12. mars 2000 | Sunnudagsblað | 1223 orð | 2 myndir

Auga Lundúna

Stórbrotið útsýni er yfir London úr þessu risavaxna útsýnishjóli.
Stórbrotið útsýni er yfir London úr þessu risavaxna útsýnishjóli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stærsta parísarhjól í heimi hefur nýlega farið að snúast og trónir tignarlega á suðurbakka Thames í London. Það er líklegast ekki sniðugt verkefni fyrir lofthrædda blaðamenn en Dagur Gunnarsson var hvergi banginn, hann lét sig hafa það að fara eina bunu til að kanna tækniundrið.
Í LONDON er enginn að deila um það hvort árið 2000 sé upphafið á nýju árþúsundi eða niðurlagið á því gamla, flestir líta svo á að þetta sé flott ártal og að það sé formlega hafin ný öld og ekki meira með það. Reyndar var fjallað um það í fréttum fyrir áramótin að nokkrir bæjarfulltrúar í smábæ í Wales sem væru svo klikkaðir að nenna að þrasa um þetta mál, þetta var í lok fréttatíma þegar venjan er að hafa eitthvað sniðugt og skrítið. Nei, þetta er ekki bitbeinið í London, þar rífst fólk um það hvort risavaxin og rándýr þúsaldarhvelfingin (Millennium Dome) hafi verið þess virði að eyða almannafé í hann og hvað hefði frekar átt að gera og þar fram eftir götunum. Það eru nokkur stórverkefni í gangi á árinu 2000 og höfuðborginni til heiðurs og öll eru þau á bökkum Thames. Austast er það þúsaldarhvelfingin sem á einungis að standa út árið, þ.e. þá verður honum breytt í eitthvað gagnlegra eins og t.d. íþróttaleikvang. Nær miðbænum er nýja útibúið frá Tatesafninu, þar er búið að rífa innvolsið úr og endurbyggja gamalt orkuver fyrir 134 milljónir sterlingspunda, það á að opna í maí og hefur verið skýrt Tate Modern og á að slá öllum nýlistasöfnum við. Síðan er verið að byggja tvær nýtískulegar göngubrýr yfir ána sem hefur ekki fengið nýja brú síðan hin fræga Tower Bridge reis fyrir síðustu aldamót. (Gamla London Bridge var reyndar rifin upp úr 1970 og seld amerískum milljónamæringi sem lét endurreisa hana í miðri Nevada-eyðimörkinni og ný London Bridge reis í staðinn en það er önnur saga og ekki að marka). Síðan er það Lundúna-augað (London Eye) sem allir eru að tala um, það er risavaxið parísarhjól, reyndar það stærsta í heimi og hangir fram yfir suðurbakkann á Thames, við hliðina á sædýrasafninu og skáhallt á móti Big Ben og þinghúsunum. Það hefur farið svo að augað og kúpullinn hafa yfirleitt verið nefnd í sömu andránni í fjölmiðlum og þó að það sé þrasað um kúpulinn virðast allir sammála um að útsýnishjólið sé frábært, enda er ákaflega erfitt að koma með rök gegn því.

Stórbrotið útsýnishjól

Það kemur ekki nógu vel út á íslensku að kalla þetta mikla tækniund ur sem allir Lundúnabúar eru svo stoltir af, parísarhjól, eftir höfuðborg sjálfra erkifjandanna. Sjálfir neita þeir að kalla það Ferriswheel eftir Bandaríkjamanninum sem fann upp fyrsta parísarhjólið, þeir tala um heimsins stærsta útsýnishjól (observation wheel), og hafa skýrt það British Airways London Eye. Þetta er einkaframtak, hönnuðirnir eru hjónin David Marks og Julia Barfield sem eru bæði arkitektar og hafa fengið British Airways og Madame Tussauds Group til liðs við sig við reksturinn. Þau fengu leyfi til að láta augað snúast á þessum stað næstu fimm árin en hafa þegar sótt um framlengingu á því og benda á að Effeilturninn hafi staðið mun lengur en upphaflega stóð til.

Augað nær 135 metra upp í loftið og þaðan sést vítt og breitt á góðum degi, það er hannað eins og gjörðin á reiðhjóli með áttatíu teinum sem eru reyndar strekktir stálvírar sem liggja frá hjólnöfinni. Öll hönnun er létt og sviphrein, en hjólið vegur eigi að síður tæp 2000 tonn. Á bakkanum voru gríðarlegir sökklar grafnir djúpt niður í jörðina og við þá var síðan festur rammi sem er eins og bókstafurinn A í laginu, rammanum var síðan hallað fram yfir árbakkann, þannig er hjólið einungis fest öðrum megin. Útsýnið úr klefunum er óhindrað í allar áttir, þeir eru mjög stórir, taka 25 farþega hver þeirra en alls eru klefarnir 32 talsins og því getur hjólið borið 800 manns í einu. Utan um egglaga klefana eru tvær gjarðir eða legur til að halda klefunum stöðugt á réttum kili eftir því sem hjólið sjálft snýst hægt og rólega.

