22. mars 2000 | Höfuðborgarsvæðið | 594 orð | 3 myndir

Breytingar á pósthúsi og pósti

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NOKKRAR breytingar hafa átt sér stað undanfarið í pósthúsinu í Pósthússtræti 3 til 5, eða R einum eins og starfsmenn póstsins kalla það. Afgreiðslusalurinn hefur verið minnkaður töluvert og afgreiðslubásum hefur verið fækkað.
NOKKRAR breytingar hafa átt sér stað undanfarið í pósthúsinu í Pósthússtræti 3 til 5, eða R einum eins og starfsmenn póstsins kalla það. Afgreiðslusalurinn hefur verið minnkaður töluvert og afgreiðslubásum hefur verið fækkað. Efri hæðir hússins, þar sem áður voru skrifstofur Íslandspósts, hafa verið leigðar út til hins nýja sameinaða fyrirtækis GSP-almannatengsla og Gæðamiðlunar, ásamt fyrstu hæð Pósthússtrætis 3. Íslandspóstur er hins vegar áfram með afgreiðslusal á fyrstu hæð Pósthússtrætis 5 og pósthólfin í kjallaranum.

Umsvif póstafgreiðslunnar fara stöðugt minnkandi, vegna síaukinna heimsendinga á bögglapósti. Þorgeir Ingvarsson, stöðvarstjóri á R einum, segir að þessi aukning á heimsendingum, sem komi til með að aukast enn, sé forsenda breytinganna á afgreiðslusalnum.

"Við erum að draga saman þjónustu á pósthúsunum sjálfum. Ferðum neytandans á pósthúsin fer fækkandi, það er alveg ljóst og er þetta í samræmi við þær breytingar sem hafa orðið í löndunum í kringum okkur," segir Þorgeir.

Húsið byggt árið 1916

Þegar pósthúsið tók til starfa var það eina pósthúsið í Reykjavík og bréfberarnir örfáir. Nú eru bréfberar borgarinnar hins vegar hátt á þriðja hundrað og er póstur flokkaður á hinum mörgu hverfastöðvum, þaðan sem honum er síðan dreift.

"Húsið við Pósthússtræti 5 var byggt árið 1916 og er fyrsta húsið sem var byggt sem pósthús á Íslandi," segir Þorgeir.

"Hér hefur verið pósthús síðan. Húsið við Pósthússtræti 3 er enn eldra og var upprunalega byggt sem barnaskóli og varð seinna lögreglustöð áður en það varð svo hluti af pósthúsinu. Einu sinni var pósthúsið eina póstmiðstöðin á Íslandi. Hér kom allur bréfapóstur, hvaðanæva af landinu og frá útlöndum, og var afgreiddur héðan. Nú erum við hins vegar hverfispósthús fyrir svæði 101 eins og pósthúsið í Breiðholti er fyrir 109 og 111 og svo framvegis."

Axel Sigurðsson, deildarstjóri á R einum, hefur unnið í pósthúsinu í meira en fimmtíu ár. Þegar hann byrjaði þar var Hlíðahverfið austasta hverfi Reykjavíkur og tuttugu og einn bréfberi bar út allan póst Reykjavíkurbúa.

Skólastrákur í póstinum

"Ég held að ég hafi stigið hérna fyrst inn árið 1948. Þá var ég bara skólastrákur og bar út póst á sumrin. Það gerði ég svo öll mín skólaár," segir Axel. Hann segir að ýmislegt hafi breyst í starfsemi pósthússins síðan þá. "Þá var 21 bréfberi í Reykjavík og voru það allt karlmenn. Við vorum hérna uppi á annarri hæðinni og þar var stór kringla með 21 hólfi sem við röðuðum póstinum í og í miðjunni var hólf fyrir póst sem átti að fara í pósthólfin. Svo fórum við og bárum út, en þá var borið út tvisvar á dag, klukkan níu og klukkan þrjú."

Axel og Þorgeir segja að pósturinn sjálfur hafi breyst nokkuð í gegnum árin. "Það er mikill munur á póstinum, miklu meira af smápökkum. Áður var heldur ekki eins mikið af gluggapósti eins og núna er," segir Axel.

Bréf með varalit á og ilmvatni

"Sendibréf hafa í mörg herrans ár verið á undanhaldi. Fólk skrifar ekki eins mikið af bréfum og hefur annar samskiptamáti tekið við. Fólk tekur til dæmis miklu frekar upp símann og hringir. Áður fyrr sáust oft alls konar skemmtileg bréf, jafnvel með varalit á og ilmvatni," segir Þorgeir.

Hann segir að breytingarnar samskiptaháttum og verslunarháttum hafi vissulega áhrif á póstþjónustuna. Bögglasendingum fjölgi verulega, enda sé fólk í mun meira mæli farið að panta vörur og láta senda sér þær. Hann segir að áður fyrr hafi verið sjaldgæft að einstaklingar pöntuðu vörur frá útlöndum.

"Það var svo mikið mál. Ef maður ætlaði að panta sér, þó það væri ekki nema einn bókarræfil, þá þurfti sérstakt gjaldeyrisleyfi og svo þurfti að fara í banka og standa í alls konar snúningum og aukagjöldum. Þetta er mikið breytt," segir Þorgeir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.