HREYFIMYNDAFÉLAGIÐ sýnir bandarísku kvikmyndina Nashville í Háskólabíói kl. 21 í kvöld.

HREYFIMYNDAFÉLAGIÐ sýnir bandarísku kvikmyndina Nashville í Háskólabíói kl. 21 í kvöld. Myndin sem er eftir Robert Altman, þykir ein af hans bestu verkum, en þar segir hann, í gegnum mósaík mynda og hljóðs, sögu 24 persóna yfir eina helgi í kántrí-borginni miklu. Söngkonan Barbara Jean er aðalpersónan, en hún er á toppnum í geiranum, en riðar til falls.

Myndin sem er pólitísk og dramatísk tónlistarmynd ber öll höfundareinkenni Altmans, sem er sá bandaríski leikstjóri af sinni kynslóð sem einna mest hefur gagnrýnt bandarískt þjóðfélag. Það gerir hann oft í gegnum þegnana, sem honum þykir lélegir karakterar sem nota hver annan og láta nota sig, eins og kynningarstjóri stjórnmálamannsins notar kántrí-tónlistarfólkið í Nashville.

Endirinn er yfirleitt slæmur og hámarkspunkturinn ofbeldisfullur, og það á við um Nashville.

Leikurum þykir sérlega skemmtilegt að vinna með Altman, þar sem hann gefur víst mikið frelsi við karaktersköpun. Margir þekktir leikarar koma hér við sögu; Lily Tomlin, í fyrstu bíómyndinni sinni, Jeff Goldblum, Ned Beatty, auk Elliot Gould og Julie Christie sem leika sig sjálf. Keith Carradine leikur einnig eitt hlutverkanna og samdi hluta tónlistarinnar og fékk bæði Óskarinn og Golden Globe fyrir lagið "I'm Easy", en Nashville hlaut fjölda verðlauna og tilnefningar árið 1975.