Eftir Jóhann Sigurjónsson í leikstjórn Flosa Ólafssonar. Aðalhlutverk: Guðmundur Ingi Þorvaldsson.

EKKI er Borgfirðingum fisjað saman, var það fyrsta sem hvarflaði að mér eftir sýningu á Galdra-Lofti í fyrrakvöld. Ekki er langt um liðið síðan undirritaður sá afbragðsgóða sýningu á Íslandsklukkunni í Brautartungu í Lundarreykjadal. Nú bæta nærsveitungar um betur og taka Loft til kostanna. Uppsveitir Borgarfjarðar eru vettvangur íslenskrar leikhúsklassíkur í vetur. Svo hefur auðvitað líka mátt fara í Þjóðleikhúsið til að sjá Kamban og Davíð. En Laxness og Jóhann eru á fjölum Borgfirðinga.

Það gæðir sýningu þeirra Reykhyltinga verulega aukinni vigt að þar er í aðalhlutverki skólaður leikari, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, sem reyndar er borinn og barnfæddur í Brekkukoti í Reykholtsdal og ólst að sögn upp á sviðinu í Logalandi þar sem faðir hans Þorvaldur hefur verið ein aðalsprauta leikdeildarinnar um árabil. Þorvaldur leikur ráðsmanninn, föður Lofts, í þessari uppfærslu og gæðir það sýninguna skemmtilegum blæ, ekki síst því atriði þeirra þar sem ráðsmaðurinn lýsir óskum sínum og metnaði syninum til handa.

Guðmundur Ingi er sannfærandi Loftur, hann sýnir okkur hvikulan hug og leitandi sál sem rekin er áfram af ótta í bland við fróðleiksfýsn. Styrkur persónusköpunar Jóhanns felst í því að flétta saman tilfinningaflækjum Lofts gagnvart Steinunni og Dísu við hina sjúku löngun hans til að komast til botns í leyndardómum myrkursins. Loftur verður í meðförum Guðmundar Inga ábyrgðarlaus strákur sem duflar við Steinunni með skelfilegum afleiðingum og ímyndunarafl hans tekur síðan af honum ráðin þegar atburðarásin verður honum ofviða.

Þessu kemur Guðmundur Ingi til skila á sannfærandi hátt með skýrri persónusköpun, góðri raddbeitingu og eðlilegri textameðferð. Grimmd og ofsi Lofts var sú hlið sem síst kom fram hjá Guðmundi og í lokaatriðinu skorti nokkuð á að sýningin næði tilætluðum hápunkti en þar var kannski ekki síður við leikstjórann að sakast en leikarann.

Aðrir leikendur standa sig að vonum og mæðir þar mest á Írisi Ármannsdóttur í hlutverki Steinunnar og Lindu Pálsdóttur í hlutverki Dísu. Hlutverk Steinunnar gerir miklar kröfur til leikkonunnar. Íris átti að vonum í nokkrum erfiðleikum með að nálgast þá tilfinningalegu dýpt sem hlutverkið útheimtir en henni tókst að ná landi með einlægni og látleysi í túlkun. Linda Pálsdóttir sýndi okkur saklausa og lífsglaða stúlku sem skyndilega stendur andspænis alvöru lífsins.

Styrkur þessarrar sýningar felst ekki hvað síst í þeirri einlægni sem einkennir leikinn. Sitthvað má finna að framsögn og framgöngu einstakra leikenda, en það er smávægilegt miðað við þau heildaráhrif sem sýningin skilur eftir.

Lokaatriði leikritsins hefur verið sviðsett með ýmsum hætti. Hér er farið eins konar bil beggja, þar sem raddir biskupanna heyrast en Gottskálk grimmi birtist með Rauðskinnu. Nútíminn er kröfuharðari á galdur leikhússins en var í byrjun 20. aldar og alltaf spurning hversu langt á að ganga í raunsæinu. Hér þótti mér endirinn ekki ná því risi sem til er ætlast þó ekki verði lagt til hvernig fremur hefði átt að standa að verki.

Leikstjórinn hefur að öðru leyti náð góðum árangri með fólki sínu og sett upp skýra og glögga sýningu í hefðbundnum stíl, bæði hvað varðar útlit og leikstíl. Hér hafa greinilega margir lagt hönd á plóg og uppskorið í samræmi við erfiði sitt.

Hávar Sigurjónsson