27. apríl 2000 | Minningargreinar | 5754 orð | 1 mynd

NÍNA BJÖRK ÁRNADÓTTIR

Nína Björk Árnadóttir fæddist á Þóreyjarnúpi, Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu 7. júní 1941. Foreldrar hennar voru hjónin Lára Hólmfreðsdóttir og Árni Sigurjónsson þar búandi. Þrettán mánaða gömul fór Nína í fóstur til ömmusystur sinnar Ragnheiðar Ólafsdóttur og manns hennar Gísla Sæmundssonar að Garðsstöðum við Ögur í Djúpi. Ólst hún upp hjá þeim og fluttust þau til Reykjavíkur árið 1946 og voru búsett í Reykjavík síðan.

Nína Björk var gagnfræðingur frá Núpi í Dýrafirði og lauk síðar námi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og stundaði um nokkurra missera skeið nám við leiklistarfræðadeild Kaupmannahafnarháskóla. Hún var skáld og húsfreyja í Reykjavík, á Eyrarbakka og í Kaupmannahöfn. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók, Ung ljóð, árið 1965 og síðan margar ljóðabækur, skáldsögur, smásögur, leikrit og ævisögu Alfreðs Flóka. Ljóð hennar voru þýdd á fjölmörg erlend tungumál og leikrit hennar sýnd í öllum hefðbundnu leikhúsunum hérlendis og í sjónvörpum á Norðurlöndum. Hún fékk fjölmargar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, m.a. úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarps og var borgarlistamaður Reykjavíkur árið 1989.

Nína Björk giftist 1. sept. 1966 Braga Kristjónssyni bókakaupmanni og eru synir þeirra: Ari Gísli Bragason, kv. Sigríði Hjaltested, þeirra dóttir Ragnheiður Björk; Valgarður og Ragnar Ísleifur.

Sálumessa verður í Landakotskirkju kl. 13.30 fimmtudaginn 27. apríl.

Þrjár skáldkonur í hvítum brjóstahöldum sitja í kringum lágt hringborð. Með bók við hönd. Maður klæddur sjóræningjapeysu kemur inn um dyrnar úr snjóroki og sest við borð kvennanna. Klæðir sig úr peysunni. Þegar hann snertir eina þeirra eru þær allar dánar. Og lifna ekki við. Þó þær bíði eftir kossum hans. Þá stendur hann upp, tekur hina snertu í fang sitt og heldur á henni út. Gegnumtrekkurinn þegar dyrnar opnast og lokast flettir síðum bókanna þriggja.

Takk Nína fyrir liðnar stundir. Takk fyrir að taka mér og syni mínum Halldóri opnum örmum í fjölskylduna. Takk fyrir að gleðjast með okkur þegar við Ari hófum búskap og giftum okkur síðar á Þingvöllum. Takk fyrir að taka þátt í fæðingu Ragnheiðar Bjarkar, sólargeisla þíns. Þú stóðst vaktina með okkur alla nóttina á fæðingardeildinni og varst á bæn. Takk fyrir allar góðar stundir í blíðu og stríðu. Takk fyrir þá ást sem þú gafst okkur öllum Nína mín.

Guð blessi þig og geymi.

Sigríður Hjaltested.

