Gamla ruðningshetjan og leikarinn Jim Brown fer með hlutverk í mynd Stones.
Gamla ruðningshetjan og leikarinn Jim Brown fer með hlutverk í mynd Stones.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stone er í hópi fremstu kvikmyndaleikstjóra Bandaríkjanna og einn af örfáum sem fær að fara sínar eigin leiðir og þegar hann gerir bíómynd er eftir því tekið.

Stone er í hópi fremstu kvikmyndaleikstjóra Bandaríkjanna og einn af örfáum sem fær að fara sínar eigin leiðir og þegar hann gerir bíómynd er eftir því tekið. Hann hefur enda á frjósömum ferli hrist upp í mörgum manninum með kvikmyndagerð sinni ófeiminn að takast á við málefni sem aðrir kannski forðast að fjalla um. Áhugi hans á sögu Bandaríkjanna á sjöunda áratugnum hefur getið af sér myndir eins og "Platoon", sem fjallaði um hermenn í fremstu víglínu Víetnamstríðsins, Fæddur 4. júlí, sem fjallaði um sama stríð og áhrif þess heimafyrir, JFK, sem alræmd er fyrir samsæriskenningar sínar um morðið á John F. Kennedy og "Doors" sem fjallaði um eitt poppgoð tímabilsins, Jim Morrison.

Eins konar stríð

Stone hefur nú sent frá sér nýja stórmynd og neitar enn eina ferðina að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. "Any Given Sunday" eða Alla sunnudaga er úttekt Stones á ameríska ruðningsboltanum og segir frá gamalreyndum þjálfara að nafni Tony D'Amato, sem Al Pacino leikur. Liðið hans heitir Miami-hákarlarnir en hann er að missa tökin á þjálfarastarfinu, hann upplifir nýja og breytta tíma í íþróttinni og finnur að hans tími er nær því á enda runninn. Á sama tíma deyr eigandi liðsins og það fellur í hendur ungrar dóttur hans, Christina Pagniacci (Cameron Diaz), sem vill gera róttækar breytingar.

Stone segist líta á ameríska fótboltann sem eins konar stríð og til þess að áhorfendur fái að upplifa um hvað málið nákvæmlega snýst festi hann litlar myndavélar á hjálma leikmannanna í myndinni. "Þetta var raunveruleikinn og ekkert plat", er haft eftir einum leikaranna. Al Pacino segir: "Stone minnir mig á listmálarann Jackson Pollock sem sagði einu sinni að um leið og hann fór að skilja verkið sem hann vann við henti hann því vegna þess að þá missti hann sambandið við undirmeðvitundina. Þótt Stone viti nákvæmlega hvað hann er að gera minnir hann mig samt á þessi orð Pollocks vegna þess að hann var að búa til eitthvað næstum því yfirnáttúrulegt og goðsagnakennt."

Stone sparaði ekki filmuna frekar en fyrri daginn og var á endanum kominn með hálfan kílómetra af átekinni filmu sem hann klippti niður í bíómyndalengd. Bandaríska kvikmyndatímaritið Premiere tók nýlega viðtal við leikstjórann í tilefni nýju myndarinnar og hann var spurður að því m.a. hvers vegna hann hefði kosið að gera mynd um ameríska ruðningsboltann, sérstaklega í ljósi þess að íþróttamyndir gefa yfirleitt ekki mikið af sér.

"Ég hef alltaf verið fótboltafrík og leikmennirnir hafa löngum verið hetjur mínar. Ég sé þá í sama ljósi og aðra sem ég hef fjallað um í myndum mínum, Ron Kovic, Jim Garrison, Richard Nixon. Þetta var fólk sem lifði opinberu lífi og áorkaði mörgu en galt fyrir það dýru verði. Leikmennirnir eru hörkutól en þeir eyðileggja sig líkamlega og svo er þeim hent eins og gömlum bíldruslum. Sumir nota amfetamín eða stera og sumir dóp... Fæstir sleppa óskaddaðir frá ruðningnum en þess er sjaldan getið.

Eftirtektarverður leikstjóri

Oliver Stone er fæddur í New York árið 1946. Hann skráði sig ungur í herinn og barðist í Víetnam en dvöl hans þar hafði afgerandi áhrif á líf hans og list. Hann hóf kvikmyndanám þegar herþjónustunni lauk og gerði sína fyrstu bíómynd árið 1974 sem hét "Seizure" í samvinnu við kanadíska framleiðendur. Fjórum árum síðar hreppti hann Óskarsverðlaunin fyrir besta handritið byggt á áður útgefnu efni. Þar var á ferðinni "Midnight Express" er byggðist á dvöl Billys Hayes í tyrknesku fangelsi. Kvikmyndaverin í Hollywood fengu áhuga á handritshöfundinum og buðu honum til starfa. Ekki byrjaði það vel: Stone gerði furðuverkið Höndina í draumaverksmiðjunni, án efa versta mynd leikstjórans.

