"Á mörgum sviðum stöndum við okkur ágætlega hvað varðar málefni barna en á öðrum sviðum erum við eftirbátar nágrannaþjóðanna," segir Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna.
"Á mörgum sviðum stöndum við okkur ágætlega hvað varðar málefni barna en á öðrum sviðum erum við eftirbátar nágrannaþjóðanna," segir Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umboðsmaður barna, Þórhildur Líndal, hefur gegnt starfi sínu í fimm ár og hefur hún komið mörgum þörfum málum áleiðis. Hildur Einarsdóttir ræddi við Þórhildi, sem vill að leitað verði leiða til að börn og unglingar geti komið skoðunum sínum á framfæri á skipulagðan hátt við sveitarstjórn þegar verið er að fjalla um málefni er þau varða.

Þegar Þórhildur tók við starfi sínu árið 1995 komst hún fljótlega að raun um að á Íslandi væri mikið starf óunnið í málefnum barna og ungmenna og einnig ættum við margt ólært í þeim efnum. Síðan hefur margt áunnist í þeim málum þótt enn sé víða verk að vinna.

Sem umboðsmaður barna hefur Þórhildur lagt ríka áherslu á að ná vel til umbjóðenda sinna sem eru börn og unglingar undir 18 ára aldri eða tæpur þriðjungur íslensku þjóðarinnar.

Þórhildur segir að barn eða unglingur hafi að jafnaði samband við hana vikulega. Henni berist póstur frá þeim í gegnum tölvu, þau hringi eða komi í heimsókn á skrifstofuna. Eðli málsins samkvæmt hafi börnin því algjöran forgang - fram yfir hina fullorðnu er þangað leita. Hún hefur einnig lagt áherslu á að heimsækja börnin í þeirra umhverfi og í því skyni m.a. heimsótt fjöldann allan af skólum úti á landsbyggðinni. "Ég er jú umboðsmaður allra barna, hvar sem þau eru í sveit sett, þótt ég hafi aðsetur hér í Reykjavík," segir hún.

Fyrir tveimur árum var opnuð á Netinu heimasíða umboðsmanns barna (www.barn.is). Segir hún börnin almennt mjög ánægð með þetta framtak og hafi þau í auknum mæli notfært sér tölvupóstinn til þess að koma til hennar ábendingum og fyrirspurnum.

"Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á að segja skoðun sína í öllum málum er þau varða. Þetta ákvæði felur einnig í sér skyldur yfirvalda til að hlusta og sömuleiðis virða skoðanir barna og unglinga með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Þetta er sú grein Barnasáttmálans sem þykir nokkuð byltingarkennd og mörgum fullorðnum er ekkert vel við þessa grein," útskýrir hún. "Margir halda því fram að börn hafi ekki skoðanir, sem er hin mesta firra. Það þarf auðvitað að ala börn upp við að eiga skoðanaskipti og kenna þeim að tjá sig á skilmerkilegan hátt. Þarna gegna foreldrarnir höfuðmáli. Ég tel einnig mikilvægt að efla kennslu innan skólanna í tjáningu talmáls og ritmáls."

Gagnlegar tillögur frá börnum í eineltismálum

Hvað er það sem börnin ræða helst við þig?

"Algengt er að börn veki athygli mína á því að þau séu lögð í einelti af öðrum nemendum og jafnvel einstökum starfsmönnum skóla. Vegna fjölmargra tilmæla frá umbjóðendum mínum ákvað ég fyrir tveimur árum að boða til ráðstefnu þar sem áttatíu börn ásamt fimmtíu fullorðnum einstaklingum, sem voru fulltrúar ýmissa stofnana og félaga, settust niður og ræddu þetta alvarlega vandamál í blönduðum umræðuhópum kynslóðanna.

