27. apríl 2000 | Íþróttir | 370 orð | 1 mynd

MAGNÚS Agnar Magnússon , sem lék...

MAGNÚS Agnar Magnússon , sem lék með KA í vetur, hefur gert tveggja ára samning við Gróttu/ KR , sem varð sigurvegari í 2. deild karla í handknattleik.
MAGNÚS Agnar Magnússon, sem lék með KA í vetur, hefur gert tveggja ára samning við Gróttu/KR, sem varð sigurvegari í 2. deild karla í handknattleik. Áður höfðu þeir Hilmar Þórlindsson, sem lék með Stjörnunni, og Valsmaðurinn Davíð Ólafsson skrifað undir tveggja ára samning við liðið.

GABRIEL Batistuta, argentínski framherjinn hjá Fiorentina, gæti verið á förum til Inter eftir tímabilið, að sögn ítalska íþróttablaðsins Gazzetta dello Sport. Forráðamenn Inter vilja fá Batistuta til að fylla skarð Ronaldos en hann er illa meiddur og verður frá næstu átta mánuði. Batistuta er 31 árs og hefur leikið með Fiorentina í níu ár.

LEE BOWYER miðjumaðurinn sterki hjá liði Leeds var í gær úrskurðaður í eins leiks bann en kappinn hefur nælt sér í 14 gul spjöld á leiktíðinni, meira en nokkur annar leikmaður í deildinni. Á síðustu leiktíð fékk Bowyer að líta gula spjaldið 11 sinnum og slapp þá með sekt.

THOMAS Stangassinger fyrrum ólympíumeistari hefur ákveðið að leggja skíðin á hilluna og binda enda á farsælan 15 ára feril. Þessi 34 ára gamli Austurríkismaður hefur verið í fremstu röð í svigi undanfarin ár og tíu sinnum hefur hann fagnað sigri á heimsbikarmótum í greininni. Hann varð ólympíumeistari í svigi í Lillehammer árið 1994 og vann heimsbikarinn árið 1999.

TOTTENHAM vill kaupa norska framherjann Ole Gunnar Solskjær frá Manchester United en líkur benda sterklega til að United ætli að selja Norðmanninn í kjölfar kaupanna á Hollendingnum Ruud Van Nistelrooy. Forráðamenn United hafa fengið tilboð í hendurnar frá Tottenham sem þeim finnst of lágt og má fastlega búast við að forráðamenn Lundúnaliðsins bjóði betur.

SVÍAR urðu Evrópumeistarar í liðakeppni karla í borðtennis, þegar þeir báru sigurorð af Þjóðverjum, í úrslitaleik, 4:1. Jan-Ove Waldner og Jörgen Persson fóru á kostum í liði Svía og unnu alla sína leiki en Svíar voru að vinna Evrópumeistaratitilinn í 13. sinn sem er met. Fyrr á þessu ári hömpuðu Svíar heimsmeistaratitlinum þegar þeir lögðu Kínverja í úrslitum. Pólverjar höfnuðu í 3. sæti eftir 4:3 sigur á Dönum.

DOC Rivers þjálfari Orlando Magic hefur verið útnefndur þjálfari ársins í NBA-deildinni í körfuknattleik. Þeir voru ekki margir sem reiknuðu með að Orlando ynni marga leiki enda þjálfarinn reynslulaus og liðið án stjörnuleikmanna. En Orlando var með 50% vinningshlutfall í deildarkeppninni; vann 41 leik og tapaði jafnmörgum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.