' Panígpak, sem var manna hyggnastur og gætnastur, réðst til fararinnar. Hann hafði ferðazt víða og var frægur fylgdarmaður landkönnuða, en hann hafði aldrei farið neitt suður á bóginn.
' Panígpak, sem var manna hyggnastur og gætnastur, réðst til fararinnar. Hann hafði ferðazt víða og var frægur fylgdarmaður landkönnuða, en hann hafði aldrei farið neitt suður á bóginn. Þetta var mikill viðburður fyrir þennan hógværa mann, sem aldrei tranaði sér fram og mælti aldrei vanhugsað orð.

Að mörgu þurfti að hyggja kvöldið áður en lagt skyldi af stað. Þegar minnst varði, vatt hin stjórnsama kona Panígpaks sér inn og vildi tala við Knút.

"Gerðu svo vel," sagði Knútur. "Maður hlustar fúslega á orð af þínum vörum."

"Jú - sjáðu til," sagði konan. "Maður minn fer með þér í fyrramálið og verður lengi fjarri mér. Manni er sagt, að suður í landi séu margar konur, og þær eru feitar og fallegar og viðmótsgóðar..."

Knútur stökk undir eins upp á nef sér. Hann greip fram í fyrir henni: "Það er ekki ofsögum sagt af kvenfólkinu og öfundsýkinni í því. Þið eruð alls staðar eins, hvar á hnettinum sem er. Ég tek ekki á mig neina ábyrgð á athöfnum mannsins þíns, þegar kemur suður í kaupstaðina."

"Já," svaraði konan ofur rólega - "nei, þú átt auðvitað nóg með sjálfan þig. En ég ætlaði bara að segja - þú veizt, hvað maðurinn minn er hlédrægur... Ég ætlaði aðeins að spyrja, hvort þú myndir ekki hjálpa honum ofurlítið, ef hann langaði í kvenmann. Hann á erfitt með að bera sig eftir björginni, jafn feiminn og hann er."

Knúti varð rórra. Hér varð hann vitni að sannri ást og umhyggju. Svo fögur gátu blóm ástarinnar verið í nyrztu byggðum manna