Markmiðið með ráðstefnunni var fyrst og fremst að fá ábendingar og tillögur um hvaða leiðir væru færar til að vinna gegn einelti og hvað unnt væri að gera þegar kæmist upp um slíkt athæfi. Þar eð börn og unglingar eru í daglegri nálægð við vandamálið og þekkja það af eigin raun ákvað umboðsmaður að fela þeim stjórn umræðunnar. Börnin komu vel undirbúin til leiks. Því varð ráðstefnan mjög gagnleg en í lok hennar lágu fyrir margar góðar tillögur og ábendingar sem ég lét vinna úr og birtar voru í skýrslunni "Einelti kemur öllum við".

Það sem er svo skemmtilegt við margar tillögur frá unglingum er að þær eru oft svo einfaldar og ódýrar í útfærslu að það væri þess vegna unnt að framkvæma þær strax.

Þessi skýrsla hefur fengið gífurlega mikla útbreiðslu og vonandi hefur hún komið að einhverju gagni í baráttunni við þann vágest sem einelti er.

Að frumkvæði mínu fól menntamálaráðherra Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála að gera rannsókn á umfangi og eðli eineltis á landsvísu. Er það fyrsta rannsókn sinnar tegundar hér á landi. Mér er kunnugt um að fleira er í farvatninu hjá ráðuneytinu í eineltismálum og mun ég fylgjast vel með því sem þar gerist."

Börn eiga líka rétt á friðhelgi einkalífsins

Þau mál sem börn ræða einnig mikið við umboðsmann sinn eru erfiðleikar sem þau upplifa í tengslum við skilnað eða sambúðarslit foreldra. Segir Þórhildur að þetta sé sá flokkur erinda sem í gegnum árin hafi verið hvað umfangsmestur ásamt skólamálunum. Árið 1997 bárust 207 erindi þessa efnis til embættisins og ári síðar voru þau 280. "Með hliðsjón af þessu ákvað ég að leggja til við dómsmálaráðherra á árinu 1998 að sett yrði á fót þverfagleg sérfræðiráðgjöf sem hefði það hlutverk að aðstoða og leiðbeina börnum og foreldrum við lausn vandamála sem óneitanlega koma upp þegar til skilnaðar foreldra kemur. Á Norðurlöndum þekkist þetta fyrirkomulag og hefur það reynst mjög vel samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum.

Ég taldi einnig nauðsynlegt að upplýsingar til almennings yrðu bættar á þessu sviði og hef því hvatt dómsmálaráðuneytið til að gefa út bæklinga á auðskiljanlegu máli, svo sem um sameiginlega forsjá og um umgengnisrétt. Á vegum dómsmálaráðuneytisins er nú verið að gera tilraun með sérfræðingaráðgjöf við sýslumannsembættið í Reykjavík.

Bæklingarnir sem ég nefndi hér áðan hafa ekki enn litið dagsins ljós en eru vonandi væntanlegir.

Ég hef lagt það til við sifjalaganefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða barnalögin að inn í þau lög verði tekið sérstakt ákvæði um opinbera þverfaglega fjölskylduráðgjöf. Ég er þeirrar skoðunar að skylda eigi foreldra til að sækja fundi slíkrar ráðgjafar áður en skilnaður er veittur."

Virðingarleysi af hálfu fullorðinna er málefni sem börn tala gjarnan um að sögn Þórhildar. "Þau nefna ókurteisi ýmissa sem starfa við þjónustu, svo sem afgreiðslufólks í verslunum," segir hún. "Oft vill líka gleymast að börn eiga rétt á friðhelgi einkalífsins eins og hinir fullorðnu." Þórhildur segir frá skólaferðalagi þar sem farið var í farangur krakkanna til að leita að sælgæti sem var bannað að hafa með í för. "Það er sjálfsagt að skoða farangur ef talið er að þar sé eitthvað ólöglegt, en það má ekki gleymast að börn eiga sitt einkalíf eins og fullorðnir, og það ber að virða."

