Á fáum árum hefir það gerst í hinum vestræna heimi, að almúginn, eða millistéttirnar, sem þið viljið líklega kalla hann, er farinn að taka þátt í darraðardansinum í stórhappdrætti auðvaldsskipulagsins, sem heitir verzlun með verðbréf.

Á fáum árum hefir það gerst í hinum vestræna heimi, að almúginn, eða millistéttirnar, sem þið viljið líklega kalla hann, er farinn að taka þátt í darraðardansinum í stórhappdrætti auðvaldsskipulagsins, sem heitir verzlun með verðbréf. Og á undraverðan hátt hefir þessi heimur fjármálaviðskiptanna líka opnast Jónum og Sigurðum Íslands. Nú þegar hafa þúsundir manna hagnast verulega, og lýðurinn heillast af því að lesa um einstaklinga, sem orðið hafa margfaldir millar á augabragði við að hlutabréf þessa eða hins fyrirtækisins hafa skotist upp eins og flugeldar.

Tölvan leikur stórt hlutverk í þessari þróun og fólk getur nú stundað verðbréfaviðskipti heima hjá sér í næði. Þeir sem lengst ganga í þessari grein hér vestra kaupa og selja hlutabréf á sama degi og köllum við þá dagbraskara (day traders). Sett hafa verið upp fyrirtæki sem leigja bröskurum aðstöðu og tölvur til að stunda iðju sína. Margir telja slík viðskipti hættuleg og hafa verið fréttir um voveiflega atburði þar að lútandi. Aular, sem spilað hafa rassinn úr buxunum í dagbraski, hafa skroppið heim og náð í hinar handhægu byssur sínar. Síðan farið og skotið forstöðumenn dagbrasks-stofanna niður eins og hverja aðra hunda.

Hérna í henni Ameríku er nú talið að um helmingur heimila eigi verðbréf og stundi með þau viðskipti. Margir eiga í hlutabréfasjóðum, sem oft eru um leið lífeyrissjóðir og er hægt að leggja í þá skattfrjálsa peninga, sem ekki má taka út fyrr en hætt er að vinna. Hægt er að velja um marga sjóði sem eru mismunandi áhættusamir. Í vinnunni og utan hennar beinist talið oft að þessum eða hinum sjóðnum og menn keppast um að vera klókir og hæla sjálfum sér, ef þeirra sjóðir hækka meira en annarra. Ekki er að því að spyrja að grobbið hjá sumum verður oft næsta óbærilegt þegar vel gengur. Aftur á móti er sjaldnast talað um þegar gæfan snýst við. Margir nýgræðingarnir fylgjast með verðbréfamarkaðnum á degi hverjum og eru að fara á taugum vegna sífelldra kúvendinga verðmætis verðbréfa sinna. Einn daginn stórgræða þeir en tapa svo öllu aftur næsta dag. Þeir voru ekki tilbúnir að fórna lífsjafnvæginu fyrir gróðavonina, en samt er nú svo komið hjá þeim mörgum.

Næstum allir virðast vera að keppa um að verða moldríkir strax. Engin þolinmæði er fyrir hendi og fólki nægir ekki að peningarnir ávaxtist hægt og rólega, heldur verða þeir að margfaldast á skömmum tíma. Óreyndir fjárfestar eru gjarnir á að selja hlutabréf, sem þeim finnst ekki nógu arðsöm og kaupa önnur, sem þeir halda að muni gefa þeim góðan arð. Sölumenn verðbréfa kynda undir, því þeir græða meira eftir því sem oftar er selt og keypt. Allt of miklum fjárhagslegum upplýsingum er dembt yfir lýðinn á öllum sviðum fjölmiðlunar. Unga fólkið smitast af verðbréfaæðinu eins og skoðanakönnun í einum af betri háskólum landsins gefur til kynna, en um 65% nemenda sögðust ætla að stefna að því að verða milljónamæringar og reiknuðu með að það gætitekist.

Skiljanlega eru margir landar hér í sólarríkinu sem taka þátt í verðbréfakapphlaupinu og nota þeir tölvur sínar óspart, enda flinkir að hagnýta sér allra nýjustu tæknina. Sumir þeirra, sem komnir eru hér á eftirlaun, hafa stundað þessa iðju í mörg ár og hafa safnað vel í sarpinn. Kemur þá ekki til með að skorta neitt á elliárunum, sem Ameríkanar kalla líka gullnu árin. Upp á vestur-íslenzkan máta kalla sumir Íslandsmanna hér hlutabréf (stocks) og skuldabréf (bonds) einfaldlega stokka og bonda!

Ekki getum við skilið við þetta spjall um stór-fjármál, áhættu og stórgróða án þess að minnast á lottóið. Þar eru Íslendingar auðvitað sérfræðingar og voru reyndar langt á undan Ameríkananum á þessu sviði, en nú hafa þeir sótt í sig veðrið og er næstum komið opinbert lottó í hvert ríki í landinu. Stjórnmálamennirnir segja að hagnaðurinn af sölu miðanna sé notaður að mestu til kennslumála, en stöðugar deilur eru nú um það. Alla vega geta þeir sem ánetjast hafa sætt sig við að þeir séu að styrkja gott málefni. Víst er um það, að fólkið sem mest eyðir í lottóið hefir minnst á því efnin.

Hér er dregið tvisvar í viku í Flórída-lottóinu og verða vinningarnir himinháir ef nokkar vikur líða án þess að nokkur geti valið réttu tölurnar. Í fyrri viku var vinningurinn 83 milljónir dollara, sem mér sýnist vera rúmlega 6 milljarðar króna! Stundum dreifist aðalvinningurinn á marga miða, en í þessu tilfelli féll hann á aðeins einn. Fjölmiðlar hafa sýnt fram á að líf flestra sem vinna stórt í lottóinu fer að mestu leyti í vaskinn. Þeir eru bara örfáir sem hafa vit og lán til þess að láta vinninginn bæta líf sitt.

Samt dreymir lýðinn dagdrauma um hvað hann ætli að gera við allar milljónirnar, ef vinningurinn skyldi nú falla á réttan miða. Þrátt fyrir heitar vonir en næstum enga möguleika, heldur fólkið áfram að spila í happdrættinu og lætur ímyndunina draga sig á tálar. Stundum getur það orðið hjákátlegt. Um daginn, áður en risavinningurinn var dreginn, hringdi maður frá næsta ríki í innheimtustjórann hjá okkur og bað hann um að kaupa miða fyrir sig. Sagðist hann skyldu borga honum 15% af vinningnum, ef hann félli á einn sinna miða. Innheimtustjórinn var bíllaus þennan dag svo hann fékk lánaðan vagninn hjá bókhaldaranum til að skreppa út í búð og hét henni að borga eina milljón dollara af þessum rúmlega 12, sem hann fengi, fyrir afnot af bílnum í 10 mínútur! Þegar hann var spurður hvað hann ætlaði að gera við afganginn af peningnum sagðist hann m.a. ætla að kaupa mikið af stokkum og bondum!