Hanna Pálsdóttir, séra Jón Bjarman, eiginmaður hennar, og Vicky, en það var einmitt séra Jón sem gaf þau Vicky og Magnús Valdimarsson saman.
Hanna Pálsdóttir, séra Jón Bjarman, eiginmaður hennar, og Vicky, en það var einmitt séra Jón sem gaf þau Vicky og Magnús Valdimarsson saman.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"She is my Queen", ég á henni allt að þakka, segir hún og ávalt andlitið lýsist upp í brosi. Sú sem talar er Victoria Weuza, öðru nafni Vicky, en "drottningin" sem hún kallar svo er Hanna Pálsdóttir bankamaður.

"She is my Queen", ég á henni allt að þakka, segir hún og ávalt andlitið lýsist upp í brosi.

Sú sem talar er Victoria Weuza, öðru nafni Vicky, en "drottningin" sem hún kallar svo er Hanna Pálsdóttir bankamaður. Þótt Hönnu þyki Vicky þarna smyrja nokkuð þykkt á, má þetta eigi að síður að nokkru leyti til sanns vegar færa. Sannarlega hefur Hanna haft mikil áhrif á lífshlaup Vicky. Fyrir hennar tilstuðlan hefur Vicky öðlast menntun og fengið tækifæri til þess að reyna krafta sína bæði á heimaslóðum og hér á landi. Vicky, sem er 32 ára, er fædd og uppalin í Kenya og þegar hún hoppaði um í sólinni þar hefur ábyggilega engum dottið í hug að hún myndi seinna verða íslensk húsmóðir og flugfreyja hjá íslensku flugfélagi.

Fyrir röskum tíu árum fóru þau hjónin Hanna Pálsdóttir útibússtjóri hjá Búnaðarbankanum og séra Jón Bjarman sem þekktur er sem fangelsisprestur, á ársþing nemendaskiptanna ICYE, sem hér landi nefnist AUS eða Alþjóðleg ungmennaskipti. Þar hitti Hanna konu frá Kenya sem hafði eins og hún mikinn áhuga á nemendaskiptum milli landa. Konan sagðist vera með vinnukonu sem hún vildi gjarnan að gæti orðið skiptinemi og þannig fengið tækifæri til þess að menntast og víkka sjóndeildarhring sinn - en til þess sá hún ekki að væru nein efni. Hönnu kom í hug að kannski gæti Hjálparstofnun kirkjunnar lagt fram fé til ferðar stúlkunnar til Íslands en hún og Jón maður hennar myndu svo sjá henni fyrir fæði og húsnæði.

Vicky lærði að sauma hér

Ráðagerð Hönnu gekk eftir. Vicky kom og settist að hjá þeim Hönnu og Jóni í Kópavogi og Hanna fékk fyrir hana skólavist í Iðnskólanum þar sem Vicky lærði að sauma, hún fékk leyfi til að leggja höfuðáherslu á hið verklega í faginu og smám saman varð Vicky að listagóðri saumakonu. Hana skorti heldur ekki aðstoð heima fyrir, Hanna Pálsdóttir er saumakona í sérflokki þótt hún hafi aldrei stundað það sem atvinnu. Eftir ársvist taldi Hanna að Vicky væri ekki fullnuma í saumaskapnum og fékk dvöl hennar framlengda um eitt ár. Þá var það sem ég hitti Vicky heima hjá Hönnu. Um það leyti, 1991, var staðan sú að Vicky var að safna peningum og hafði fengið styrk hjá góðhjörtuðum konum til þess að kaupa sér saumavél sem hún hugðist fara með heim til Kenya og reyna að skapa sér þar atvinnu í sínu fagi.

Ég óskaði henni þá allra heilla í þessari fyrirætlun og frétti síðan ekki af henni þar til rétt fyrir jól að ég hitti Hönnu Pálsdóttur á myndlistarsýningu og spurði hana frétta af Vicky. "Hún giftist nú íslenskum manni í sumar", svaraði Hanna glöð í bragði - og þá vissi ég að tímabært væri að hitta Vicky að máli og fá að vita hvað á daga hennar hefði drifið síðan ég kvaddi hana fyrir tæpum tíu árum, er hún var að ráðgera flutninginn heim til Kenya.

Dæmið gekk ekki upp í Kenya

"Ég fór til Kenya en dæmið gekk ekki upp þar," segir hún lágri röddu. Við Vicky sitjum saman í sófa heima hjá Hönnu og Jóni. Nú er Vicky farin að tala talsvert í íslensku en bregður þó enn fyrir sig enskunni. Auk þess talar hún svahílí, en þar er ég ekki sterk á svellinu - eða þannig.