Nauðsyn á samræmdri slysaskrá

Það eru ekki aðeins börn sem hafa samband við umboðsmann barna heldur einnig fullorðnir sem koma til umboðsmanns með munnleg eða skrifleg erindi. Umboðsmaður barna ákveður sjálfur hvaða mál eru tekin til meðferðar samkvæmt rökstuddum ábendingum eða að eigin frumkvæði. Umboðsmaður fær

líka beiðnir um að gefa umsagnir um lagafrumvörp og reglugerðir frá Alþingi og stjórnvöldum, auk þess sem hann kemur með tillögur um breytingar á lögum, stjórnvaldsaðgerðum eða stjórnsýsluháttum, að eigin frumkvæði.

"Eitt af mínum hjartans málum er öryggi barna almennt," segir Þórhildur. "Strax á árinu 1995 spurðist ég fyrir um heildartölur slysa á börnum og unglingum en komst þá að raun um að þær voru ekki til. Ég hvatti því slysavarnaráð til að beita sér fyrir gerð samræmdrar skráningar yfir barna- og unglingaslys sem næði til landsins alls. Ef við höfum ekki þessa vitneskju haldbæra getum við tæplega byggt upp markvissar forvarnir í þágu barna en slysatíðni hér á landi er því miður allt of há. Þar eð mér fannst helst til mikill hægagangur í þessum málum og svör bárust treglega, gerði ég í samstarfi við Félag íslenskra barnalækna og barnaslysavarnarfulltrúa Slysavarnarfélags Íslands tillögu um að hrundið yrði af stað af hálfu heilbrigðisráðuneytisins tilraunaverkefninu "Eflum forvarnir - fækkum slysum á börnum." Nú hefur það ánægjulega gerst að sett hefur verið af stað þriggja ára tilraunaverkefni sem byggir í grundvallaratriðum á framangreindum tillögum."

Heggur sá er hlífa skyldi

Frá upphafi starfs síns hefur Þórhildur beitt sér gegn hvers kyns ofbeldi gagnvart börnum og unglingum. Á árinu 1997 var mikil umræða í þjóðfélaginu um kynferðislegt ofbeldi á börnum, sem mátti meðal annars rekja til alþjóðlegrar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynferðislega misnotkun barna, sem haldin var í Stokkhólmi og vakti heimsathygli. Segir Þórhildur að meðal þess sem kom fram í umræðunni hér á landi hafi verið hvort staða barna sem fórnarlamba í kynferðisbrotamálum væri nægilega tryggð í réttarkerfinu. Í því sambandi var meðal annars bent á að ekki væru til samræmdar reglur á landsvísu um starfsaðferðir lögreglu við rannsókn þessara mála. "Ég ákvað þá sem umboðsmaður barna að taka til sérstakrar meðferðar, að eigin frumkvæði, kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum frá lögfræðilegu sjónarmiði. Gaf embættið út skýrslu um þetta mál sem ég kallaði "Heggur sá er hlífa skyldi".

Í kjölfar þessarar skýrslu lagði ég til ýmsar lagabreytingar til að bæta réttarstöðu barna sem fórnarlamba kynferðisbrota. Flestar þessara tillagna eru þegar orðnar að lögum. Má þar nefna að nú eiga fórnarlömb kynferðisafbrota rétt á aðstoð réttargæslumanns þeim að kostnaðarlausu strax á rannsóknarstigi.

Þá lagði ég til að dómari sem dæmir í málinu yfirheyrði barn strax á rannsóknarstigi í stað lögreglu. Þannig ætti að vera unnt að forðast að barn þurfi að gefa skýrslu oftar en einu sinni í málinu.

Ég lagði líka til að þessi alvarlegu brot fyrntust aldrei, en Alþingi gekk ekki svo langt heldur var samþykkt að fyrning þessara brota hæfist við fjórtán ára aldur brotaþola.

