Ég hef verið að fylgjast með hinni makalausu umræðu um svokölluð innherjakaup á hlutabréfamarkaðnum. Nokkrir bankastarfsmenn keyptu hlutabréf í sínum eigin banka og öðrum fyrirtækjum og högnuðust vel á þeim viðskiptum, eftir því sem sagt er.

Ég hef verið að fylgjast með hinni makalausu umræðu um svokölluð innherjakaup á hlutabréfamarkaðnum. Nokkrir bankastarfsmenn keyptu hlutabréf í sínum eigin banka og öðrum fyrirtækjum og högnuðust vel á þeim viðskiptum, eftir því sem sagt er. Bankastjórar og aðrir máttarstólpar í þessum viðskiptaheimi hafa verið krafðir svara og skotið sér á bak við þann málflutning að farið sé eftir verklagsreglum um innherjaviðskipti og þær reglur hafi ekki verið brotnar. Eða þá að innherjunum hafi verið gefin undanþága! Mest hefur maður þó á tilfinningunni að þessir sömu bankastjórar viti mest lítið um það sem gerst hafi, fyrr en eftir á, og séu að fara undan í flæmingi með útúrsnúningum og orðhengilshætti.

Kjarni málsins er auðvitað sá að hér hafa siðareglur verið brotnar, verið er að hygla eigin starfsmönnum eða til hvers eru reglur settar ef síðan eru gefnar undanþágur frá þessum sömu reglum?

Og víst hlýtur það að vera ábatasamt starf að vera innherji í fjármálaheiminum, þegar ungir menn hafa skyndilega ráð á því að fjárfesta fyrir tugi milljóna.

En sjálfsagt er þetta bara öfund í mér að nöldra um þetta og auðvitað verða ungir menn í bransanum fljótlega loðnir um lófana þegar þeir geta hagnast á slíkum verðbréfaviðskiptum, vegna þess að þeir vita manna best hvaða verklag á að hafa á hlutunum til að komast framhjá verklagsreglunum. Og fá svo undanþágur þegar mikið liggur við.

Hann fékk ekki undanþágu strákurinn sem drakk pepsiflöskuna, án þess að vera búinn að borga. Var rekinn samstundis úr vinnunni, enda ekki á undanþágu. Og þó var hann innherji í búðinni. Það er ekki sama hvar maður vinnur og ekki sama hvað maður gerir. Það var heldur enginn bankastjóri eða máttarstólpi, sem birtist í fjölmiðlum til að bera blak af stráksa.

Vonandi kemur þó að því að þessi ungi piltur öðlast reynslu og menntun í skólum landsins og lærir verklagsreglur fullorðna fólksins og kemst í þá aðstöðu þegar fram líða stundir að taka forskot á sæluna í stærri mæli en þeim að drekka pepsi án þess að borga. Það verður þegar hann er orðinn innherji í fjármálaheiminum.

Annað þótti mér nokkuð skondið í fréttum, þegar haft var viðtal í einu dagblaðanna við nýskipaðan formann í stjórn sjúkrahúsanna. Hér er um að ræða unga og bráðmyndarlega konu, eins og hún á kyn til, sem gegnir bæjarstjórastöðu norður á Grenivík. Hún er ekki verri fyrir það. Og ekki dregur það heldur úr kostum hennar að eiginmaðurinn er oddviti sveitarfélagsins og saman reka þau kúabú í sveitinni. En hún er sem sé orðin stjórnarformaður hjá sjúkrahúsunum í Reykjavík og þarf að ferðast nokkrum sinnum í mánuði til höfuðborgarinnar til að sinna formennskunni.

Allt er þetta gott og blessað, nema vegna þess að í ljós kemur að nýi stjórnarformaðurinn hefur sáralitla ef nokkra menntun. Hún hefur ekki neina þekkingu á hagsýslu, stjórnsýslu eða fjársýslu, hefur aldrei inn á sjúkrahús litið (nema á fæðingardeildina), en stundaði hjúkrunarnám í einn vetur. En hún ku vera greind og það sem meira er: hún skipar sér í sveit með framsóknarmönnum.

Nú veit alþjóð það eins vel og ég, að rekstur sjúkrahúsanna hefur verið í uppnámi í fjöldamörg ár. Hallinn á rekstrinum er verulegur og almennt má skilja af stjórnmálaumræðunni að þessi hallarekstur upp á hundruð milljóna á hverju ári sé einn stærsti og alvarlegasti vandi ríkissjóðs.

Með allri virðingu fyrir framsóknargenunum í nýja stjórnarformanni sjúkrahúsanna, verður ekki hjá því komist að velta því fyrir sér hvort blessaðri konunni sé mikill greiði gerður með þessari skipan mála. Eða er unnt að taka mikið mark á hinum alvöruþrungna málrómi ráðamanna, sem sífellt kvarta undan vandræðaganginum í heilbrigðismálunum, þegar sótt er bóndakona norður í land til að halda um stjórnartaumana í þeirri helstu eyðsluhít, sem sligar ríkissjóð?

Ég vona bara að sveitarstjórastörfin á Grenivík gjaldi ekki fyrir þetta verklag. Né heldur kúabúið. Og ekki má gleyma því að hér eru það kvenráðherrarnir í Framsóknarflokknum, sem eru farnar að láta til sín taka. Og þær systur allar.

Það gera genin!!

Þriðji kvenráðherrann hjá Framsókn hefur tekið að sér að stýra umhverfismálum, með þeim hætti, að henni dettur helst í hug að leggja Náttúruverndarráð niður, af því að henni líkar ekki ráðgjöfin, og er nánast komin í heilagt stríð við það fólk í landinu, sem helst ber umhyggju fyrir náttúrunni og umhverfinu. Það hlýtur að vera dapurlegt hlutskipti, vegna þess að einhvern veginn hélt maður að yfirmaður umhverfismála hefði hag af því að hafa náttúruverndarsinna á sínu bandi. En það hefur auðvitað hver sínar verklagsreglur til að fara eftir. Alveg eins og þeir í bönkunum, innherjarnir og máttarstólparnir og framsóknarmenn allra flokka, sem hafa það sameiginlegt í genunum, að reka þá pólitík að láta almannahagsmuni víkja, þegar mikið liggur við.

Þetta er orðið daglegt brauð og enginn kippir sér upp við það og svo er alltaf hægt að skjóta sér á bak við undanþágurnar, nema auðvitað þegar strákar eiga í hlut, sem drekka úr pepsiflöskum án þess að vera búnir að borga. Þar liggur höfuðsyndin stóra að vera lítill kall, minnimáttar, útherji í þjóðfélagi samtryggingar, ættartengsla og flokksbanda.

Einkavinavæðingin er nefnilega víðar en í fyrirbærum eins og kolkrabbanum og smokkfiskinum. Hún er allsráðandi teygjulím í grímulausum stjórnvaldsákvörðunum og þarf engrar dulkóðunar við. Og það gerir svo sem ekkert til. Það segir enginn neitt. Þjóðin lætur allt yfir sig ganga, þegjandi af þrælsótta, sinnulaus um sjálfdæmi sitt.