Ingibjörg Ragna Ólafsdóttir fæddist í Brekkubæ á Hellissandi hinn 12. nóvember 1925. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans hinn 24. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ólafur Pétursson frá Malarrifi og Guðrún Ágústa Rögnvaldsdóttir frá Fagradalstungu. Fjölskyldan bjó á Hellissandi þar til Ragna var 12 ára, en fluttist þá til Reykjavíkur. Albræður Rögnu eru Pétur og Rögnvaldur. Eftir andlát Guðrúnar, móður Rögnu, kvæntist Ólafur faðir hennar Hönnu Jónsdóttur. Synir Hönnu eru Birgir Pétursson og Gunnar Gunnlaugsson. Sonur Hönnu og Ólafs er Árni.

Hinn 27. nóvember 1954 giftist Ragna Árna Frímannssyni símaverkstjóra, f. 26.5. 1925, d. 21.10. 1992. Börn þeirra eru Frímann símsmiður, f. 14.10. 1952, og Guðrún Ágústa leikskólakennari, f. 15.7. 1955, gift Kristmundi Jónassyni matreiðslumeistara, f. 13.6. 1951. Börn Guðrúnar og Kristmundar eru Ragna, hjúkrunarfræðinemi, f. 12.5. 1976, gift Bjarna Vilhjálmi Halldórssyni stærðfræðingi, þeirra dóttir er Martha Guðrún, f. 30.3. 1997; Árni Jónas blikksmíðanemi, f. 10.10. 1980, unnusta hans er Erla Björg Birgisdóttir, f. 23.6. 1981; og Snædís, f. 26.1. 1988.

Útför Rögnu fór fram frá Kópavogskirkju 28. janúar.

Það kviknaði bál og hrifsaði ömmu okkar frá okkur. Það tók líf hennar næstum mánuð að fjara út, og við gátum bara staðið hjálparlaus hjá og treyst því að Guð stýrði þessu á rétta braut. Þegar amma fékk loks hvíld frá vélum, lyfjum og skurðaðgerðum létti okkur, en á sömu stundu urðum við endanlega að horfast í augu við þá staðreynd að hún væri horfin og kæmi aldrei aftur. Við getum ekki lengur heimsótt hana á fallega heimilið hennar í Fannborginni, sem hún var svo stolt af. Þar varð flest logum að bráð, allt fína smádótið sem hún sankaði að sér og naut þess að skreyta með, og myndirnar af langömmustelpunni sem mun ekki muna eftir henni eða fá að kynnast henni. Við getum að minnsta kosti sagt Mörthu Guðrúnu frá langömmunni sem veggfóðraði hjá sér með myndum af henni, og spjallaði við myndirnar þegar aðskilnaðurinn varð of langur.

Amma naut þess að vera umkringd fjölskyldu sinni, og glöðust var hún þegar allir afkomendur hennar voru komnir saman hjá henni. Þeim tilefnum fækkaði eftir að Ragna yngri og Bjarni fluttu til Bandaríkjanna til náms, og urðu þá þessir samfundir okkur öllum þeim mun dýrmætari. Nú verðum við að halda lífinu áfram, vera sterk, og gera ömmu stoltari af okkur en nokkru sinni fyrr. Við trúum því að hún fylgist með okkur og passi upp á okkur þaðan sem hún er núna. Við erum svo heppin að tilheyra samheldinni og ástríkri fjölskyldu, sem er ómetanlegt á svona stundum. Sorgin er sár, en það er óhjákvæmilegt að syrgja þá sem maður elskar. Ef maður gæti ekki elskað af ótta við að missa væri lífið lítils virði. Við elskum þig amma, þú lifir áfram í okkur, sorgum okkar og gleði. Vonandi nær gleðin fljótlega yfirhöndinni á ný, því þannig myndir þú vilja hafa það. Megi Guð gefa okkur og fjölskyldunni okkar allri styrk til að yfirvinna sorgina og gleðjast yfir því að hafa átt þig meðan líf þitt entist.

Með kveðju og von um að þér líði vel.

Þín ömmubörn,

Ragna, Árni Jónas og Snædís.

Við dveljum hér við hvílurúm þitt klökk

og kveðjum þig í hinsta sinni, vina.

En til þín streymir heitust hjartans þökk

fyrir horfna tíð og kæru samfylgdina.

Þín endurminning eins og geisli skín

á okkar leið og mýkir hjartans sárin.

Já, vertu sæl, við sjáumst, vina mín,

í sælu guðs, er þerrar harmatárin.

(Ók. höf.)

Elskuleg frænka mín. Allt er í lífinu hverfult. Nýtt ár er ekki búið að líta dagsins ljós þegar dóttir þín hringir og segir mér þær skelfilegu fréttir að þú hafir orðið fyrir slysi, sem síðan leiddi til þess að líf þitt slokknaði 24. janúar.

Það þarf ekki að lýsa Rögnu fyrir þeim sem þekktu hana, hún var falleg kona, raungóð og hjartahlý. Þau hjónin Ragna og Árni voru samhent, gestrisin og skemmtileg heim að sækja, með létta lund og gamansöm. Eftir að Árni lést snögglega 1992 helgaði hún börnum sínum og barnabörnum líf sitt, þau voru hennar gleði.

Ég á margar góðar og skemmtilegar minningar eins og þegar við fórum til sólarlanda fyrir fimm árum eða í dagsferðina í Þórsmörk, þar var blæjalogn en úrhellisrigning. Hvað það var notalegt eftir gönguna að koma í skálann og fá kaffi og kleinur fyrir utan nestið okkar, eða öll símtölin sem við áttum. Þeirra sakna ég sérstaklega.

Ég þakka þér af öllu hjarta fyrir allt sem þú varst mér og mínum. Guð blessi minningu þína.

Ingibjörg.

Mig langar til að skrifa fáein orð um hana Rögnu mína. Ég kynntist henni fyrir 25 árum er við hjónin fluttum í parhúsið við hlið þeirra.

Betri nágranna er vart hægt að hugsa sér. Hún reyndist mér yndislega vel þegar ég missti manninn minn, var þá mikið hjá mér og var mér mikill styrkur. Eins þegar við hjónin fórum til útlanda, þá gátu börnin okkar alltaf leitað til þeirra hjóna ef eitthvað kom upp á.

Það voru ófáar stundirnar sem við fengum okkur kaffi úti í gróðurhúsinu hjá henni og þá var mikið hlegið og ýmis mál rædd. Ég veit að Árni hefur tekið vel á móti Rögnu sinni því að þau voru mjög samrýnd.

Það kemur svo margt upp í hugann hjá manni á svona stundum. Það voru til dæmis ófá gamlárskvöldin sem við glöddumst saman og lifa í minningunni.

Ég veit, Ragna mín, að kvalirnar eru að baki. Ég vil votta Frímanni, Gunnu og fjölskyldu, mína dýpstu samúð.

Trygga samfylgd þökk sé þér

það mun hugur geyma.

Allt sem varstu mínum og mér

mun ég aldrei gleyma.

Guð launi þér alla þína góðvild.

Hinsta kveðja,

Jóhanna.