Ofbeldisefni í sjónvarpi á þeim tíma sem börn sitja við skjáinn

Fljótlega eftir að ég hóf störf var athygli mín vakin á auglýsingum kvikmyndahúsa og myndbandaleiga í sjónvarpi, á kvikmyndum og myndböndum bönnuðum börnum. Ábendingarnar miðuðust einkum við þær auglýsingar sem birtust rétt fyrir aðalfréttatíma sjónvarpsstöðvanna á kvöldin, þegar börn allt niður í leikskólaaldur eru enn við sjónvarpsskjáinn. Ég beindi á sínum tíma þeim tilmælum til Samkeppnisstofnunar að sett yrði bann á þessar auglýsingar. Ég réði jafnframt sérfræðing til að athuga í hve miklum mæli þessar auglýsingar væru og kom í ljós að á hálfsmánaðar tímabili birtust 96 auglýsingar sem höfðu að geyma ofbeldisefni og sýndar voru fyrir klukkan tíu á sjónvarpsstöðvunum.

Skömmu seinna samþykkti útvarpsráð að auglýsingar sem þessar skyldu ekki sýndar í Ríkissjónvarpinu fyrir klukkan níu á kvöldin. Eitthvað virðist þó hafa slaknað á þessum kröfum upp á síðkastið.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til nýrra útvarpslaga og í umsögn minni til Alþingis hef ég bent á að taka þurfi upp ákvæði sem byggir á ESB-tilskipun og við höfum skuldbundið okkur til að fylgja.

Ákvæðið fjallar í stuttu máli um niðurröðun dagskrárefnis á sjónvarpsstöðvum með hliðsjón af því hvaða aldurshópar eru við skjáinn á hverjum tíma.

Að undanförnu hafa margar ábendingar borist hvað varðar klámbylgjuna sem hér hefur gengið yfir. Í þessum efnum þurfa sjónvarpsstöðvarnar að sýna meiri ábyrgð. Það gengur ekki að setja efni sem þetta á dagskrá þegar búast má við að ung börn séu að horfa. Verði fyrrnefnd tillaga að veruleika tel ég að skyldur sjónvarpsstöðvanna verði alveg skýrar hvað þetta varðar."

Heildarstefna í málefnum geðsjúkra barna

Það kemur fram í máli umboðsmanns að málefni geðsjúkra barna hafa verið henni ofarlega í huga. "Í lögum um heilbrigðisþjónustu er ekkert að finna um hlutverk og starfshætti barna- og unglingageðdeildar, sem vakti furðu mína á sínum tíma," segir hún. "Við nánari skoðun mína á málefnum þessara barna taldi ég ljóst að móta þyrfti opinbera heildarstefnu í málefnum þeirra. Ég beindi því á sínum tíma þeirri fyrirspurn til heilbrigðisráðherra hvort slíkt stæði til. Í fyrstunni var því svarað neitandi en nú nokkrum árum síðar hefur heildarstefnan litið dagsins ljós. Þó þarf að gera betur því eftir því sem ég best veit liggur ekki enn fyrir áætlun um hvernig skuli framkvæma þessa langtímastefnu og það er brýn þörf á slíku."

Um þessar mundir er haldið upp á tíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þórhildur er spurð að því hvers virði Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé.

"Barnasáttmálinn er merkilegt plagg. Þetta er alþjóðasáttmáli sem hefur verið undirritaður af eitt hundrað níutíu og einu aðildarríki, fleiri ríkjum en þekkist með aðra alþjóðlega mannréttindasáttmála. Þessi sáttmáli byggir á því grundvallarsjónarmiði að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með sín eigin réttindi, óháð vilja fullorðinna.

Þegar ég hef heimsótt umbjóðendur mína úti á landsbyggðinni hef ég notað tækifærið til að kalla til fundar sveitarstjórnarmenn og fulltrúa í hinum ýmsu nefndum sem koma að málefnum barna og kynnt þeim efni Barnasáttmálans og skyldur sveitarstjórna samkvæmt honum. Ég tel að það þurfi að gera bragarbót á þekkingu sveitarstjórnarmanna, sem og ýmissa annarra sem vinna að málefnum barna, á Barnasáttmálanum. Það er stórt og viðamikið verkefni."

