Eskifjörður: Freska eftir Baltasar á Hraðfrystihúsið Listmálarinn Baltasar er þessa dagana að setja upp 50 fermetra myndfresku á gaflvegg Hraðfrystihúss Eskifjarðar, en vinna við verkið tók eitt ár og vegur það fimm tonn.

Eskifjörður: Freska eftir Baltasar á Hraðfrystihúsið Listmálarinn Baltasar er þessa dagana að setja upp 50 fermetra myndfresku á gaflvegg Hraðfrystihúss Eskifjarðar, en vinna við verkið tók eitt ár og vegur það fimm tonn.

Aðalsteinn Jónsson, forstjóri Hraðfrystihússins, sagði að verkið lýsti sögu Eskifjarðar og yrði það stolt bæjarins. Aðalsteinn nefndi það við Baltasar fyrir mörgum árum að hann gerði slíkt verk fyrir Hraðfrystihúsið. Nú er unnið að því að festa það á gaflvegginn og má geta þess að veggfestingarnar einar vega eitt tonn.

Baltasar sagði að sér þætti mjög vænt um litla bæi við strendur landsins og sjálfur hefði hann unnið í síld á Eskifirði 1961.

"Ég kalla þetta fjölhliða fresku og er hér um alveg nýja aðferð að ræða sem ég hef unnið upp úr hinni sígildu fresku. Þetta eru 15 myndir sem mynda eina heild og greina frá fortíð og nútíð Eskifjarðar. Eins og allt sem er svona stórt þá er þetta ekki eins manns verk og hef ég notið aðstoðar margra við verkfræðilega þáttinn," sagði Baltasar.