[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Morgunblaðinu í dag, laugardag, er skýrt frá því, að mikil lækkun hafi orðið á gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum í gær, föstudag. Hin svonefnda Dow Jones-vísitala lækkaði um 5,66% á einum degi og hefur þá fallið um tæp 9% frá sl. þriðjudegi.

Í Morgunblaðinu í dag, laugardag, er skýrt frá því, að mikil lækkun hafi orðið á gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum í gær, föstudag. Hin svonefnda Dow Jones-vísitala lækkaði um 5,66% á einum degi og hefur þá fallið um tæp 9% frá sl. þriðjudegi. Nasdaq-vísitalan, sem fyrst og fremst mælir gengi tæknifyrirtækja, lækkaði í gær, föstudag um 9,67% og hefur þá lækkað um 34,2% frá 10. marz. Til þess að setja þessar tölur í ákveðið samhengi má geta þess, að árið 1987 lækkuðu hlutabréf í Bandaríkjunum í verði um 12% á einum degi og þá fór allt á annan endann í viðskiptalífinu þar og reyndar víða um heim.

Skýringin, sem gefin er á þessu mikla falli hlutabréfa á Bandaríkjamarkaði, er sú, að í gær, föstudag, var tilkynnt, að verðbólgan í marz hafi verið hin mesta í fimm ár og þess vegna megi búast við nýrri vaxtahækkun vestra til þess að hamla gegn þeirri þróun.

Í nýju tölublaði bandaríska viðskiptatímaritsins Business Week, sem út kom fyrir þessar síðustu fréttir af bandaríska markaðnum, fjallar einn af dálkahöfundum blaðsins, Robert Kuttner, um þróun hlutabréfaverðs og bendir á einfalda staðreynd í því sambandi. Hann segir að ekkert hafi gerzt, sem hafi breytt þeirri einföldu reglu, að fyrr eða síðar hljóti verð hlutabréfa að endurspegla hagnaðarmöguleika fyrirtækjanna. Síðan tekur höfundur eitt dæmi til þess að sýna um hvað þessar umræður snúast. Fyrir þremur árum var stofnað fyrirtæki til þess að selja leikföng á Netinu, sem nefnist eToys. Á skömmum tíma hækkuðu hlutabréf í þessu fyrirtæki svo mjög í verði að markaðsvirði þess nam 8 milljörðum Bandaríkjadala. Fyrirtækið var metið verulega hærra en leikfangafyrirtæki, sem margir þekkja og nefnist Toys 'R' Us. Síðarnefnda fyrirtækið seldi fjögur hundruð sinnum meira en netfyrirtækið og skilaði 376 milljón dollara hagnaði á árinu 1998 á sama tíma og eToys var rekið með tapi.

Þegar spurt er á hverju svona verðmat byggist er svarið að það byggist á væntingum um möguleika netfyrirtækisins í framtíðinni. Þær væntingar byggjast ekki á því, að menn hafi fast land undir fótum. Þær byggjast ekki á rökstuddum áætlunum af neinu tagi. Þær byggjast á trú. En hversu lengi er hægt að reka atvinnufyrirtæki á trú um það, sem kann að gerast í framtíðinni en enginn veit hvort nokkru sinni gerist?

Hér á Íslandi hafa orðið til á undanförnum árum fyrirtæki, sem grái markaðurinn metur á milljarða króna, þótt raunveruleg atvinnustarfsemi sé lítil, tekjur takmarkaðar og taprekstur regla en ekki undantekning.

Að því kemur að þessi fyrirtæki verða að sanna sig í raunverulegum rekstri. Hversu mörg ár hafa þau til þess? Tvö ár? Fimm ár? Tíu ár?

Þessi fyrirtæki, sem margir trúa að verði fyrirtæki framtíðarinnar, eru ekki skráð á Verðbréfaþingi Íslands. En verðmat hlutabréfamarkaðarins hér á einstökum fyrirtækjum, sem hafa með höndum umsvifamikinn rekstur, standa traustum fótum og skila hagnaði ár eftir ár vekur líka spurningar. Stendur Eimskipafélag Íslands, sem er viðmiðunin í margvíslegum umræðum um viðskiptalífið hér, undir því verðmati hlutabréfamarkaðarins, að félagið sé 40 milljarða virði? Getur félagið skilað hagnaði á næstu árum, sem réttlætir það verðmat?

Þeir, sem hafa haldið því fram á undanförnum mánuðum og misserum, að verðmat hlutabréfamarkaða bæði hér og annars staðar væri meira í ætt við loftbólu en raunveruleika hafa ekki fundið hljómgrunn fyrir sínum skoðunum. Þegar svo er komið að fyrirtækin, sem skráð eru á Nasdaq, lækka um þriðjung í verði, sem samsvarar því að hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands lækkuðu á skömmum tíma um 130 milljarða eða ef tekið er mið af lækkun Dow Jones frá því á þriðjudag að markaðurinn hér mundi lækka um tæpa 40 milljarða er ástæða til að staldra við og íhuga hvað hér er að gerast.

