Þórarinn Jónsson fæddist í Andrésfjósum á Skeiðum 27. mars 1923. Hann lést á líknardeild Landspítalans laugardaginn 29. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Soffía Ingimundardóttir, f. 18.9. 1900, d. 6.6. 1964. Faðir hans var Jón Erlendsson, f. 16.4. 1903, d. 30.5. 1980. Eiginmaður Soffíu var Sigurjón Jónsson, f. 1.6. 1894, d. 29.9. 1982. Hálfsystur Þórarins, dætur Sigurjóns: Sigurjóna. f. 26.7. 1934, d. 14.8. 1999; Inga, f. 11.7. 1937; Elín, f. 19.3. 1936; Ágústa, f. 6.10. 1941, og Bergþóra, f. 26.1. 1944. Hálfsystur, dætur Jóns: Margrét Halla, f. 28.10. 1930, og Elín Áróra, f. 18.7. 1932.

Sonur Þórarins frá fyrri sambúð með Öldu Jensdóttur var Jens Guðni Arnar, f. 9.1. 1945, d. 16.9. 1966.

Árið 1952 kvæntist Þórarinn Sigríði Magnúsdóttur, f. 21.6. 1926. Foreldrar hennar voru Magnús Eiríksson frá Votumýri á Skeiðum og Ingibjörg Gísladóttir frá Kluftum í Hrunamannahreppi, þau bjuggu lengst af á skúfslæk í Villingaholtshreppi.

Börn Þórarins og Sigríðar: 1) Magnea Ingibjörg, hjúkrunarfræðingur, f. 4.2. 1952, maki hennar Guðmundur Guðjónsson, kerfisfræðingur, f. 7.3. 1952. Börn þeirra: Tryggvi Þór, vélfræðingur, f. 6.8. 1971, sambýliskona hans er Þóra Þórsdóttir, nemi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands, f. 16.4. 1971. Sonur þeirra Borgþór Vífill f. 3.2. 1994. Katrín stúdent, f. 7.7. 1979, unnusti Eiður Pétursson, vélstjóranemi, f. 4.2. 1978. Guðjón Arnar, nemi, f. 29.3. 1982. 2) Soffía Dagmar, leikskólakennari f. 24.11. 1955, maki Eggert Þór Sveinbjörnsson, bifreiðasali, f. 23.5. 1955. Synir þeirra: Þórarinn, matreiðslunemi, f. 17.7. 1979, Sveinbjörn Benedikt, f. 30.5. 1993. 3) Sonja, tanntæknir, f. 11.2. 1957, maki Pétur Kristinsson, forstjóri, f. 18.4. 1948. Börn þeirra Sigríður, nemi, f. 21.11. 1978, unnusti Jóel Lúðvíksson, framreiðslunemi, f. 19.2. 1972, Margrét Jústa, f. 17.4. 1986. 4) Gísli Grétar, húsasmiður f. 26.7. 1961, sambýliskona Kristín Helgadóttir, leikskólakennari, f. 22.11. 1961. Synir þeirra: Hrólfur Magni, f. 22.8. 1984, Hlynur Freyr, f. 30.3. 1988, og Hafþór Ari, f. 31.12. 1989. Gísli eignaðist Berglindi, nema, f. 21.7. 1982, með Elínu Bergsdóttur, garðyrkjufræðingi.

Þórarinn ólst upp í Andrésfjósum hjá móðurfólki sínu til ellefu ára aldurs, upp frá því hjá móður sinni og stjúpa í Reykjavík. Hann starfaði við leigubílaakstur og var einn af stofnendum Borgarbílastöðvarinnar og vann þar samfleytt til 70 ára aldurs en gegndi símavörslu þar að nokkru upp frá því.

Útför Þórarins verður gerð frá Háteigskirkju mánudaginn 7. febrúar og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Gamalt indverskt máltæki er eitthvað á þessa leið: Heilbrigður maður á sér margar óskir en sjúkur maður aðeins eina.