Snýst stöðugt

Hjólið stoppar aldrei, það snýst stöðugt og maður fer um borð og frá borði á ferð, hraðinn er ekki mikill, svona svipaður og í rúllustiga, mér var sagt að þetta væru 16 metrar á mínútu ef það segir tækniþenkjandi lesendum eitthvað. Ein hringferð tekur tæpan hálftíma en það verður að viðurkennast að hann var skotfljótur að líða, það er ákaflega gaman að sjá þessa víðfeðmu borg úr lofti og glöggva sig betur á samhenginu, sérstaklega var gaman að sjá hvað Thames er hlykkjótt. Það getur verið mjög erfitt að átta sig í London og væri mun auðveldara ef einhver myndi taka sig til og rétta úr ánni. Þegar ég fór einn prufuhring var starfsmaður með talstöð um borð í klefanum, en það er einungis til bráðabirgða, í staðinn verður neyðarhnappur sem setur mann í talsamband við stjórnstöðina og sjónvarpsvél í öllum klefum ef eitthvað skyldi koma upp á. Annað sem var ókomið en væntanlegt er segulbandsupptaka með þýðri rödd sem lýsir því sem fyrir augu ber, ég verð að viðurkenna að ég saknaði þess ekki, þögnin og kyrrðin gerir þetta að persónulegri upplifun. Það væri hugsanlega róandi fyrir lofthrædda að heyra lyfturödd sem bendir manni á St Paul's dómkirkjuna, Canary Wharf og Big Ben en það er ólíklegt að lofthræddir viðskiptavinir verði í miklum meirihluta.

Fjórða stærsta mannvirkið

Þrjár aðrar byggingar í London eru hærri en augað; Canary Wharf-skrifstofubygging í Docklands, Nat West Tower, skrifstofubygging í City, og símaturninn í Fitzrovia (fyrir norðan Oxford Street), þær eru ekki opnar almenningi og því er þetta hæsti punktur sem er aðgengilegur fyrir alla.

"Flugið" sjálft er ákaflega þægilegt, hjólið er mjög stöðugt, höktir ekki og sveiflast ekki baun og svo getur maður rölt um í rúmgóðu egginu sem er með eigin hita- og kælikerfi og maður getur ýmist haldið sér í handriðið og gónt í allar áttir, eða þá tyllt sér á fallegan trébekkinn sem er í miðjunni.

Miðað við að framkvæmdir hófust ekki fyrir nema ári síðan hefur gengið ótrúlega vel að ljúka verkinu, en það eru reyndar liðin sjö ár síðan arkitektahjónin hófust handa við hönnunina og þau hafa fengið mörg fyrirtæki víðsvegar um Evrópu til liðs við sig, t.d. voru stálvírarnir splæstir saman í Hollandi og eggin smíðuð í Frakklandi.

Allt hefur nú ekki gengið alveg eins og í sögu. Þegar átti að reisa hjólið af prömmunum á Thames og festa það við rammann slitnuðu togvírar og hjólið komst ekki á sinn stað fyrr en í þriðju tilraun og viku á eftir áætlun. Síðan hefur gengið brösuglega að ganga nægilega vel frá öllum öryggisatriðum þannig að ekki náðist að opna það fyrir almenning 1. janúar eins og áætlað var. Þegar þetta er skrifað er einungis búið að taka tíu klefa í gagnið og það eru aðeins þeir sem voru svo forsjálir að kaupa miða fyrirfram, blaðamenn og þeir sem hafa unnið eina bunu í happdrætti sem fá að njóta útsýnisins. Áætlað er að augað verði opnað fyrir almenningi í mars.

Sem stendur er reiknað með að hjólið verði opið milli kl. 10:00 og 18:00 en á sumrin er reiknað með að opna kl. 9:00 og hafa opið framyfir sólsetur.

Aðstandendurnir reikna með að rúmlega tvær milljónir manna kaupi bunu með hjólinu, sem er svipuð aðsókn og hjá vaxmyndasafninu sem er langvinsælasti viðkomustaður ferðamanna í London. Miðaverð í augað er £7,45.- fyrir fullorðna og £4,95.- fyrir börn sem er frekar dýrt fyrir hálftíma bunu, en líklegast er þetta samt hlutfallslega ódýrara en að ferðast með Concorde og ætli ánægjan sé ekki bara svipuð. Miðar verða seldir við innganginn en þeir sem stefna á London á næstunni og hafa brennandi áhuga geta hringt í síma (0)870 5000 600 og heimasíðan er www.ba-londoneye.com

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.