Hér eins og annars staðar byggist fjárfesting í hlutabréfum að töluverðu leyti á lántökum eins og aðrar fjárfestingar.

Eitt af því, sem gerðist í kreppunni miklu í Bandaríkjunum fyrir sjötíu árum, var einmitt það, að þegar hlutabréfin lækkuðu í verði gerðu bankarnir kröfu um endurgreiðslu, sem engir peningar voru til fyrir. Í kjölfar þeirrar reynslu voru settar mjög stífar reglur í Bandaríkjunum, sem hafa verið í gildi fram á þennan dag, um það hve mikið bandarískir bankar mega lána til hlutabréfakaupa, sem hlutfall af markaðsvirði bréfanna. Þessar reglur voru settar til þess að koma í veg fyrir að fjárfestar gengju of langt í spákaupmennsku.

Það er mikið umhugsunarefni á þessum litla markaði hér, hvort einstakir aðilar geti með eins konar handafli haldið uppi verði á hlutabréfum. Því er haldið fram, að það sé gert. Það er erfitt að sýna fram á það með rökum eða sanna.

En það er ekki erfitt að standa við þá staðhæfingu dálkahöfundar Business Week að fyrr eða síðar hljóti verð hlutabréfa að endurspegla möguleika fyrirtækjanna til þess að skila hagnaði í samræmi við það verðmat. Gerir íslenzki hlutabréfamarkaðurinn það?

Evrópuskýrsla utanríkisráðherra

Fyrir nokkrum dögum lagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra fram á Alþingi viðamikla skýrslu um stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu. Þetta er mikilvæg samantekt á upplýsingum, sem varða einn mikilvægasta þáttinn í utanríkismálum okkar Íslendinga nú um stundir. Það skiptir miklu í þeim umræðum, sem hér fara fram, að aðilar máls og allur almenningur hafi greiðan aðgang að slíkum upplýsingum.

Á þessum áratug hafa við og við skotið upp kollinum umræður um hugsanlega aðild okkar að Evrópusambandinu. Andstæðingar aðildar hafa með réttu bent á, að sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins útiloki aðild að óbreyttu. Talsmenn aðildar hafa haft þau rök ein fram að færa gegn því sjónarmiði, að það yrði að láta á það reyna í viðræðum, hvers konar samningum Íslendingar mundu ná um sjávarútvegsmál. Á móti hefur verið bent á, að þær undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, sem Norðmenn náðu í síðustu samningum sem þeir gerðu og síðar voru felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu þar, mundu ekki duga okkur Íslendingum. Talsmenn aðildar hafa svarað því til, að Íslendingar mundu ná betri samningum vegna þess, að sjávarútvegur væri þrátt fyrir allt jaðaratvinnugrein í Noregi en undirstöðuatvinnugrein á Íslandi.

Sá kafli í skýrslu utanríkisráðherra, sem fjallar um sjávarútvegsmál, gefur ekki tilefni til bjartsýni um, að nokkrar breytingar séu að verða á sjávarútvegsstefnu ESB, sem skipta máli fyrir okkur Íslendinga.

Í skýrslu utanríkisráðherra segir m.a.: "Sjávarútvegsstefnan var endurskoðuð 1992 og verður endurskoðuð aftur árið 2002. Fyrir árslok 2001 ber framkvæmdastjórninni að leggja fram fyrir þingið og ráðherraráðið skýrslu um stöðu sjávarútvegsins í Evrópusambandinu. Sú skýrsla skal liggja til grundvallar ákvörðunum um breytingar á sjávarútvegsstefnunni árið 2002. Endurskoðun þessi nær til allra þátta sjávarútvegsstefnunnar en sérstök áherzla verður lögð á aðgang að veiðisvæðum innan 6-12 sjómílna en heimild ríkja til að takmarka hann rennur út 31. desember 2002, verði ekkert að gert... Undirbúningur endurskoðunarinnar er þegar hafinn og hefur framkvæmdastjórnin unnið að skipulagningu á henni síðan 1998. Þá voru sendar út spurningar til 350 aðila í sjávarútveginum í ESB. Síðan hafa verið haldnir 30 fundir með hagsmunaaðilum, vísindamönnum og stjórnvöldum á ýmsum svæðum og verða fleiri slíkir fundir haldnir á næstu misserum. Framkvæmdastjórnin hefur dregið vissar ályktanir af þessum fundum og má búast við að endurskoðunin muni markast að miklu leyti af þeim."