Börnin spurð álits á þeim málefnum er þau varða

Hvernig lýsir þessi vanþekking sér?

"Eins og ég hef áður nefnt er 12. gr. sáttmálans ein af grundvallarreglum hans. Mér er til dæmis ekki kunnugt um að nokkurt sveitarfélag fylgi því kerfisbundið sem þar stendur. Ég hef oftar en einu sinni skorað á sveitarfélög að leita einhverra leiða til að börn og unglingar geti komið skoðunum sínum á framfæri á skipulagðan hátt við sveitarstjórn þegar verið er að fjalla um málefni þeirra á þeim vettvangi. Þótt þessi hópur hafi ekki kosningarétt þá á hann eigi að síður rétt til að koma skoðunum sínum á framfæri við ráðamenn sveitarfélagsins á einhvern hátt og það ber að hlusta á skoðanir hans.

Ég tel að það sé hægt að fara ýmsar leiðir í þessu efni. Það mætti til dæmis efla nemendaráðin og gera þau betur í stakk búin sem málsvara barna, ekki bara innan skólanna heldur einnig innan sveitarfélaganna. Einnig mætti hugsa sér að setja á stofn unglingaráð sveitarfélagsins eða sveitarstjórna sem unnt væri að leita til í hvert sinn sem málefni barna og unglinga er á dagskrá. Því í 3. grein Barnasáttmálans segir að þegar verið sé að taka ákvarðanir í málefnum sem varða börn eigi fyrst og fremst að hugsa um hvað börnunum er fyrir bestu. Hvernig getum við vitað hvað börnunum er fyrir bestu ef þau eru ekki spurð álits á þeim málum sem þau varða? Af hverju ekki að fá sjónarmið þeirra þegar verið er að skipuleggja íþrótta- eða útivistarsvæði sem ætluð eru þeirra aldurshópum eða þegar fjallað er um forvarnir í þágu þeirra, svo dæmi séu tekin?

Ég hef viðað að mér þónokkrum fróðleik um þetta efni frá Norðurlöndunum en þessar nágrannaþjóðir okkar eru komnar mun lengra á þessu sviði en við."

Barnasáttmáli SÞ alltof lítið kynntur

Þórhildur er spurð að því hvernig kynningu á Barnasáttmálanum sé háttað?

"Að mínum dómi er kynning á honum engan vegin fullnægjandi og heldur ekki nógu markviss. Það hef ég upplifað í starfi mínu.

Í tilefni af því að Barnasáttmálinn er tíu ára um þessar mundir hef ég látið útbúa upplýsingamöppu tileinkaða þessum sáttmála og sent hana til allra tíu ára barna á landinu. Ég er að gera mér vonir um að þessi afmælismappa Barnasáttmálans kveiki umræður meðal barna, foreldra þeirra og kennara um efni hans. Samhliða útgáfu möppunnar var ýtt úr vör smásagnakeppni og sögurnar eiga að fjalla um Barnasáttmálann á einn eða annan hátt. Smásagnakeppnin er í samvinnu við Ríkisútvarpið."

Það er óhætt að segja að umboðsmanni barna sé fátt óviðkomandi og málin sem hún fær ábendingar um eru afar fjölbreytileg. "Stór hópur minna umbjóðenda er í grunnskólum og málefni skólans eru iðulega á mínu borði," segir hún. "Ég hef að undanförnu verið að kynna mér mál sem varða sérkennslu en talsverðrar óánægju gætir með fyrirkomulag hennar," segir Þórhildur. "Þetta á jafnt við um sérkennslu sem ætluð er fötluðum börnum og sérkennslu barna sem eiga við námsörðugleika af ýmsum toga að stríða.