Hjartkær faðir minn er nú látinn eftir erfið veikindi. Hans er sárt saknað af fjölskyldu og vinum sem nú eiga um sárt að binda þó vitað hafi verið að hverju stefndi. Hann greindist með sjúkdóm fyrir hartnær tveimur árum og var það mikið áfall fyrir fjölskylduna alla. Reynt var að láta sjúkdóminn ekki trufla daglegt líf meira en þörf krefði og stundaði hann vinnu sína á Borgarbílastöðinni fram að jólum. Það gerði honum mikið gott að vera í þeim vinahópi sem hann á þar.

Pabbi var einstakur maður og mikið í hann spunnið, eins og þeir vita sem kynntust honum, skemmtilegur, glettinn og snöggur að finna spaugilegu hliðina á hlutunum. Hann hafði neista í augunum eins og Danirnir segja. Hann var vinsæll félagi og átti marga góða kunningja og einstakan vinahóp.

Hann var einnig einstakt ljúfmenni, blíður og góður maður eins og við systkinin, mágar og barnabörn fengum að kynnast. Við vorum ofar öllum hans óskum og velferð okkar skipti hann miklu máli. Hann var ekki að gagnrýna aðra eða upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Hann var sáttasemjari í eðli sínu og var það stór í sér að geta gefið eftir í samskiptum við aðra. Hann var næmur á sársauka annarra eins og margir sem líða sjálfir, nærgætinn og viðkvæmur þó hann reyndi að bera sig vel.

Mamma hjúkraði honum af skilyrðislausri ást og gerði honum lífið léttbærara síðustu mánuði hans. Enginn er einn sem þiggur slíka ást. Ég á föður mínum mikið að þakka. Æska mín var hamingjurík og það var ekki síst vegna blíðu hans, þolinmæði og umhyggju í minn garð. Hann lék við mig, kenndi mér ótalmargt og huggaði mig manna best þegar sorg bar að höndum. Hann var líka mín fyrirmynd að mörgu leyti.

Þegar einstaklingur missir heilsuna, flytur hann gegn vilja sínum í sérstaka veröld samhliða en fullkomlega aðskilda frá veröld hinna heilbrigðu. Hinn sjúki dæmist úr leik og er ofurseldur öðrum, oftast ókunnugu fólki og stofnunum.

Þessi aðskilnaður frá heimi okkar hinna er nánast óbærilegur, sérstaklega ef vitað er hvert vegurinn liggur. Sjálfsvirðing, stolt og sjálfstæði, allt verður undan að láta. Enginn sem hefur reynt, getur gert sér í hugarlund hvernig líðan hins sjúka er, hvaða hugsanir þjóta í gegnum hugann á svefnlausum nóttum. Við horfðum hjálparvana á hvernig heilsu pabba hrakaði, úrræðaleysi og vanmáttur okkar var sárari en tárum taki.

Við reyndum að gera honum lífið léttbærara í alla staði, en gátum ekkert gert í því sem raunverulega skiptir máli. Við gátum hvorki læknað hann, deyft sársaukann né minnkað hræðsluna við hið óumflýjanlega.

Oft er talað um nokkur stig á sorgarferlinu. Afneitun og reiði yfir því sem maður ræður ekki við, nú er þetta allt yfirstaðið. Nú er sorgin ein eftir. Sorgin yfir því að missa hann. Vonandi finnum við styrk til að gleyma þjáningum hans og minnast hans þegar hann var brosandi, glaður og frjáls. Og hann er það núna, en brosið og neistinn eru til í minningunni.

Við þökkum öllum sem reyndu að gera líf föður míns léttbærara í veikindum hans, traustum vinum hans af Borgarbílastöðinni, læknum og hjúkrunarfólki á Landspítalanum.

Hvíldu í friði, elsku pabbi minn.

Þinn sonur,

Gísli Grétar.

