ÞRIÐJA breiðskífa kanadísku sveitarinnar Blinker the Star hefur vakið nokkra athygli, enda er þar á ferð framúrstefnulegt popp og grípandi.

ÞRIÐJA breiðskífa kanadísku sveitarinnar Blinker the Star hefur vakið nokkra athygli, enda er þar á ferð framúrstefnulegt popp og grípandi. Leiðtogi sveitarinnar er helst þektur fyrir samstarf við Hole, en nær vonandi vinsældum af eigin verðleikum með breiðskífunni August Everywhere.

Jordon Zadorozny, leiðtogi Blinker the Star, hefur fengist við tónlist frá unga aldri, enda af tónlistarfólki kominn. Þannig er faðir hans bluegrasstónlistarmaður og hefur gefið út nokkrar skífur og móðir hans tónlistarfræðingur og leikur keltneska tónlist á fiðlu sér til skemmtunar. Þegar við bættist að fjölskyldan rak lengi vel hljóðfæraverslun er varla nema von að drengurinn hafi tekið til við spilamennsku, en til viðbótar við bluegrass og keltneska tónlist bættist svo balkantónlist sem leikin var fram á nótt í eldhúsinu í heimsóknum tónelskra ættingja. Allt það skýrir sjálfsagt fjölbreytilegar hugmyndir sem skjóta upp kollinum í tónlist Blinker the Star.

Jordon lærði snemma á leika á pínaó og gítar, en tónlistin var ævinlega aukaatriði þar til hann heyrði í Van Halen og eftir það komst ekkert annað að en rokk. Þegar hann var rétt kominn á fermingaraldurinn komst hann yfir upptökutæki og eyddi löngum stundum með bróður sínum í lagasmíðar og upptökur. Þegar þeir stofnuðu hljómsveit saman var það þó ekki til að leika eigin tónlist heldur til að stæla aðra. Hver sveitin rak aðra þar til Jordon hélt í framhaldsnám í Montreal. Þar auglýsti hann eftir liði í hljómsveit, en var sjálfum boðið að spila í sveit. Hann hélt þó áfram að semja einn síns liðs og taka upp þau lög sem rötuðu á fyrstu breiðskífu hljómsveitar sem fékk nafnið Blinker The Star.

Þetta var árið 1995 og smám saman safnaði Jordon að sér mannskap til að mynda tónleikasveit og á endanum fastan kjarna tríós sem hann hefur starfað með upp frá því. Sá mannskapur kemur við sögu á þriðju skífu sveitarinnar, August Everywhere, sem kom út fyrir skemmstu. Jordon ræður þó ferðinni sem forðum, semur allt og útsetur, en í millitíðinni kom hann reyndar við sögu á síðustu skífu Hole eins og getið er. August Everywhere hefur fengið góða dóma, þykir forvitnileg poppskífa sem leynir á sér.