Í OKTÓBER og nóvember munu Heimsferðir bjóða upp á flug til Prag tvisvar í viku. Að sögn Andra Más Ingólfssonar forstjóra Heimsferða hafa Heimsferðir undanfarin tvö ár boðið stakar ferðir til Prag og viðtökurnar verið frábærar.

Í OKTÓBER og nóvember munu Heimsferðir bjóða upp á flug til Prag tvisvar í viku. Að sögn Andra Más Ingólfssonar forstjóra Heimsferða hafa Heimsferðir undanfarin tvö ár boðið stakar ferðir til Prag og viðtökurnar verið frábærar.

"Það er þörf á nýjum valkosti í borgarferðum og Prag fannst okkur álitlegur kostur. Við höfum, í samvinnu við stærstu ferðaskrifstofu Tékklands, Fischer, skipulagt fjórtán flugferðir á mánudögum og fimmtudögum í haust. Fólk getur valið um að fara í helgarferð til Prag, það getur farið í miðri viku eða jafnvel í viku og tíu daga ferðir."

Andri segir að þá standi fólki til boða að kaupa bara farseðil og verðið sé um 25.000 krónur.

"Við höfum vandað til vals á hótelum og bjóðum mjög góð hótel nálægt miðbænum á afar hagstæðu verði." Hann nefnir sem dæmi að hjón sem ætli í helgarferð frá fimmtudegi fram á mánudag geti fengið flug og skatta, gistingu á 3 stjarna hóteli og íslenska leiðsögn á 32.900 krónur á manninn. Kjósi fólk að dvelja á 4 stjarna glæsihóteli á mjög góðum stað kostar helgarferðin um 44.000 krónur.

Andri Már bendir á að veitingahús í Prag séu mjög góð og verðið hagstætt fyrir Íslendinga.

Flugið til Prag tekur að sögn Andra þrjár og hálfa klukkustund, en flogið er með flugfélagi sem ferðaskrifstofan Fischer á. "Flugfélagið mun nota nýja Boeing 737-300 vélar til flugsins sem eru 148 sæta flugvélar og ferðaskrifstofan Fischer mun bjóða Tékkum að nýta sér þessar ferðir og skreppa í helgarferðir til Íslands.

Flogið verður héðan eftir hádegi og lent í Prag síðdegis." Andri segir að íslenskir fararstjórar taki á móti fólki á flugvellinum og verði síðan til aðstoðar. "Þess má geta að Prag er ein af menningarborgum Evrópu árið 2000 og standa fjölbreyttir menningarviðburðir til boða allt árið."