Kynni okkar Þórarins Jónssonar, Dodda, eins og hann var yfirleitt kallaður, hófust er ég fór að fara á fjörurnar við elstu dóttur hans fyrir um 30 árum. Hann tók mér í fyrstu fálega. Ekki tilbúinn að sætta sig við það að þessi sláni sem ég var, færi á stefnumót með dóttur hans. Hann ætlaði ekki að láta hana af hendi baráttulaust, en sú barátta varð ekki löng.

Það er kunnugum ljóst að hann hugsaði vel um þá bíla sem hann átti gegnum tíðina, því var það mikil upphefð þegar hann lánaði mér bílinn sinn fyrsta rúntinn. Þetta var mikil viðurkenning og ég yfir mig stoltur af upphefðinni. Síðan höfum við verið sem bestu vinir og hefur sú vinátta eflst með árunum. Þegar við Maggý fluttum út á land var hann boðinn og búinn að rétta okkur hjálparhönd við húsbyggingu ásamt föður mínum og eru það dýrmætar minningar hversu gaman þeir höfðu af því að vera hér á Húsavík.

Einkennandi fyrir Dodda var hversu einlægur og nærgætinn hann var. Hann mátti ekkert aumt sjá og velferð barna hans og tengdabarna var honum mjög hugleikin.

Í mörg ár höfum við farið saman til sólarlanda og þá yfirleitt til Kanaríeyja. Í þeim ferðum hefur mér gefist góður tími til að kynnast Dodda frekar. Samferðamenn okkar voru öllu meira fyrir sólina, en við vildum heldur draga okkur undir sólarhlíf eða líta á mannlífið. Margt gerðum við saman og þá var ekkert kynslóðabil ríkjandi.

Ekki verður hjá því komist að minnast á brennandi áhuga hans á öllum íþróttaviðburðum og þefuðum við uppi allar slíkar skemmtanir í þessum ferðum okkar. Meðal annars fórum við eins og smástrákar í keilu og var keppnisskap Dodda mikið og átti hann erfitt með að sætta sig við tap í þeim leik. Ég tala nú ekki um þegar setið var við taflborð.

Við félagarnir vorum frekar latir að fara í búðarrölt með konum okkar. Minnisstætt er mér þegar við uppgötvuðum sýningu niður í kjallara á verslunarstaðnum Cita. Við brugðum okkur niður nokkur kvöld, til þess að horfa á fallegar konur koma fram og syngja og dansa. Eftir tvö, þrjú skipti, ákváðum við að kalla á konur okkar til að njóta þess sama og við höfðum notið. Þær voru hins vegar ekki búnar að horfa lengi á sýninguna þegar þær tjáðu okkur að þetta væru karlar. Við félagarnir höfðum ekki verið smámunasamir þótt konurnar væru með smá skeggrót, ætli við höfum ekki haldið að útlendar konur væru heldur grófgerðari en þær íslensku. Þó var Doddi ekki beint ánægður með niðurstöðuna og skammaði mig fyrir að hafa ekki verið athugulli.

Með Dodda er farinn mikill vinur og er ég þakklátur fyrir að hafa átt samleið með honum á lífsins braut. Blessuð sé minningin um góðan dreng.

Ég votta tengdamóður minni, systrum hans, börnum, barnabörnum, barnabarnabarni og öðrum aðstandendum mínum dýpstu samúð.

Guðmundur B. Guðjónsson.

Mig langar til þess að minnast tengdaföður míns, Þórarins Jónssonar, sem nú hefur lokið sinni lífsgöngu, með nokkrum orðum. Hann kvaddi okkur alltof fljótt, aðeins 76 ára að aldri. Nú á dögum þykir það ekki hár aldur. Hann var líka síungur í anda og ótrúlega vel á sig kominn - eða þar til hann veiktist af sjúkdómi þeim sem varð honum að aldurtila.

