[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MARGIR kannast við Asphodel-útgáfuna sem var um tíma leiðandi í útgáfu á neðanjarðarrappi og framsækinni danstónlist, en frá fyrirtækinu komu meðal annars þeir Rob Swift og Xecutioners-félagar og héldu magnaða tónleika.

MARGIR kannast við Asphodel-útgáfuna sem var um tíma leiðandi í útgáfu á neðanjarðarrappi og framsækinni danstónlist, en frá fyrirtækinu komu meðal annars þeir Rob Swift og Xecutioners-félagar og héldu magnaða tónleika. Asphodel hefur heldur dregið úr starfsemi undanfarið en Eric Gilbert, sem áður var það innsti koppur í búri, er búinn að stofna eigin útgáfu.

Eric Gilbert segir að þegar Asphodel-menn hafi ákveðið að draga úr starfsemi fyrirtækisins hafi hann séð sér leik á borði að stofna eigin útgáfu sem hafi staðið til lengi, enda sé til nóg af góðri tónlist til að gefa út. "Það er gríðalega mikið af góðri tónlist sem menn eru að skapa í dag og hiphop tónlist lifir mjög góðu lífi neðanjarðar, ekki síst fyrir áhrif sem berast inn í það frá framsækinni rokktónlist, raftónlist, danstónlist og þar fram eftur götunum. Það er reyndar villandi að kalla það neðanjarðartónlist, enda er það ofnotaður merkimiði auglýsingaskrumara; það mætti frekar kalla það framsækið hiphop."

Nýja útgáfan hans Gilberts heitir 75 Ark Music og fyrsta stóra platan sem hún gefur út er plata rappkvartettsins Anti Pop Consortium. Gilbert segir að það sé aðeins byrjunin, það séu margar fleiri plötur væntanlegar þó ekki séu þær í líkingu við Anti Pop Consortium. Væntanleg er plata með þeim Dan the Automator, Del tha Funkee Homosapien og Kid Koala undir nafninu Deltron 3030, og einnig skífa með Encore úr Handsome Boy Modeling School. "Þetta er ekki líkt Anti Pop Consortium, en framsækið hiphop engu að síður. Anti Pop má kannski frekar kalla listrænt hiphop og ég tel að sú plata eigi eftir að hafa mikil áhrif á ungsveitir sem eru að byrja að fást við tónlistarformið í dag."

Undanfarin ár hefur helst borið á söluvænni hiphop-tónlist með þunnildislegum textum og soðgrýluundirspili, sem Gilbert vill reyndar kalla lélega popptónlist frekar en hiphop. "Á sama tíma var mikið að gerast neðanjarðar, að hluta sem andsvar við poppsullið, en einnig vegna þess að menn voru að miða tónlistarforminu áfram. Það ber kannski meira á því sem stendur vegna þess að plötukaupendur og áhugamenn um hiphop eru teknir að leita að einhverju nýju og ferskara; það má segja að offramboð á lélegri tónlist hafi orðið neðanjarðartónlistinni til góðs."

Hiphop hefur átt sína góðu daga og slæmu og hvað eftir annað hafa menn talið að tónlistarformið væri búið að syngja sitt síðasta, en líkt og rokkið hefur það endurnýjað sig og endurfæðst. Gilbert segist ekki sjá að það eigi eftir að hverfa á næstu árum eða áratugum, formið bjóði upp á svo mikla þróun.