"Er of snemmt að klippa rósirnar?" Ég heyri enn fallegu röddina hennar Nínu. Það er bjartur en kaldur vordagur fyrir um það bil tíu árum og við Nína erum úti í garðinum hennar við Sólvallagötu að huga að gróðri. Við komum okkur saman um að það væri of snemmt að klippa rósirnar, vorið væri ekki almennilega komið. Þess í stað fórum við á kaffihús niðri í bæ og ímynduðum okkur að við værum flandrarar í stórborg, eins og þær Amalie Skram og Victoria Benedictsson hundrað árum fyrr í París. Löngu áður höfðum við flandrað um Kaupmannahöfn þar sem Nína þekkti hvern krók og kima, þrætt antikverslanir á Frederiksberg, mátað gömul föt og klætt okkur út. Í einni slíkri verslun fann Nína svarta háhælaða skó sem hún lét mig kaupa og eru spariskórnir mínir enn þann dag í dag. Við vorum á leið á norrænt kvennabókmenntasemínar sem haldið var í smábænum Skælskør á Sjálandi. Þarna voru margar frægustu skáldkonur Norðurlanda samankomnar, auk nokkurra bókmenntafræðinga sem fengu að fljóta með. Semínarið í Skælskør varð bæði skemmtilegt og sögulegt, og okkur Nínu endalaus uppspretta hláturs og ánægjulegra endurminninga. Sömu dagana hélt úthlutunarnefnd Norrænu bókmenntaverðlaunanna fund sinn í Reykjavík, og á síðasta degi semínarsins var tilkynnt hvaða karlskáld hefði fengið þau í þetta sinn. Þegar þetta var höfðu aðeins karlar fengið þessi verðlaun. Þessu mótmæltum við konur á semínarinu í Skælskør og sendum skeyti þess efnis til bæði fjölmiðla og fundarins í Reykjavík, þar sem ennfremur var tilkynnt að í Skælskør hefði þegar verið stofnað til Norrænna kvennabókmenntaverðlauna og þau veitt í fyrsta sinn finnska rithöfundinum Märta Tikkanen fyrir Ástarsögu aldarinnar. Þetta átti eftir að draga dilk á eftir sér í umræðum um íslenska ljóðagerð, en um þessar mundir var í undirbúningi ljóðlistarhátíð þar sem láðst hafði að bjóða konum þátttöku. Í háðungarskyni kölluðum við Nína þessa hátíð ævinlega ljótlistarhátíðina með t-i.

Við Nína kynntumst í gegnum skáldskapinn. Ég bað hana að skrifa fyrir mig sögu í safn smásagna um og eftir íslenskar konur sem ég var að taka saman.

Hún bjó þá við Laufásveginn, með fallegt útsýni yfir Hljómskálagarðinn og var með yngsta son sinn í vöggu. Söguna nefndi hún "Síðan hef ég verið hérna hjá ykkur" og er hún mjög nýstárleg í íslenskum bókmenntum. Hún er sögð frá sjónarhorni ungrar konu í sálarháska, er eins konar mónódrama, þar sem hversdagsleiki og fantasía blandast saman á tragikómískan hátt. Sjálf lifði Nína við sálarháska sem ágerðist með árunum og gerði vinum hennar oft erfitt fyrir sem vildu hjálpa en vissu ekki hvernig. Hún var mjög viðkvæm og auðsærð, en um leið næm fyrir atvikum, samtölum og tilsvörum sem fengu táknræna vídd í frásögn hennar. Hún hafði einstakan húmor, sem ekki fólst í tilbúnum bröndurum, heldur í tungumáli og sjónarhorni, því sem var að gerast á líðandi stund, varðaði á einhvern hátt viðstadda og skipti þá máli. Hún hafði mikla nærveru og gerði öllum hátt undir höfði. Hún var mjög vel máli farin, bæði í frásögn og raddbeitingu, og var svo góður upplesari að unun var á að hlýða. Bæði í lífi sínu og skáldskap var hún upptekin af mannlegum samskiptum, einkum í tungumáli, og fjalla mörg ljóða hennar um þann túlkunarvanda sem fylgir samskiptum manna. Þau lýsa í senn annarleika og þrá eftir samkennd sem er þó ævinlega óuppfyllt, því að eitthvað er að sem ekki verður tjáð nema í skáldlegri mynd:

Þú spurðir

Þú spurðir hvar mig væri að finna.

Ég hef ekki falið mig

en bý inní dökkbláu bergi

langt inní dökkbláu bergi

sem verður á stundum svart.

Og efalaust myndi þér þykja

einkennilegt þar inni.