Hann skrifaði fyrst og fremst handrit þegar hann var að hefja sinn feril innan kvikmyndanna og þau voru misjöfn að gæðum. Hann skrifaði "Conan the Barbarian", sem Arnold Schwarzenegger lék óaðfinnanlega, "Scarface", einhverja hressilegustu glæpamynd sem gerð hefur verið, Ár drekans, sem Michael Cimino gerði og "8 Million Ways to Die", sem kannski er vanmetnasta handrit Stones.

Fyrsta almennilega bíómyndin sem Stone leikstýrði var Salvardor árið 1986, sem fjallaði á kynngimagnaðan hátt um ástandið í landinu eftir 1980. Síðar sama ár gerði hann "Platoon", sem þótti brjóta blað í lýsingu á Víetnamstríðinu, og loks "Wall Street", er fjallaði um verðbréfasalann Gordon Gekko sem sagði að græðgi væri góð.

Eftir hana einbeitti Stone sér að þeim áratug er mótaði hann hvað mest og gerði nokkrar myndir þar sem sögusviðið var sjöundi áratugurinn. "Platoon" hafði komið á undan þeim en hann fylgdi henni eftir með myndunum "The Doors", Fæddur 4. júlí, JFK, Himinn og jörð, sem er þriðja myndin í Víetnamtrílógíu hans og loks Nixon, um samnefndan og umdeildan forseta Bandaríkjanna. Í millitíðinni hneykslaði Stone marga með "Natural Born Killers".

Í Premiere-viðtalinu kemur fram að "Any Given Sunday" hefur verið lengi í smíðum en upprunalega átti hún að fjalla um aldraðan leikmann og hafði Stone Charles Bronson í huga fyrir hlutverkið. Þetta var í upphafi níunda áratugarins. Um fimmtán árum síðar varð til sú hugmynd að byggja myndina upp á bók eftir lækni L.A. Raiders, Rob Huizenga, sem fjallaði m.a. um eiturlyfjaneyslu í ruðningsboltanum á áttunda og níunda áratugnum. "Á endanum gerðum við sögu um svartan leikmann og samskipti hans við þjálfarann sinn en með fjölda hliðarsagna og aukapersóna sem hafa mismikið vægi," segir Stone.

Þegar tökur á myndinni voru komnar vel á veg í Miami lét Stone hafa það eftir sér að "Any Given Sunday" væri erfiðasta myndin sem hann hefði leikstýrt. Hann kallaði hana "skrímsli" og hefur þó átt við þau nokkur um sína daga.

"Vandræðin byrjuðu áður en við komum til Miami. Tökuáætlunin breyttist fjórum sinnum að hluta til vegna þess að enn vorum við að fínpússa handritið. Eitt af því sem við glímdum við var að ná fótboltamálinu, götumálinu, máli leikmannanna. Tökurnar áttu að hefjast vorið 1998 en vélarnir fóru ekki að suða fyrr en í janúar árið eftir. Við misstum Puff Daddy úr leikarahópnum. Hann fékk nóg og ég lái honum það ekki. Við misstum líka Ving Rhames. Ruðningssambandið dró sig úr samstarfinu við okkur en mikill tími hafði farið í samningaviðræður okkar á milli.

Þannig fór margt öðruvísi en ætlað var en á endanum kom Stone því öllu heim og saman. Hann segir myndina fjalla fyrst og fremst um breytingar "og ég vona að hún eigi eftir að höfða til fólks á öllum aldri og af báðum kynjum og fólks með ólíkar lífsskoðanir" segir Stone. Hann bætir við: "Annað sem er áberandi í myndinni er föður/sonar sambandið á milli Al Pacinos og Jamie Foxx, sem leikur nýliða hjá Miami-hákörlunum. Al er ítalskur og skilur ekki tungumál svertingjans Jamies en hann sýnir ekki meðvitað fordóma sína gagnvart honum vegna þess að þjálfari sem verið hefur eins lengi og hann í fremstu víglínu ameríska fótboltans, hlýtur að verða að skilja svertingja ef hann ætlar að vera góður í sínu starfi. En Al kemst einnig að því að hann er aðeins peð í miklu stærri leik og jafnvel þótt hann eigi tvo meistaratitla að baki er tíminn að renna frá honum og svikin liggja í leynum."