Lagið Muscle Museum hefur notið hylli undanfarið og því kannast margir við tríóið breska Muse. Lagið er af breiðskífunni Showbiz sem kom út fyrir skemmstu og hefur gengið vel í tónlistarvini.
Muse hóf starfsemi fyrir nærfellt tíu árum þegar unglingspiltar í smábæ í Devon byrjuðu að glamra saman. Þeir voru svo heillaðir af tónlist að ekkert annað komst að og þrátt fyrir litlar undirtekir þrjóskuðust þeir við allt þar til þeir loks komust á samning hjá útgáfu sem skilaði plötu. Útgáfurnar urðu reyndar fleiri en ein, því nokkrum dögum eftir að þeir félagar sömdu við Maverick-útgáfuna vestan hafs, sömdu þeir við útgáfur í heimalandinu, Þýskalandi og Frakklandi.
Margir hafa líkt sveitinni við Radiohead, en þeir félagar taka ekki í sama streng, segja að Rage Against the Machine hafi haft á þá meiri tónlistarleg áhrif, en þó kunni þeir vel að meta myrkrið og örvæntinguna hjá Radiohead ekki síður en hjá Robert Johnson.