Ég komst að því, þegar ég kynntist konu minni fyrir 25 árum, að gæfa mín fólst ekki aðeins í því að eignast yndislegan lífsförunaut heldur tengdist ég um leið einstaklega traustri og góðri fjölskyldu, - fjölskyldu sem á ríkidæmi sitt í því að standa þétt saman á hverju sem dynur - eins og móðir mín orðaði það réttilega í ræðu sem hún hélt tengdamóður minni sjötugri til heiðurs. Við höfum öll verið umvafin ástúð og umhyggju þeirra Þórarins og Sigríðar alla tíð.

Þórarinn var hár vexti, dökkur á brún og glæsilegur. Hann hafði ekki mörg orð um hlutina en hann var trygglyndur með afbrigðum. Hann var ekki allra - en þeir sem eignuðust vináttu hans urðu ríkari en áður. Hann bar hag annarra, ekki síður en eiginkonan, mjög fyrir brjósti.

Þórarinn var mjög samviskusamur og duglegur til allra starfa og þegar hann tók til hendi gerði hann það af miklum skörungsskap. Hann var t.d. einkar laginn og vandvirkur með málningarpensil í höndum, hvort heldur var innanhúss eða utan, og þar nutum við mörg góðs af. Hann var mikill smekkmaður á alla hluti, hvort sem um klæðnað var að ræða eða eitthvað sem snerti heimilið. Hann hafði sjálfstæðar skoðanir á því hvernig hlutirnir ættu að vera og var ráðhollur.

Þórarinn var, eins og fyrr segir, ætíð ungur í anda - og hann naut sín best í hópi unga fólksins. Þá skorti nú ekki skopskynið og hann var kátastur allra. Við fráfall hans sakna afabörnin ekki aðeins góðs afa heldur einnig góðs vinar og félaga.

Og nú, þegar þessi öðlingur er allur, leita margar minningar á hugann. Við áttum t.d. alveg yndislegt aðfangadagskvöld saman hér í Mosfellsbæ. Þá var hann orðinn helsjúkur en hann bar sig samt mjög vel, miklu betur en heilsa hans leyfði. Hann var þannig gerður. Daginn eftir, á jóladag, var hann kominn á sjúkrahús og átti ekki afturkvæmt þaðan utan tveggja skipta sem hann fékk að heimsækja dætur sínar hluta úr degi. Í seinna skiptið var hann hér hjá okkur að horfa á knattspyrnuleik í sjónvarpinu - en það var eitt af því skemmtilegasta sem hann gerði.

Í erfiðum veikindum Þórarins stóð Sigríður eins og klettur við hlið hans og dáðust allir að dugnaði hennar og atorku. Hún var honum alla tíð einkar kærleiksríkur lífsförunautur - og veitti honum ómetanlegan styrk þegar sporin tóku að þyngjast. Vörpuðu þau hjónin mörgum sólargeislum hvort á annars vegferð á langri ævileið og lifðu í fyrirmyndarhjónabandi.

En nú er ævisól hnigin og Þórarinn hefur hlýtt hinsta kalli. Við sem eftir stöndum þökkum góðum Guði af öllu hjarta fyrir að hafa átt hann að í skini og skuggum þessa lífs. Allar þær björtu og hlýju minningar sem þessi góði drengur skilur eftir sig munu varðveitast í huga okkar og hjarta um ókomna tíð.

Að síðustu vil ég segja þetta:

Elsku Þórarinn! Við munum líta til með elskunni þinni. Minning þín mun lifa! Þakka þér fyrir yndislega samfylgd í öll þessi ár, hjartkæri vinur. Far þú í Guðs friði!

Eggert Þór Sveinbjörnsson.

Elskulegur tengdafaðir minn, Þórarinn Jónsson, er allur. Á rúmum 20 árum hafa samskipti okkar verið hnökralaus og einkennst af gagnkvæmri virðingu og hlýhug.

