Þórlaug Guðbjörnsdóttir er deildastjóri hjá Íslandsbanka og er á leið til Krítar.

Hvert ertu að fara?

Í vikuferð til Krítar.

Hvers vegna?

Það eru 14 ár síðan við fórum þangað síðast. Þetta er draumastaður.

Vildirðu vera að fara eitthvert annað?

Nei, þetta er draumaferð.

Hvernig skipulagðir þú ferðina?

Ég hringdi í Plúsferðir.

Með hverjum ferðu?

Ég fer með eiginmanni mínum og átta öðrum úr fjölskyldunni.

Hvernig ferðatösku áttu?

Ég er með létta nælontösku sem hefur reynst mér vel.

Hver er fyrsti hluturinn sem þú pakkar niður?

Það er farseðillinn og vegabréfið.

Hvaða fatnað er nauðsynlegt að taka með sér í ferðina?

Það eru fyrst og fremst þægilegir skór og léttur fatnaður.

Er eitthvað sérstakt sem þú tekur með þér í öll ferðalög?

Eftir að ég fór að skrifa ferðadagbók þá er það dagbókin. Ég er búin að skrifa ferðadagbók meira og minna í 25 ár.

Tekurðu einhverjar bækur með þér?

Ég á það stundum til að kaupa mér vasabrotsbók á Leifsstöð.

Hvernig nýtirðu tímann í fluginu?

Þá finnst mér einmitt ágætt að lesa.

Ef þú gætir hlustað á geisladisk, hvaða disk myndirðu hlusta á?

Klassísk tónlist er í uppáhaldi en ég veldi gríska tónlist.

Er eitthvað annað sem þú tekur með þér til að stytta þér stundir?

Nei, yfirleitt ekki.

Hvaða ilmvatn/rakspíra tekurðu með þér?

Ég er að hugsa um að kaupa mér nýtt ilmvatn í fríhöfninni.

Áttu einhvern uppáhaldsveitingastað þar sem þú verður?

Nei, en ég held mikið upp á grískt salat með fetaosti.