TVÖFÖLDUN Reykjanesbrautar hefur verið til umræðu í nokkur ár. Samkvæmt núgildandi vegaáætlun er gert ráð fyrir, að því verki verði lokið á árinu 2010. Þetta er allt of langur tími.

TVÖFÖLDUN Reykjanesbrautar hefur verið til umræðu í nokkur ár. Samkvæmt núgildandi vegaáætlun er gert ráð fyrir, að því verki verði lokið á árinu 2010. Þetta er allt of langur tími. Hér er um svo mikilvæga samgöngubót að ræða að það er nauðsynlegt að flýta henni mjög frá því, sem nú er áætlað. Rökin fyrir því eru augljós. Þar vegur öryggisþátturinn þyngst. Miðað við þá umferð, sem nú fer um Reykjanesbraut er beinlínis hættulegt að aka þar um, að ekki sé talað um í vondu veðri eða slæmu skyggni.

Höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin eru að vaxa saman. Að örfáum árum liðnum verður samfelld byggð á þessu svæði. Út frá sjónarhóli atvinnulífsins er ljóst, að þetta er nú þegar orðið eitt samfellt atvinnusvæði. Það skýrir m.a. mikla umferð um Reykjanesbraut. Fólk, sem býr á höfuðborgarsvæðinu vinnur á Suðurnesjum og fólk, sem býr þar sækir vinnu á höfuðborgarsvæðið. Sama þróun er reyndar að verða í byggðunum fyrir austan fjall og að einhverju leyti á Akranesi og í Borgarfirði eftir tilkomu Hvalfjarðarganganna.

Þegar á þetta er litið fer ekki á milli mála, að það er of langt að bíða í heilan áratug eftir tvöföldun Reykjanesbrautar.

Þingmenn landsbyggðarkjördæma hafa tilhneigingu til þess að afgreiða samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu með því, að þar sé engu saman að jafna, vandamálum á því svæði og þörfum landsbyggðarinnar.

Þetta er gamaldags málflutningur, sem á að heyra sögunni til. Hér er um ólík vandamál að ræða. Samgönguvandinn á suðvesturhorninu er allt annars eðlis en samgönguvandinn í dreifbýlinu en hann er eigi að síður til staðar og hann verður að leysa. Það á ekki að leysa hann á kostnað landsbyggðarinnar en það á heldur ekki að leysa samgönguvandamál dreifbýlisins á kostnað suðvesturhornsins. Enda býr þjóðin við svo góðan kost um þessar mundir að hún á að hafa efni á hvoru tveggja.

Gunnar I. Birgisson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Reykjaneskjördæmi, hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði á fundi Samtaka iðnaðarins um þetta mál fyrir nokkrum dögum: "Þetta er ekkert mál miðað við jarðgangaáætlun ríkisstjórnarinnar og það verður að hafa í huga, að fjármunir verða að koma inn á þetta svæði rétt eins og til landsbyggðarinnar."

Það er líka ástæða til að vekja athygli á ummælum Hjálmars Árnasonar, alþingismanns Framsóknarflokks, sem sagði á sama fundi: "Slysastuðullinn mun lækka á Reykjanesbraut samkvæmt mati tryggingarfélaga úr 0,36 í 0,09 og þó svo að ekki liggi fyrir nákvæmar rannsóknir á heildarkostnaði tryggingafélaga og ríkissjóðs leyfi ég mér að slá því fram , að samanlagður kostnaður á tíu ára tímabili nálgist 3 milljarða króna. Það er talsvert meiri kostnaður en áætlað er að tvöföldun kosti."

Tvöföldun Reykjanesbrautar er eitt af þeim málum, sem almenningur sér að skipta meginmáli án þess að lesa nokkrar skýrslur eða heyra álit nokkurra sérfræðinga. Ástæðan er einfaldlega sú, að hver einasti maður, sem ekur um Reykjanesbraut gerir sér grein fyrir því, að hann ræður ekki sjálfur örlögum sínum á þessari leið hversu varlega sem hann fer. Þau örlög geta verið í höndum þess, sem á móti kemur.

Þegar á allt þetta er litið er ástæða til að hvetja samgönguyfirvöld og Alþingi til þess að endurskoða þær áætlanir, sem nú eru uppi um þessa framkvæmd á næstu tíu árum og gera ráðstafanir til þess að henni verði hægt að ljúka á mun skemmri tíma.

Mikilvæg vörn fyrir hinn almenna borgara

NÝTT álit umboðsmanns Alþingis um ákvörðun ríkisskattstjóraembættis í máli einstaklings og nýr dómur Hæstaréttar í máli fyrirtækis, sem varðar löggjafarvinnu á Alþingi, sýna hversu mikilvæg vörn er til staðar í samfélagi okkar fyrir almenna borgara, sem telja sig misrétti beitta.

Það eru ekki margir áratugir síðan einstaklingur átti ekki margra kosta völ í samskiptum við opinbera aðila. Almannarómur taldi að dómstólar dæmdu alltaf hinu opinbera í vil og það tæki mörg ár að ná rétti sínum.

Þessi tilfinning er ekki lengur til staðar.