Þórarinn var einn af stofnendum Borgarbílastöðvarinnar og starfaði þar nánast til æviloka í nær hálfa öld. Þar var hann fremstur meðal jafningja, en hann var í forsvari fyrir stöðina um margra ára skeið. Oft hefur maður átt leið um Hafnarstrætið framhjá Borgarbílastöðinni; þá var hendi veifað í erli dagsins og stundum litið inn og þáður kaffisopi.

Tengdafaðir minn var kærleiksríkur fjölskyldufaðir, sífellt vakandi yfir högum fjölskyldu sinnar; börnum, tengdabörnum, afa- og langafabörnum.

Margar góðar minningar eru úr fjölskylduferðalögunum; s.s. hjólreiðaferðum um flatlendi Hollands, siglingu um fljótin Rín og Mosel, ævintýraferð um hótel og stræti Parísar svo og frá mörgum ferðalögum um okkar eigið land, þá oft með viðkomu og dvöl hjá Maggý og Guðmundi á Húsavík. Aldrei náði ég þó því að vera í tjaldútilegu með honum tengdapabba. Þar missti ég af miklu, er mér sagt.

Yfir tengdaföður mínum var mikil reisn og notaleg var hans nærvera öllum stundum. Hann var reglumaður á alla hluti og vildi að menn stæðu við orð sín og meiningar.

Fyrir um tveimur árum kenndi Þórarinn sér þess sjúkdóms sem nú hefur lagt hann að velli. Æðrulaus mætti hann raunum sínum til hinstu stundar. Miður þótti mér að hann komst ekki í fjölskyldujólaboðið til okkar Sonju sem hann og Sigríður tengdamamma höfðu boðið til, en þann dag, jóladag, lagðist hann inn á spítala þar sem hann lést rúmum mánuði síðar. Þann tíma og áður var hann umvafin einstakri umhyggju eiginkonu sinnar og barna.

Með skömmu millibili er ég búinn að missa tvo af mínum reyndustu vinum; pabba minn og nú tengdaföður minn. Góðvild þeirra og hvatning verður það veganesti sem ég og fjölskylda mín munum hafa frá þeim á lífsleiðinni.

Björt er minning Þórarins Jónssonar.

Pétur Kristinsson.

Við systurnar höfum verið svo lánsamar að eiga tvo góða afa sem báðir hafa fyllt líf okkar hamingju og gleði. Það eru aðeins nokkrir mánuðir síðan við kvöddum Kristin, afa okkar, og nú er Þórarinn afi líka farinn. Það er eins og tilveran verði allt í einu öll önnur og tómleikinn heltekur okkur.

Minningar frá liðinni tíð hrannast upp. Það var alltaf gaman að gera sér ferð á hendur á Borgarbílastöðina til afa þar sem hann var iðulega hrókur alls fagnaðar, bæði gamansamur og glettinn. Það var heldur aldrei langt í hans góðlátlegu stríðni. Við stungum okkur gjarnan út og löbbuðum þá út í Bæjarins bestu þar sem við gæddum okkur á pylsu og kóki. Áður en við kvöddumst hafði afi laumað aur í vasann - aldrei fór maður tómhentur frá honum. Við eigum góðar minningar frá skemmtilegum dögum þegar afi og amma bjuggu heima hjá okkur meðan foreldrar okkar voru í útlöndum. Afi tók ekki annað í mál en keyra okkur í skólann og ævinlega lagði hann á það áherslu að við fengjum að ráða hvað yrði í matinn síðasta daginn sem þau voru heima og þá var valin pítsa. Þegar afi og amma komu í heimsókn til okkar kom hann alltaf með kók og appelsín í poka og í matarboðum passaði hann vel upp á að við fengjum nóg að borða. Afi kom ekki öðruvísi í heimsókn en að leggja fyrir okkur systurnar sína frægu spilagaldra. Þeir voru stundum ansi erfiðir en hann skemmti sér konunglega þegar hann sá okkur velta vöngum yfir göldrum sínum. Aldrei vildi hann samt segja okkur í hverju galdurinn fólst. Við munum geyma þessar skemmtilegu stundir okkar í minningunni og ha lda áfram að velta vöngum yfir göldrunum hans afa. Hann elsku afi okkar hefur nú fengið hvíldina en gamansemi hans og léttleiki munu áfram lifa í huga okkar.