- Hvers vegna gekk þetta ekki upp? segi ég.

"Ég reyndi að byrja nýtt líf og byrjaði á að festa mér húsnæði, lagði alla mína fjármuni í kaupleiguhús þar sem ég ætlaði að stofnsetja saumastofu. En ég skipti við fólk sem laug að mér og notaði mig - ég var svikin í samningum og missti um tíma allt sem ég átti og varð að gerast vinnukona á ný. Þetta voru mér mikil vonbrigði. Ég fékk þó peningana mína aftur að hluta til en í smáum skömmtum. Ég gat engu safnað, ég hafði svo litlar tekjur að ég varð að nota þessa peninga til að lifa á. Ég hafði ekki möguleika á að reyna aftur að festa þá í húsnæði. Ég vann að vísu við saumaskap en hafði sáralitlar tekjur af því, saumaði bara fyrir húsnæði og mat. Sjóðurinn minn gekk því smám saman til þurrðar. Ég saumaði fyrir heimilisfólkið þar sem ég bjó en ég safnaði engu og var ekki ánægð með þessa þróun mála. Það er erfitt að stofnsetja fyrirtæki, jafnvel saumastofu, í Kenya ef maður hefur ekkert á bak við sig. Svo hitti ég tvær stúlkur sem voru af ríku foreldri og höfðu góða vinnu. Ég fór að leigja með þeim en sama sagan endurtók sig, ég saumaði fyrir vini þeirra og fékk smávegis fyrir en náði ekki að koma á fót þeirri saumastofu sem mig dreymdi um. Ég fékk eftir sem áður lítið í aðra hönd fyrir saumaskapinn og það sem ég mögulega gat án verið af peningum sendi ég allt til mömmu minnar sem er fátæk kona í þorpi í Úganda - þaðan sem hún er ættuð."

Vicky var barin af konum föður síns

Þessi frásögn Vicky minnti mig á að hún hafði meðan hún var hér á Íslandi forðum lagt allt kapp á að senda bróður sínum peninga til að hjálpa honum að stunda háskólanám. Ég spyr hvernig honum vegni nú. "Hann varð lyfjafræðingur og fékk vinnu, en svo stofnaði hann lítið fyrirtæki og það hlaut ekki náð fyrir augum yfirvalda svo því var lokað og hann er nú atvinnulaus," segir Vicky. Móðir hennar er litlu betur stödd.

"Mamma mín hefur ekki átt auðvelt líf. Hún var gift föður mínum sem var múslimi en sjálf er hún kristin. Við vorum fjögur börn móður minnar, einn bróðir minn er dáinn. Þegar ég var fjögurra ára flúði mamma af heimili föður míns, sem átti margar fleiri konur. Hún tók ársgamla systur mína með sér en ég varð eftir, og bróður minn, sem nú er lyfjafræðingur, hafði hún þegar þurft að senda frá sér.

Pabbi vildi ekki láta mig, hann taldi að hann myndi kannski seinna fá kú fyrir mig þegar hann gæti gift mig. Það fór þó ekki svo að hann gifti mig frá sér. Ég flúði níu ára gömul af heimili föður míns, hann barði mig og konurnar hans líka, ég átti því átt erfiða daga eftir að mamma fór. Ég komst undir verndarvæng föðursystur minnar sem hugsaði vel um mig og kom mér í skóla. Hún dó þegar ég var sextán ára og þá fór ég að vinna sem vinnukona í húsum. Svo hitti ég móður mína í rútu af tilviljun þegar ég var átján ára og hún þekkti mig aftur. Síðan höfum við haft samband. Hún er mjög fátæk en nú á hún nóg af fötum, ég og Magnús maðurinn minn fórum í heimsókn til hennar fyrir jól með fulla poka af fötum - þú hefðir átt að sjá svipinn á henni þegar hún tók fötin upp úr pokunum," segir Vicky. Fátæktin í sveitaþorpum Úganda er ótrúlega mikil. "Það myndi líða yfir yngra fólk sem sæi þessa stofu," segir Vicky og bandar hendi í átt til fallegra húsgagna og annarra húsmuna þeirra Hönnu og Jóns. Satt er það, þau eiga fallegt heimili en ekki svo að almennt myndi líða yfir Íslendinga ef þeir kæmu þar inn - þarna lýsir Vicky því ótrúlega miklum mun á lífskjörum þessara tveggja landa. Hún segir að eldra fólk í Uganda muni hins vegar eftir betri dögum, "það myndi ekki líða yfir það þótt það kæmi inn á svona heimili," segir Vicky og hlær.