Ég hef einnig viljað bæta aðbúnað og öryggi barna í skólum og í því skyni hef ég varpað fram þeirri hugmynd að skólinn verði viðurkenndur af löggjafanum sem vinnustaður nemenda. Löggjafinn viðurkennir skólann sem vinnustað starfsmanna skólans en ekki barnanna sem verja þar drjúgum hluta ævi sinnar. Börn eiga rétt á að þeim líði vel í skólanum og allar aðstæður séu þar í sem bestu samræmi við þarfir þeirra hverju sinni.

Aðlaga þarf skólann breyttu samfélagi

Ég tel að skólakerfið sé að mörgu leyti ekki í takt við nútímann. Við þurfum að viðurkenna þá staðreynd að þjóðfélagið hefur breyst mikið á síðustu áratugum, foreldrar eru í flestum tilvikum báðir úti á vinnumarkaðnum. Það eru hins vegar ekki margir foreldrar sem eiga kost á þriggja mánaða sumarleyfi og hvað verður þá um öll börnin sem ljúka skólanum í maí og hefja skólanámið aftur í september? Ég tel að kominn sé tími til að breyta skólakerfinu og aðlaga það nútímasamfélagi."

Þórhildur segir að sér hafi borist fjölmargar ábendingar er varði skipulag og framtíð skólaakstur grunnskólabarna. "Eftir að grunnskólinn fluttist alfarið til sveitarfélaganna árið 1996 var skólaaksturinn endurskipulagður og við það fjölgaði ábendingum frá íbúum hinna ýmsu sveitarfélaga. Í umræddum ábendingum er því haldið fram að eftirlit með ástandi og öryggisbúnaði skólabíla sé víða ábótavant, bílarnir séu margir hverjir komnir til ára sinna og séu oft bæði óþægilegir og kaldir. Í mörgum skólabílum séu börnin ekki í bílbeltum enda ekki lögskylt í eldri hópbifreiðum. Jafnvel komi fyrir að börnin séu of mörg í bílnum og gæslumann vanti í bílana. Þá hefur verið gagnrýnt að akstur með yngstu börnin sé oft á tíðum óhóflega langur miðað við aldur þeirra. Ég tel að börn á Íslandi eigi að búa við eins jöfn og góð skilyrði og framast er unnt," segir Þórhildur. "Ég hef því lagt til við Samband íslenskra sveitarfélaga að samdar verði lágmarksreglur fyrir skólaakstur á vegum sveitarfélaga. Sambandið hefur lýst yfir andstöðu sinni við þessa tillögu mína og vísar til sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga. Ég tel þetta hins vegar mikið hagsmunamál þessara umbjóðenda minna og að samræmdar lágmarksreglur um öryggi þeirra í skólaakstri verði að vera til staðar.

Það er á fleiri sviðum sem ég hef óskað eftir að útbúnar verði lágmarksreglur fyrir sveitarfélögin. Ég hef meðal annars lagt til að settar verði reglur um hlutverk og starfsemi vinnuskóla sveitarfélaga og sömuleiðis um sumarnámskeið fyrir börn á vegum þeirra.

Sýni sakavottorð þegar ráðið er til starfa í þágu barna

Ég hef þar á meðal lagt til að setja þurfi reglur um hæfni leiðbeinenda og velt því upp hvort ekki eigi að gera kröfur um að umsækjendur um þessi störf leggi fram sakavottorð sem sýni að þeir hafi ekki gerst brotlegir gegn börnum. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að allir þeir sem vinna með börnum ættu að leggja fram sakavottorð þegar sótt er um slík störf.

Í Noregi hefur verið mikil umræða um hvort ekki eigi að gera þessa kröfu til leikskóla- og grunnskólakennara og annarra sem vinna með börnum. Ég tel eðlilegt að hér á landi verði þetta einnig tekið til umræðu."

