M: Í framhaldi af því, sem þú hefur sagt mér um þjóðsöguna, langar mig að spyrja þig um drauma. G: Þegar ég var lítill, hafði ég mér til skemmtunar í einverunni að hugsa um drauma. Ég heillaðist af hinum furðulegu heimum draumsins.

M: Í framhaldi af því, sem þú hefur sagt mér um þjóðsöguna, langar mig að spyrja þig um drauma.

G: Þegar ég var lítill, hafði ég mér til skemmtunar í einverunni að hugsa um drauma. Ég heillaðist af hinum furðulegu heimum draumsins. Þar fann ég nýja veröld, í senn dýrðlega og ógnarlega. Ég lagði ekki trúnað á þessa drauma mína, gerði ekki ráð fyrir því, að þeir hefðu neina sérstaka þýðingu. Það voru aðeins myndir draumsins, sem heilluðu mig og urðu mér ómótstæðilegar. Þegar ég svo seinna meir kynntist myndlistinni, fannst mér eitthvað skylt með hinum annarlega veruleik draumsins og þessari list.

Þegar maður hugsar um myndir margra mikilla listamanna eins og Patiniers, Bosch, Brueghels, Goya eða Picassos, þá er maður staddur í hinum furðulegu heimum draumsins. Jafnvel mynd eftir Titian getur minnt á fagran draum, líkt og mynd eftir Brueghel minnir að sumu leyti á vondan draum. Í draumum losnar hugurinn við ok hins ytra veruleika, en hin ótamda skynjun tilfinningarinnar tekur við. Þá birtist manni nýr veruleiki, og mér finnst oft, að það sé undirrót listarinnar. Taktu eftir því, Matthías, að svo margir lærðir menn, en baðstofukaldir í listinni, eru venjulega ófrjóir, - en ýmsir aðrir sem stundum virðast lítt lærðir, jafnvel veraldarafglapar, ef mér leyfist að nota svo ljótt orð, eru fullir af skemmtilegum og stórfurðulegum hugsunum, sem verka eins og balsam og terpentína á þeirra skemmtilegu list. Lærðir menn segja í dag, að listin sé ekki realistísk. Mér finnst það ágætt, að við unum glaðir við það, þangað til við verðum leiðir á þvílíkum ummælum og finnum einhver önnur ný og betri.

Já, mér finnst, að heimur draumsins ráði oft miklu í list nútímans, Miró, Klee, Chagall og margir fleiri miklir meistarar hafa gert ágæt listaverk, sem eiga lítið skylt við hina bundnu og óskáldlegu skynjun vökunnar. Þau eru miklu fremur afsprengi hinnar taumlausu sýnar þess, sem sefur og dreymir, þar sem allt er svo furðulegt og óvænt. Ég hef alltaf heillazt af þessari veröld, hún er ólík hinum litlausa heimi hversdagsleikans. Láttu ekki viðurkennda menn halda utan um handlegginn á þér, athugaðu ekki etíkettur þeirrar hefðar, sem lifir í dag. Það er gott að kunna sitt fag, en sá, sem ræktar ekki furðuheima sálar sinnar og drauma, getur auðveldlega glatazt.

Ég las einhvern tíma sögu eftir einhvern Maxiam. Hún byrjar á draumi. Hún var svo hryllileg, að ég gat ekki lesið hana alla, að mér fannst, en líklega hef ég samt gert það. Sagan minnti á mynd eftir Goya. Og svo eitt að lokum: í draumum er aldrei sagt neitt nema undir rós. Þig dreymir, að þú akir bíl, það gæti bent til þess, að þú hugsaðir um fagra konu; og ef þú hittir Alexander mikla á auðnum Persíu, þá eru það líklegast örlög þín, sem birtast þér. Og ef þig dreymir, að þú sért orðinn vatnskrani, sem gleymzt hefur að skrúfa fyrir, gæti það bent til þess, að þú værir þyrstur. Það er litur og líf og skemmtilegur húmor í svona symbólik eða táknmyndum, en á bak við allt einhver ógnþrungin alvara.

M: Hefur þig ekki dreymt eitthvað nýlega?

G: Mig dreymdi draum í fyrrinótt, þú hafðir verið að tala við mig. Ég var hræddur um, að þú ætlaðir að skrifa ævisögu mína, en mér leiðast ævisögur. Aftur á móti var þessi draumur mín ævisaga. Allt, sem ég hef sagt þér af lífi mínu, er hversdagslegt. Þessi stutti draumur - hann hefur kannski staðið yfir eitt augnablik, ég veit það ekki - er einnig mjög hversdagslegur. En í honum birtist mér samt allt líf mitt til þessa dags. Þetta er ósköp venjulegur draumur um lítilfjörlegt efni, en ég skynja hann sem list og form hans er mér að skapi. Ég er mjög veikur fyrir formi, það mætti jafnvel taka dýpra í árinni og segja, að það væri líf mitt og dauði, þrátt fyrir það að ég er í senn indivídúalisti og anarkisti.