Heimili þeirra Hönnu og Jóns hefur sem fyrr verið athvarf Vickyar síðan hún flutti til Íslands aftur árið 1994.

Hvers vegna kom Vicky aftur til Íslands?

En hvers vegna kom hún aftur til Íslands? "Ég var alltaf í bréfasambandi við hana," segir Hanna. "Þegar mér varð ljóst að hún gat ekki gert það sem hún hafði ráðgert og henni leið illa, sendi ég henni farseðil og hún kom hingað aftur." Sjálf segir Vicky að hún hafi verið mjög skömmustuleg vegna þess að henni tókst ekki að koma saumastofunni á fót í Kenya. "Hjá okkur er sú hefð að ef einhver hefur hjálpað manni og svo fer allt í vaskinn þá biður maður ekki þann hinn sama um aðstoð aftur. En Hanna hlustaði ekki á neitt slíkt. Hún sendi mér farseðil og ég var í sannleika sagt mjög ánægð að komast aftur hingað til Íslands. Mig dreymdi ekki um að eiga tækifæri á að búa hér til langframa," segir hún.

Það kom líka í ljós síðar að Vicky átti mikilvægt erindi til Íslands, þótt hana óraði ekki fyrir neinu slíku í upphafi. Hún fór hin rólegasta að vinna við ræstingar á Hótel Sögu og hjá Securitas. "Hún Vicky er svo ótrúlega myndarleg í verkum sínum, hvort sem hún tekur til eða saumar. Hún hefur líka ræst fyrir fólk í heimahúsum og þeir sem til þekkja vita hvað hún er vel verki farin," segir Hanna. En á meðan Vicky var við störf á hinum ýmsu stöðum fyrstu þrjú árin eftir að hún kom var hún sér þess alls óvitandi að ævintýri lífs hennar var á næsta leyti.

Meðan hún sparaði hverja krónu, til þess að geta annars vegar sent móður sinni og bróður peninga þeim til lífsviðurværis í Úganda og hins vegar keypt sér lítinn bíl, spunnu örlaganornirnar sinn vef.

Hitti eiginmanninn í Reykjavík

Í fyllingu tímans fór Vicky eitt sinn í bæinn og hitti þá ungan og myndarlegan mann, Magnús Valdimarsson, sem hún er nú gift.

"Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að ég ætti eftir að giftast íslenskum manni. Þegar ég hitti Magnús hélt ég að litarháttur minn myndi gera það óhugsandi að hann giftist mér. En honum var alveg sama hvernig ég var á litinn og ég sá loks að þetta var ekki sá tálmi sem ég hélt. Mér finnst líf mitt hafa snúist upp í mikið ævintýri og allt á ég það Hönnu að þakka, það er von að ég kalli hana drottningu lífs míns," segir Vicky. Hanna hlær og hristir höfuðið. "Vicky mín, þú átt þetta allt saman sjálfri þér að þakka, þú ert þannig gerð að allir vilja gera þér gott, þú ert þinnar gæfu smiður," segir hún.

Sé svo, er Vicky ansi hög í gæfusmíðinni. Ekki aðeins hefur hún öðlast menntun sem hana dreymdi aldrei um að fá - hún hefur eignast góðan mann sem hún elskar og loks er hún orðin flugfreyja hjá Atlanta. Nú er hún að reyna að fá íslenskt ríkisfang sem myndi muna hana miklu í sambandi við atvinnu hennar og auðvitað fjölmargt annað. "Mér finnst flugfreyjustarfið óskaplega skemmtilegt starf, en það er ekki sérlega fjölskylduvænt, það er erfitt fyrir ung hjón að vera mikið fjarvistum. Ég hef flogið í pílagrímaflugi og eina viku var Magnús með mér, þá fórum við til Kenya. Mér fannst óskaplega gaman að Magnús skyldi geta hitt þar mömmu og systur mína. Hann var aldeilis undrandi á því sem hann sá í Kenya - ekki síður hissa en ég varð þegar ég kom til Íslands. Það er sannarlega margt ólíkt hér og þar. Ég hafði vanist því að hafa lítið handa á milli og mér finnst enn ótrúlegt hvað fólk eyðir hér í allt mögulegt sem flokka má undir óþarfa. Ég vann til dæmis með ýmsum stúlkum um tíma sem fengu talsvert meira kaup en ég, þær virtust eyða miklu af sínum peningum í að skemmta sér um helgar og svo skildu þær ekkert í því af hverju ég væri komin á bíl. Þær höfðu keypt sér far með ótal leigubílum meðan ég fór allra minna ferða í strætó og allt eftir því, allt svona safnast saman," segir Vicky.