Kannski englarnir hjá guði fái galdra til að glíma við eins og við, englarnir hans í hinu jarðneska lífi. Við ætlum að kveðja Þórarin afa með ljóði eftir Kristin afa með von um að honum líði vel núna.

Í þessum reit er þögnin himindjúp

en þýðum geislum stafar

á foldarsár og fáein kistublóm

sem fylgdu þér til grafar.

Og bráðum lúta blómin reku hans

er býst til þess að moka.

Og moldin breiðir myrkur yfir þig

og mig sem hjá þér doka.

En sem þú hefur söknuður til fulls

mér sorgarklæði skorið

þá ljómar inn í lokrekkju til mín

af ljósi í dökkvann borið:

við sáluhliðið syngur lítill fugl

um sólskinið og vorið.

Sigríður og Margrét Jústa

Pétursdætur.

Mig langar til þess að minnast afa míns í örfáum orðum. Ég var ætíð stoltur að eiga hann Þórarin fyrir afa eða Dodda afa eins og við vorum vön að kalla kann í fjölskyldunni. Hann gladdist alltaf yfir velferð okkar barnabarnanna, við áttum að verða eitthvað þegar við yrðum stór. Sjálfur átti hann sér draum um að verða flugmaður. Það voru ófáir hlutirnir og gjafirnar sem hann rétti okkur og brýndi þá gjarnan fyrir okkur að passa þá vel, afi var nefnilega svo mikill "prinsip"maður. Honum varð oft um og ó þegar hann kom inn í mínar vistarverur. Hafði ég því gaman af því að kalla á hann og koma að sjá þegar ég var nýbúinn að taka allt í gegn, þá ljómaði Doddi afi og skildi ekkert í því af hverju ég gæti nú ekki haldið þessu svona. Ég man oft í kirkju á aðfangadagskvöld þegar við afi hittumst við messu og maður var nýklipptur, pressaður og strokinn, þá sá maður alltaf útundan sér hvernig afi horfði á nafna sinn stoltur, svona vildi hann auðvitað alltaf hafa mann. Annað dálítið fyndið með afa var sú "prinsip"regla að jakkaföt skyldu hengd upp á góð viðarherðatré en ekki járn, þetta athugaði Doddi afi reglulega. Eins hafði hann gaman af að fylgjast með stelpumálunum og þegar ég keypti mér nýja bílinn þá var Doddi afi sko tekinn fyrstur í prufutúr og græjurnar þandar í botn. Afi þekkti þetta allt saman og vissi um hvað þetta allt snerist.

Það verður svo sannarlega tómlegt án þín, afi minn, en lífið heldur áfram og ég er ákveðinn í því að standa mig svo þú getir verið stoltur af mér, því ég trúi því að einhverstaðar þarna uppi sért þú og fylgist með mér.

Elsku afi minn, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig í orði og verki. Guð blessi minningu þína.

Þórarinn Eggertsson.

Okkar ástkæri afi, Þórarinn Jónsson, er fallinn frá og söknuður okkar systkinanna er mikill. Á svona stundu er ekki laust við að hugurinn reiki til baka til þeirra góðu stunda sem við áttum með honum.

Ferðirnar voru ófáar sem hann kom ásamt ömmu til Húsavíkur. Í okkar minningu var alltaf sól og blíða þegar þau voru hjá okkur, á slíkum góðviðrisdögum, þegar legið var úti á sólpalli, var ekki óalgengt að hann hyrfi og birtist svo aftur með ís úr vél handa öllu liðinu sem þar var.

