Litaðar rúður og skyggðar framrúður ásamt álfelgum setja fallegan svip á bílinn.
Litaðar rúður og skyggðar framrúður ásamt álfelgum setja fallegan svip á bílinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
M-JEPPINN frá Mercedes-Benz hefur verið fáanlegur hérlendis frá því snemma árs 1998. Fram til þessa hefur hann fengist með þremur gerðum bensínvéla, þ.e. 2,3 lítra, fjögurra strokka, 150 hestafla, 3,2 lítra, V6, 218 hestafla og 4,3 lítra V8, 272...

M-JEPPINN frá Mercedes-Benz hefur verið fáanlegur hérlendis frá því snemma árs 1998. Fram til þessa hefur hann fengist með þremur gerðum bensínvéla, þ.e. 2,3 lítra, fjögurra strokka, 150 hestafla, 3,2 lítra, V6, 218 hestafla og 4,3 lítra V8, 272 hestafla. Nú hefur bæst við í flotann fimm strokka dísilvél með samrásarinnsprautun, common-rail, sem er 163 hestafla og hámarkssnúningsvægi er nálægt 400 Nm við 1.800-2.600 snúninga á mínútu í bílnum sjálfskiptum. Þetta er því ein afl- og togmesta dísilvélin miðað við slagrými sem fáanleg er í jeppa. Við fengum að prófa bílinn með þessari aflmiklu vél á dögunum.

Hægt að gera hann sjö manna

Þetta er fimm manna bíll og er gott pláss fyrir alla sem í honum ferðast, bæði á breidd og hæð. Í aftursætum er yfrið nóg fótarými jafnvel þótt framsæti séu í öftustu stöðu. Aftursæti eru í tvennu lagi, 60/40, og eru þau á sleða þannig að hægt er að stækka farangursrými með því að renna þeim fram. Þá er hægt að fella fram aftursætisbök og stækka farangursrými úr 613 lítrum í 2.020. Fáanlegur er niðurfellanlegur bekkur aftast í bílinn sem rúmar tvo farþega til viðbótar. Þetta er viðbótarbúnaður sem kostar samkvæmt verðlista 92.000 kr. með tauáklæði og 115.000 með leðuráklæði.

Bíllinn er 4,59 metrar að lengd og því svipaður að stærð og Jeep Grand Cherokee. M-bíllinn er af nýrri gerð jeppa sem sumir kalla lúxusjeppa og hafa meiri fólksbílaeiginleika en hreinræktaðir fjallajeppar. Útlitslega er hann ekki heldur með hreinræktaðar jeppalínur heldur fremur nokkurs konar sambland af útlitseinkennum jeppa, fjölnotabíls og fólksbíls og því talsvert rennilegur fyrir vikið. Við hönnun bílsins náðist mikið hjólhaf með því að staðsetja hjólin á ystu brúnum að framan og aftan og með því græðir bíllinn bæði betri aksturs- og fjöðrunareiginleika og meira nýtanlegt innanrými.

Tækniundur á hjólum

M-jeppinn er tækniundur á hjólum. Fjórhjóladrifið dreifir aflinu 50/50 milli fram- og afturhjóla og fjórhjóladrifið er sítengt. Við það er tengdur örtölvubúnaður sem skynjar þegar hjól missir veggrip. Búnaðurinn dregur á örskotsstundu úr snúningsvægi til þess hjóls sem missir gripið og sendir jafnframt boð til ABS-hemlakerfisins sem hægir á því hjóli sem snýst hraðar en önnur hjól bílsins.Veggripsstýrikerfið og stöðugleikastýring vekur aðdáun. Mercedes-Benz kallar búnaðinn 4-ETS, sem stendur fyrir rafeindastýrða veggripsstýringu, og stór kostur við kerfið er að það gerir driflæsingu óþarfa. Búnaðurinn virkar fullkomlega og dreifir aflinu 50/50 á milli fram- og afturhjóla. Stillt er í lága drifið með hnappi í mælaborði sem breytir drifhlutfalli úr 1:1 í 2,64:1.

En þetta er ekki allt, því staðalbúnaður í bílnum er einnig ESP-kerfi sem kallað hefur verið rafeindastýrð stöðugleikastýring. Bæði fjórhjóladrifið og ESP-kerfið er búnaður sem ökumaður verður aldrei var við heldur vinnur hann sitt verk óháð vilja ökumannsins. ESP-kerfið er þannig stöðugt virkt þegar ekið er í hálku eða lausri möl. Virkni þess fannst greinilega snemma morguns á hálu malbiki og virtist sem bíllinn hefði þá öðlast sjálfstætt líf þegar búnaðurinn leiðrétti kraftana sem stýra bílnum. Ökumaður verður einungis var við ljósmerki kvikna í mælaborðinu sem gefur til kynna að ESP-kerfið sé virkt, en það má einnig aftengja með takka í mælaborðinu.

Bíllinn brúar bilið milli jeppa og fólksbíls hvað aksturseiginleika varðar. Hann er t.a.m. með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum sem tryggir enn frekar gott veggrip á öllum hjólum við flest skilyrði og gefur fólksbílalega aksturseiginleika á vegum.

Nýja vélin er af kynslóð dísilvéla sem nú eru að ryðja sér til rúms. Þetta er svokölluð common-rail vél sem felur í sér að ein kraftmikil dæla heldur uppi stöðugum og miklum olíuþrýstingi. Frá dælunni liggja leiðslur inn í hvern strokk og þar eru örrofar sem opna á réttum tímapunkti fyrir olíuna inn á strokkinn. Með þessari tækni næst mun hærri innsprautunarþrýstingur.

Hljóðlát og aflmikil dísilvél

Vélin skilar þéttu og óvenjugóðu upptaki og er hljóðlát og þýð. Það er rétt í lausagangi að það heyrist að undir vélarhlífinni er dísilvél en ekki bensínvél. Vélin er fimm strokka og slagrýmið er 2,7 lítrar. Bíllinn fellur því í 40% vörugjaldsflokk og er því á samkeppnishæfu verði hingað kominn. Hann kostar 3.990.000 krónur með sex gíra handskiptingu. Við prófuðum hann hins vegar með fimm þrepa sjálfskiptingu með handskiptivali sem er afar þægilegur og skemmtilegur búnaður. Fyrir hann þarf að borga aukalega um 245 þúsund krónur sem er alveg þess virði ef menn vilja hafa bílinn sem skemmtilegastan. Að öðru leyti er hér um vel búinn bíl að ræða. Staðalbúnaður er m.a. tveir líknarbelgir, útvarp með geislaspilara og fjórum hátölurum, litað gler í öllum rúðum, rafdrifnar rúður, fjarstýrðar samlæsingar og álfelgur. Í hægra framsæti er búnaður sem skynjar þyngd í sætinu og kemur í veg fyrir að líknarbelgur blásist út ef sæti er ekki notað af fullorðnum.

Guðjón Guðmundsson.