Ég spyr um hjónabandið.

Vicky segir mér hálffeimin að hún sé afar hamingjusöm. "Ég hefði ekki trúað að þetta ætti eftir að koma fyrir mig," segir hún. Það er auðheyrt að Magnús maður hennar býr ekki við ástleysi eða athyglisskort, allt líf Vicky miðast augljóslega við hann. Fjölskylda Magnúsar hefur líka veriðVicky góð. "Ég bjóst ekki við að þau vildu mig inn í sinn hóp, af því að ég er nú einu sinni ekki hvít - en þeim var alveg sama," segir Vicky.

Hanna segir mér hvað brúðkaupsveisla þeirra Vicky og Magnúsar hafi verið glæsileg. "Við hjálpuðumst að við að baka, okkar fjölskylda og fjölskylda Magnúsar, og það komu um 130 manns í veisluna, allt gekk þetta eins og í sögu," segir Hanna. Vicky saumaði glæsilegan brúðarkjól sem hún sýnir mér myndir af - og eftir brúðkaupið héldu þau Vicky og Magnús áfram að búa í íbúð í húsi frændfólks Hönnu.

Forgangsröðin hjá Vicky

Ég spyr Vicky hvort barneignamál séu á dagskrá hjá þeim hjónum? "Ég hef alltaf viljað hafa hlutina í réttri forgangsröð," segir Vicky. "Þegar ég var lítil gekk ég oft framhjá glæsilegum húsum og lét mig dreyma um að ég ætti heima í svona húsi og ætti peninga til þess að mennta mig. Ekki það að mér dytti nokkra stund í hug að það yrði raunveruleiki. En þegar ég lítil og mjóleggjuð stelpa var að láta mig dreyma í Kenya raðaði ég óskum mínum upp í forgangsröð. Fyrst vildi ég læra, svo fá góða vinnu, því næst gifta mig, eignast svo hús og síðast ætlaði ég að eignast barn. Nú er ég í raunveruleikanum komin þar að í draumum æsku minnar sem húsið kemur til sögunnar. Þegar það er fengið langar mig til að eignast barn. Ég lýsti þessu fyrir Magnúsi og hann er sammála þessari forgangsröð. Nú standa málin þannig að við erum að safna fyrir útborgun í íbúð og þegar okkur hefur tekist að komast í eigið húsnæði væri gaman að eignast lítið barn," segir Vicky og brosir sínu einlæga en feimnislega brosi. En það er augljóst að það er ekki að marka hvað hún er lítil og grönn, hæglát og feimnisleg, lágrödduð og kurteis. Bak við allt þetta býr sterkur vilji og góð dómgreind - þeir eiginleikar ásamt hjálpsemi Hönnu Pálsdóttur og Jóns Bjarmans hafa skilað Vicky þetta langt áleiðis í uppfyllingu æskudrauma hennar. Líklega skilja hvorki ég sem skrifa þetta né þeir sem lesa, hvað langur vegur er á milli örbirgðar þeirrar og illrar meðferðar sem Vicky bjó við sem barn til þeirra góðu aðstæðna sem hún býr við í dag. Segja má því með nokkrum rétti að Vicky hafi verið leyst úr álögum sárrar fátæktar og óréttlætis og það er eimitt það sem hún á við þegar hún kallar Hönnu "drottninguna sína"; sjálf er hún í sama skilningi svolítil "ævintýraprinsessa", að minnsta kosti í eigin augum. Það á við hér eins og annars staðar; fólk uppsker eins og það sáir. Ég finn á þeim báðum, Vicky og Hönnu, að þær hafa öðlast margt mikilvægt í sínum samskiptum. Hanna veitti Vicky tækifæri sem hún með hjálp Hönnu og Jóns og fleiri góðra manna hefur notað vel. Með nokkrum hætti hafa þau hjón hins vegar eignast í Vicky einlæga og ástríka dóttur. Saga Vicky sýnir svo ekki verður um villst að það sem inni fyrir býr í fólki getur skipt miklu meira máli en litarháttur þess og menningarumhverfi.