Tilvalið var að plata afa með sér í Kaupfélagið og varð maður þá yfirleitt einhverju dóti ríkari, fékk hann því fljótlega viðurnefnið Doddi dótaafi. Þegar aldur færðist yfir tókst foreldrum okkar að venja okkur af þessum ósið, en þá leiddist afa þessar ferðir ekki meir en svo, að þegar við komum suður til Reykjavíkur var það yfirleitt það fyrsta sem hann gerði, þegar maður var einn með honum, að bjóða manni í dótadeild Hagkaups.

Afi vann mjög mikið og var því oft farið í heimsókn til hans á Borgarbílastöðina. Bauð hann þá oftast upp á Bæjarinns bestu og lét okkur kaupa eina pylsu handa sér, með tómat og sinnep undir pylsunni. Ástæðan fyrir þessu var sú, að ekki mátti fara sósa út um allt, því hann var mikill snyrtipinni.

Afi var af gamla skólanum og var hann húsbóndi á sínu heimili. Á því heimili var ekki þetta eilífa vesen um að allir gerðu allt jafnt, húsmóðirin sá um heimilishaldið og hann vann úti. Þetta sá maður vel í jólaboðunum þegar afi sat hjá okkur og amma sá um allt umstangið. Þegar árin liðu og barnabörnunum fjölgaði fóru börnin hans að hafa orð á því að þetta gengi ekki að láta ömmu um allt eina, fór hann þá að hugsa sinn gang og sá maður greinilega breytingu á honum á jólunum þar á eftir, því þá sat hann ekki lengur til borðs með okkur, heldur stóð yfir okkur og þegar eitthvað vantaði á kræsingarnar var hann boðinn og búinn að kalla á ömmu fram í eldhús til að hún gæti komið með það sem vantaði.

Elsku amma, mamma, Soffía, Sonja og Gísli, hugur okkar er hjá ykkur og megi Guð vera með ykkur á þessum erfiðu tímum.

Tryggvi Þór, Katrín og

Guðjón Arnar.

Skyndileg veikindi Þórarins komu okkur samstarfsmönnum hans mjög á óvart. Þórarinn var einn af stofnendum Borgarbílastöðvarinnar fyrir tæpum 50 árum og starfaði þar til æviloka.

Þórarinn þótti með afbrigðum góður ökumaður og var til þess tekið hvað bílar hans væru áberandi vel hirtir jafnt að utan sem innan enda maðurinn sérstakt snyrtimenni. Þórarinn bar hag stöðvarinnar mjög fyrir brjósti og ef eitthvað þurfti að lagfæra innan stöðvarinnar eða utan var hann alltaf fyrstur til.

Þórarinn var mikill áhugamaður um handknattleik og knattspyrnu og þegar farið var á völlinn var hann alltaf fremstur í flokki hvort sem það var hér heima eða erlendis og þá naut hann sín vel með viðeigandi hávaða og látum.

Þegar BBS tók þátt í firmakeppni í skák var Þórarinn sjálfsagður skákstjóri. Þá hafði hann mjög gaman af því að spila og þegar vel gekk mátti heyra rokurnar langt út fyrir veggi stöðvarinnar og það vitum við að ef tekið er í spil hinumegin, þá er Þórarinn þegar sestur við borðið og byrjaður að sleikja puttann.

Þórarinn var sérstaklega bóngóður maður og vildi allt fyrir þá gera sem til hans leituðu.

Þórarni var mjög annt um sína góðu fjölskyldu og naut hann þess mjög að vera með sínum nánustu og að vera með í heimsóknum til Guðmundar míns svo og ferðum erlendis með fjölskyldunni sem hann hafði sérstaka ánægju af og talaði mikið um.

Að lokum þökkum við fyrir áratuga ánægjulega samleið, kæri félagi.

Aðstandendum hans vottum við einlæga samúð.

Samstarfsmenn á BBS.