Síðan segir um helztu niðurstöður af þessum athugunum framkvæmdastjórnarinnar:

"Eins og áður segir verður aðgangur að svæðum innan 6-12 sjómílna endurskoðaður og virðist ríkja sátt um, að aðildarríkjum verði áfram heimilt að takmarka aðganginn. Þó eru í sumum ríkjum uppi óskir um, að það svæði verði stækkað.

Spánverjar, Portúgalar, Finnar og Svíar hafa ekki aðgang að veiðisvæðunum í Norðursjónum og óska þessi ríki eftir að fá hann. Ríki, sem liggja að Norðursjónum, eru á móti því og hafa áhyggjur af aukinni sókn á svæðinu, þó að ákvörðun sé tekin um leyfilegan heildarafla af flestum tegundum í Norðursjónum og honum skipt á milli einstakra ríkja. Skip þeirra ríkja, sem ekki hafa kvóta í Norðursjó, fengju þó einungis heimild til að veiða tegundir, sem ekki eru kvótasettar... Á fundunum var því haldið fram, að þó að leyfilegur heildarafli hafi verið takmarkaður og kvóti hafi verið settur á hafi sóknin ekki minnkað. Meðal annars sé það vegna slaks eftirlits og skorts á vísindalegri ráðgjöf af nægilegum gæðum. Ekki var þó einhugur um að kasta kerfinu fyrir róða heldur rætt um að bæta það með betra eftirliti og styðja með ýmsum aðgerðum s.s. aukinni kjörhæfni veiðarfæra, draga úr útkasti og heimila sóknarstýringu. Framseljanlegir kvótar nutu ekki almenns stuðnings m.a. vegna áhyggna af samþjöppun og fækkun starfa. Helzt var að finna stuðning í Hollandi, Spáni og Danmörku.

Hlutfallslegi stöðugleikinn svokallaði virðist vera almennt viðurkenndur, í sumum tilvikum þó sem slæmur en nauðsynlegur þar sem breytingar eða afnám þess fyrirkomulags mundi valda frekari vandamálum. Þó komu fram tillögur um breytingar á hlutfallslegri skiptingu veiðiheimilda úr mörgum stofnum."

Til skýringar á því hvað við er átt með "hlutfallslegum stöðugleika", sem er grundvallaratriði í sjávarútvegsstefnu ESB(!), segir svo í skýrslunni: "Skipting leyfilegs hámarksafla milli aðildarríkja ESB er byggð á reglunni um hlutfallslegt jafnvægi eins og áður segir. Í því felst, að hlutdeild viðkomandi ríkja í einstökum stofnum, sem lúta ákvörðun um leyfilegan heildarafla, er fyrirfram ákveðin. Þessi skipting á veiðiheimildum aðildarríkja úr helztu stofnunum er einn af hornsteinum sameiginlegu fiskveiðistefnunnar."

Í skýrslu utanríkisráðherra er brugðið upp mynd af því sem gerast mundi í sjávarútvegsmálum ef Ísland yrði aðili að ESB. Þar segir m.a.: "Að öllum líkindum gætu Íslendingar haldið áfram að nota það kerfi, sem nú er við lýði, þ.e. aflamarkskerfi með framseljanlegu aflamarki og aflahlutdeild... hægt (er) að gera kröfu um það að sjávarútvegsfyrirtæki hafi raunveruleg og efnahagsleg tengsl við Ísland. Til ýmissa ráða hefur verið gripið í aðildarlöndunum, sérstaklega Bretlandi, þar sem talið er að 25-30% flotans séu í raun í eigu annarra en Breta. Í Bretlandi eru gerðar kröfur um að sýnt sé fram á efnahagsleg tengsl skipa við Bretland eða svæði þar sem eru háð sjávarútvegi, áður en þau fá veiðileyfi... Ef stefnt væri að því að tryggja raunveruleg efnahagsleg tengsl skipa, sem veiða úr íslenzkum kvótum við Ísland, er margt sem bendir til þess að gera verði verulegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Undanfarin ár hefur mestöllum afla íslenzkra skipa verið landað á Íslandi. Einungis hefur verið heimilt að landa ferskum fiski á viðurkennda markaði í ESB. Ef Ísland væri meðlimur yrði ekki hægt að takmarka landanir í öðrum höfnum í ESB í þetta miklum mæli. Það mundi einnig eiga við um fullvinnsluskip, sem hingað til hafa landað öllum sínum afla á Íslandi. Slíkt fyrirkomulag mundi að sjálfsögðu geta leitt til þess að afla yrði landað í miklum mæli erlendis, sem ekki kæmi íslenzku atvinnulífi til góða. Jafnframt má gera ráð fyrir, að erfiðara yrði að hafa eftirlit með afla þessara skipa, sem aftur leiddi til þess, að fiskifræðingar hefðu lakari gögn til að byggja á ráðgjöf um leyfilegan heildarafla."

