STYRKTARFÉLAG aldraðra í Bretlandi hefur krafizt þess að fram fari opinber rannsókn á umönnun aldraðra í sjúkrahúsum eftir að Jill Baker, 67 ára, komst að því, að læknir hafði upp á sitt eindæmi skrifað í sjúkraskýrslu hennar að ekki skyldi reynt að...

STYRKTARFÉLAG aldraðra í Bretlandi hefur krafizt þess að fram fari opinber rannsókn á umönnun aldraðra í sjúkrahúsum eftir að Jill Baker, 67 ára, komst að því, að læknir hafði upp á sitt eindæmi skrifað í sjúkraskýrslu hennar að ekki skyldi reynt að lífga hana við, ef hún yrði fyrir hjartaáfalli. Frásagnir fjölmiðla í kjölfar frásagnar Baker benda til þess að víða sé pottur brotinn í þessum efnum og þess dæmi, að fólk sé látið gjalda aldursins.

Jill Baker, sem er með krabbamein í maga, var lögð inn í sjúkrahús vegna blóðeitrunar, sem hún fékk af slöngu, sem notuð var til lyfjagjafar. Baker líkaði ekki sú umönnun, sem hún fékk í sjúkrahúsinu og fór. Henni tókst svo með eftirgangsmunum að fá sjúkraskýrslur sínar og komst þá að því að þar hafði læknir skrifað: Með hliðsjón af aðalmeininu (krabbameini) er ekki við hæfi að reyna lífgun ef sjúklingur verður fyrir hjartaáfalli eða slagi.

Ekkert samráð

Starfsreglur segja, að læknum beri að hafa samráð við sjúklinga eða ættingja, þegar um slíka ákvörðun er að ræða, en Baker segir málið hvorki hafa verið rætt við sig né mann sinn. Og reyndar hafi hún aldrei hitt lækninn, sem afskrifaði hana fyrir níu mánuðum.

Talsmaður St Mary´s Hospital segir að rangt hafi verið að skrifa þessi skilaboð í sjúkraskrá Jill Baker og er viðkomandi læknir ekki lengur starfandi þar. Talsmaður ríkisstjórninnar segir, að ríkisstjórnin muni ekki líða neins konar mismunun en félög sem berjast fyrir bættum hag aldraðra hafa notað þetta dæmi til þess að setja fram gagnrýni á umönnun aldraðra í heilbrigðiskerfinu. Þeim sé oft illa og ekkert sinnt af því þeir eru orðnir "svo gamlir" og læknar kveði oft upp úr um örlög sjúklinga án þess að bera málið undir þá.

London. Morgunblaðið.