Fyrir um það bil tveimur árum sendi umboðsmaður barna frá sér álitsgerð um málefni ungra afbrotamanna. Í álitsgerðinni, sem beint er til dómsmálaráðherra, komst umboðsmaður meðal annars að þeirri niðurstöðu að beita beri öllum tiltækum úrræðum til þess að koma í veg fyrir að ungmenni yngri en 18 ára séu vistuð í fangelsum og lagði jafnframt til að rýmkuð yrði heimild til þess að láta samfélagsþjónustu koma í stað refsivistar þegar ungmenni eiga í hlut. Þá taldi umboðsmaður afar brýnt að komið yrði á fót sem fyrst stofnun hér á landi sem ætlað væri það sérstaka hlutverk að annast meðferð og endurhæfingu ungra afbrotamanna. Þessa álitsgerð er að finna í skýrslu umboðsmanns barna um störf á árinu 1998 en samkvæmt lögum um umboðsmann barna ber honum að skila forsætisráðherra árlega skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári. Skýrslur þessar ásamt öðru útgefnu efni er unnt að fá á skrifstofu umboðsmanns barna.

"Þessi mál hafa komið til umræðu á Alþingi á síðustu vikum og ég hef fylgst með þeirri umræðu. Ég gleðst yfir jákvæðum viðbrögðum dómsmálaráðherra og vilja til að gera betur í þessum efnum," segir Þórhildur.

Lögbók barnanna

Umboðsmaður barna hefur í gegnum tíðina gengist fyrir ýmiss konar útgáfustarfsemi. Þar á meðal er bók sem heitir Mannabörn eru merkileg. Í bókinni er leitast við að draga upp heildstæða mynd af uppvaxtarskilyrðum, aðbúnaði og aðstæðum þeirra tæplegu 80 þúsund einstaklinga sem ekki hafa náð 18 ára aldri og teljast börn lögum samkvæmt. "Markmiðið með bókinni er að bregða ljósi á þá fjölmörgu þætti er einkenna börn og unglinga sem sérstakan hóp í íslensku samfélagi," segir Þórhildur. "Þessi bók er til sölu í bókaverslunum en ég vonast þó til að efni hennar komist á Netið fyrr en seinna og verði þannig aðgengilegt sem flestum sem hafa áhuga á málefnum barna og unglinga."

"Ég hef einnig látið safna saman helstu gildandi íslenskum lagaákvæðum sem varða börn og unglinga eins og þau birtast í íslenskum lögum," heldur Þórhildur áfram. "Til þess að hafa þetta sem best úr garði gert fékk ég til liðs við mig barnabókahöfund til að umorða lagatextann þannig að börn og unglingar ættu auðveldara með að tileinka sér hann. Ég kalla þessa samantekt Lögbók barnanna og sé hana fyrir mér í vasabókarbroti. Vegna ónógs fjármagns undanfarin ár hefur ekki reynst unnt að gefa lögbókina út enn sem komið er."

Á málþingum embættisins á undanförnum árum hafa margir ungir ræðumenn stigið á stokk, sumir í fyrsta sinn, og rætt ýmis hagsmunamál barna og unglinga sem þeir töldu brýnt að taka til opinberrar umfjöllunar. Af hálfu umboðsmanns barna hefur erindunum verið safnað saman og þau gefin út undir heitinu "Ungir hafa orðið".

Vantar heildarstefnu í málefnum barna og unglinga

Hvernig stöndum við okkur í samanburði við nágrannalöndin í málefnum barna?

"Á mörgum sviðum stöndum við okkur bara ágætlega, en á öðrum erum við nokkrir eftirbátar. Enn vantar hér á landi opinbera heildarstefnu í málefnum barna og ungmenna. Ég hef ítrekað hvatt til þess að ráðist verði í þetta brýna verk. Í kjölfar stefnumótunar yrði síðan að koma áætlun af hálfu stjórnvalda til nokkurra ára um hvernig eigi að framkvæma stefnuna. Nú er komin fram tillaga á Alþingi þessa efnis sem allir þingflokkar standa að og er það afar ánægjulegt. Ég vona svo sannarlega að hún fái brautargengi á þinginu; stórt skref væri stigið með samþykkt þeirrar tillögu."