Finnst mönnum nú ekki stórkostlega eftirsóknarvert að stökkva ofan í þennan grautarpott Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum?! Það er auðvelt að sjá fyrir sér svipinn á íslenzkum útgerðarmönnum, þegar þeir stæðu frammi fyrir því að verða allt í einu fangar þess ótrúlega skrifræðis, samningamakks og baktjaldamakks, sem leiða mundi af því fyrir íslenzkan sjávarútveg að lenda í klónum á þessu kerfi.

Skýrsla Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra sýnir, að það hafa engar þær breytingar orðið á sjávarútvegsstefnu ESB, sem réttlæta aðildarumsókn okkar Íslendinga, og hún sýnir einnig að það eru ekki fyrirsjáanlegar neinar breytingar á þeirri stefnu á næstu árum, sem mundu leiða til stefnubreytingar af okkar hálfu.

Áhrif stækkunar ESB

Í skýrslu utanríkisráðherra er fjallað um marga aðra þætti þessa máls, sem snerta hagsmuni okkar, og er í þessu sambandi ástæða til að vekja athygli á þeim áhrifum, sem stækkun ESB getur haft á markaðsstöðu okkar í sumum þeirra ríkja, sem nú sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Í skýrslunni segir m.a.: "Fyrirsjáanleg stækkun ESB til austurs mun án efa hafa þýðingu fyrir íslenzkan útflutning. Ísland hefur með öðrum EFTA-ríkjum gert fríverzlunarsamninga við ýmis ríki í austanverðri Evrópu og tryggja þessir samningar m.a. fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir. Flest þessara landa hafa sótt um aðild að ESB. Einkum gæti innganga þeirra í ESB komið niður á síldarútflutningi þangað en síld er meðal afurða, sem seldar hafa verið til þessara ríkja. Samkvæmt reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) ber ESB skylda til að ganga til viðræðna við Ísland um bættan markaðsaðgang þegar markaðsaðgangur skerðist við inngöngu nýrra aðila í ESB. Yfirleitt eru veitt tollafríðindi fyrir tiltekið magn á ári og ræðst magnið af innflutningi á tilteknu þriggja ára tímabili en hugsanlega yrði tekið tillit til vaxtarmöguleika. Þar með skerðast þeir möguleikar, sem eru fyrir hendi í þessum löndum fyrir útflutning á íslenzkum afurðum þegar efnahagur þar fer að batna."

Hér er augljóslega á ferðinni mál, sem huga þarf að samtímis því sem samningaviðræðum þessara ríkja við ESB miðar áfram. Nú má búast við að talsmenn ESB-aðildar segi að það séu nákvæmlega svona viðskiptahagsmunir, sem geri það að verkum, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að gerast aðilar að ESB og að við getum ekki búizt við því að tryggja viðskiptahagsmuni okkar til eilífðar með því að standa utan ESB. Jafnframt munu þeir halda því fram, að gerist Norðmenn aðilar að ESB verði enn erfiðara að halda ESB við EES-samninginn. Í þessu sambandi er auðvitað ljóst, að líta verður á samskipti okkar við Evrópuríkin í heild. Þegar tekin eru inn í þau samskipti sameiginlegir öryggishagsmunir og margvísleg menningarleg samskipti er ekki ástæða til að ætla annað en að við getum tryggt viðskiptahagsmuni okkar hér eftir sem hingað til.

Í skýrslu utanríkisráðherra er vikið að fjárfestingum í sjávarútvegi og þar segir m.a.:

"Íslendingar hafa skv. EES-samningnum heimild til að koma í veg fyrir að útlendingar fjárfesti í íslenzkum sjávarútvegi og eru í lögum ákvæði, sem banna útlendingum að eiga íslenzk fyrirtæki, sem stunda veiðar og frumframleiðslu á sjávarafurðum. Með slíku ákvæði er reynt að tryggja að útlendir aðilar geri ekki út skip undir íslenzkum fána á Íslandsmiðum þannig að þau komi í raun aldrei til Íslands heldur sæki þjónustu og selji allan sinn afla á erlendum mörkuðum. Þannig gætu verðmæti þess afla sem þau veiða í raun farið fram hjá íslenzku efnahagskerfi."

Morgunblaðið hefur áður lýst þeirri skoðun, sem hér skal ítrekuð, að okkur sé ekki lengur stætt á því að banna erlenda fjárfestingu í íslenzkum sjávarútvegi. Á sama tíma og íslenzk fyrirtæki fjárfesta í sjávarútvegi annarra þjóða getum við ekki búizt við að geta haldið öðrum frá því að fjárfesta í íslenzkum sjávarútvegi. Ef við reynum að gera það til lengdar endar það með því að íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum verður úthýst í öðrum löndum.