstjórans. Efnahagskreppan í Asíu hefur þó haft það í för með sér að sjóræningjarnir, sem margir hverjir störfuðu áður sem fiskimenn, sætta sig við mun minni ránsfeng s.s. reipi og málningardósir.

"Sjóræningjar fara um borð fyrir jafn lítinn feng og eina málningardós sem þeir geta síðan selt fyrir 4.000 krónur og það er mikill peningur á þeirra heimaslóðum," sagði Noel Choong, svæðisstjóri hjá IMB í Kuala Lumpur. En mælt er með að sjófarendur reyni að forðast átök og láti frekar fé af hendi en að reyna að berjast við sjóræningjana.