Hver eru tengsl umboðsmanns barna við erlenda aðila sem starfa á svipuðum grunni?

"Ég hef lagt áherslu á að sækja árlega fundi umboðsmanna barna á Norðurlöndunum. Þetta eru afar mikilvægir fundir fyrir mig en á þessum fundum berum við saman bækur okkar og leggjum á ráðin, enda eigum við af augljósum ástæðum ýmis sameiginleg baráttumál. Ég sæki líka fundi Evrópusamtaka umboðsmanna barna sem voru stofnuð fyrir þremur árum. Um þessar mundir eru starfandi ellefu umboðsmenn barna í Evrópu en við eigum það sameiginlegt að vera opinberir embættismenn, sjálfstæðir í störfum okkar og óháðir fyrirmælum frá opinberum sem einkaaðilum. Öll störfum við á grundvelli sérstakrar löggjafar sem þjóðþing okkar hafa sett. Hlutverk okkar er fyrst og fremst að stuðla að bættum hag barna yngri en 18 ára og standa vörð um réttindi þeirra, hagsmuni og þarfir.

Talsvert hefur verið leitað til embættis míns um að ég komi sem fyrirlesari til ýmissa landa sem hafa í hyggju að setja á stofn embætti umboðsmanns barna og kynni þeim reynslu mína sem brautryðjanda í þessu embætti hér á landi. Ég hef því miður ekki getað orðið við þessum beiðnum þar eð fjárhagur og miklar starfsannir hafa ekki leyft slíkt hingað til.

Til embættisins leitar einnig fjöldi ungs fólks í upplýsingaleit, ekki síst nemendur á öllum stigum skólakerfisins sem eru að skrifa ritgerðir um embætti umboðsmanns barna, hlutverk og starfsemi þess, en einnig um mannréttindi barna."

Börnin þurfa talsmann í kerfinu

Þórhildur segist telja að það hafi sannað sig á þessum fimm árum að þörfin fyrir umboðsmann barna sé mikil. "Börn eru minni máttar, þau eru ekki þrýstihópur í stjórnmálalegu tilliti. Umboðsmaður barna er þeirra opinberi málsvari á öllum sviðum samfélagsins en rétt er að leggja áherslu á að umboðsmanni er ætlað að standa vörð um réttindi, hagsmuni og þarfir barna almennt og stuðla um leið að bættum hag þeirra. Umboðsmanni er ekki ætlað að taka að sér mál einstakra barna eða leysa einstaklingsbundnar deilur - það hefur löggjafinn ætlað öðrum.

Ég hef notið þeirra forréttinda að fá að móta þetta starf og byggja það upp ásamt starfsfólki mínu. Við vinnum hér samstillt og lögð er rík áhersla á að embættið sé trúverðugt og traustsins vert. Hér er vandað til verka og þau fyrst og fremst látin tala."

Hvaða eiginleika þarf umboðsmaður barna að hafa til að gegna þessu starfi?

"Hann þarf að hafa talsverða þolinmæði og um leið þrautseigju. Hann þarf að vera tilbúinn að sækja á brattann og berjast á málefnalegan hátt fyrir málstað hinna ungu umbjóðenda sinna.

Mér hefur fundist starf umboðsmanns barna mjög skemmtilegt viðfangsefni en jafnframt gífurlega krefjandi.

Ég tel mig merkja að hér á landi hafi á undanförnum árum orðið nokkur hugarfarsbreyting til málefna sem tengjast börnum. Við eigum þó enn langt í land með að viðurkenna börn sem sjálfstæða einstaklinga með sín eigin réttindi, sem okkur ber að sýna virðingu. Það að hlúa vel að æsku landsins er fjárfesting til framtíðar, það er ekki nokkur vafi. Til að sú fjárfesting skili þeim arði sem vænst er verður forgangur mála innan þjóðfélagsins að breytast. Viðhorf okkar þurfa að breytast á þann veg að sýna í verki hvers virði börnin eru okkur í raun og sannleik."