Angela Merkel kjörin formaður CDU ANGELA Merkel var kjörin nýr formaður Kristilega demókrataflokksins, CDU, í Þýskalandi á flokksþingi hans í Essen sl. mánudag. Er hún fyrsta konan, sem er leiðtogi eins af stóru flokkunum þar í landi.

Angela Merkel kjörin formaður CDU

ANGELA Merkel var kjörin nýr formaður Kristilega demókrataflokksins, CDU, í Þýskalandi á flokksþingi hans í Essen sl. mánudag. Er hún fyrsta konan, sem er leiðtogi eins af stóru flokkunum þar í landi. Var öll forysta flokksins endurnýjuð og er vonast til, að það muni auðvelda flokknum út úr kreppunni, sem Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari, og leynireikningahneykslið hefur steypt honum í. Merkel er 45 ára að aldri, efnafræðingur að mennt og frá Austur-Þýskalandi. Er kjör hennar sem formanns ekki síður merkilegt fyrir það. Í ræðu, sem hún flutti að loknu formannskjörinu, lagði hún áherslu á, að nú yrði stefnan sett á sigur flokksins í sambandsþingskosningunum árið 2002. Flokkurinn á þó enn langt í land með að ná vopnum sínum aftur.

Hörfar Mugabe í landtökudeilunni?

DÓMSTÓLL í Zimbabwe úrskurðaði á fimmtudag, að bótalaus upptaka á bújörðum hvítra bænda væri ólögleg og skipaði ríkisstjórninni að sjá til, að farið væri að lögum og þeir reknir burt, sem sest hefðu upp á jörðunum. Með þessu stefndi í uppgjör með Robert Mugabe, forseta landsins, sem hefur lagt blessun sína yfir landránið, og dómskerfinu í landinu. Joseph Msika varaforseti brást við úrskurðinum með því að skipa landtökumönnunum burt en leiðtogi þeirra, Chenjerai Hitler Hunzvi, kvaðst ekki mundu taka við skipunum frá neinum nema Mugabe sjálfum. Haft er eftir heimildum, að Mugabe, sem sat svokallaða G77-ráðstefnu ýmissa þriðjaheimsríkja á Kúbu, hafi samþykkt yfirlýsingu Msika en samt er ljóst, að deilan leysist ekki fyrr en hann sjálfur tekur af skarið um það, að eignarnámið sé ólöglegt.