Nína gaf mikið af sér í ljóðum sínum, þar er hana að finna, og í þeim lifir hún áfram:

Sjálfsmynd

Hjartað í mér

er fugl vestur í Flatey.

Hvernig ættir þú

margslungna manneskja

að geta skilið það?

Eitt það fyrsta sem ég heyrði um Nínu var að sjálfur Sigurður Nordal hefði kallað hana á sinn fund eftir að fyrsta ljóðabók hennar Ung ljóð kom út.

Svo góð þótti honum ljóðin, og það þótti fleirum. Nína var mikið skáld, þó fremur ljóða og stuttra texta en langra skáldsagna, þótt hún hafi reynt fyrir sér á því sviði, ef til vill vegna þess að skáldsögur eru vinsælli á bókamarkaði (og hjá útgefendum) en ljóðabækur. Hún var afkastamikill höfundur, þótt henni þætti það ekki sjálfri, gaf út ljóð, leikrit, skáldsögur og ævisögu, auk þess sem hún birti ljóð og texta í tímaritum.

Hún var alltaf að skrifa. Eitt það síðasta sem hún sagði mér var að hún væri að ganga frá handriti að ljóðabók með ljóðum eingöngu um konur. Það er kannski táknrænt fyrir mannleg samskipti að hún sagði mér þetta í símsvara.

Nína var mjög trúuð og bað fyrir vinum sínum, líka þeim sem ekki trúðu, þegar hún fann það á sér að þeir áttu bágt. Þeim þótti gott til þess að vita og fundu í því huggun. Hver biður fyrir þeim nú? Ég kveð vinkonu mína úr sárum fjarska og með miklum söknuði, þakka henni einlægnina, trúnaðinn og skemmtunina um áratuga skeið, og bið henni blessunar þess guðs sem hún trúði á. Braga og sonum þeirra þremur sendi ég innilegar samúðarkveðjur, einnig litlu Ragnheiði Björk sem hefur misst ömmu sína.

Elsku Nína mín, það var of snemmt að klippa rósirnar.

Berlín í sól upprisudagsins 2000,

Helga Kress.

Nína Björk Árnadóttir.

Minningarorð.

Blaka ég ljóðvængjum. -

Bládjúp himins

eru mig allt um kring,

og í ljósöldum

lofthafsins mikla

baða ég sál mína og syng. -

Blaka ég ljóðvængjum. -

Berst ég glaður

upp yfir storð og stund.

Hverfur og gleymist

í himinljóma

húm yfir harmanna grund.

Nína Björk, vinkona mín í hartnær hálfa öld, hefur kastað kveðju.

Nína var svo viðkvæm og full af ástríðum og tilfinningum að yfir flóði á stundum. En hún var svo skemmtileg og húmorinn svo hárfínn. Oft tók hún flugið í frásögn þar sem hún lék öll hlutverkin og við dramatískan lestur ljóða hló hún og grét í senn. Ég, óvitinn, hef sjaldan upplifað í leikhúsi þá stemmningu sem Nína skapaði oft ein og sér á eigin sviði heima eða heiman.

Nína vinkona mín er dáin. Hún fyllir tuginn sem farinn er héðan úr okkar gömlu klíku frá unglingsárunum og kennd var við Fróða. Við hvert brotthvarf vinanna koma þeir allir upp í hugann. Heimsmyndin brenglast æ meir fyrir mér. Ég sakna þín.

Moldin er sterk

og margt, sem bindur. -

Viskunni er varnað máls.

Blaka ég ljóðvængjum.

Bresta hlekkir

jarðar - og ég er frjáls.

(Grétar Fells.)

Anna Agnars.

Það eru þrjátíu ár frá því ég sá Nínu Björk Árnadóttur fyrst. Skáldkonan birtist ásamt Sigfúsi efst á stigapallinum í bókabúð Máls og menningar með afskaplega mikið af rauðu hári og stríðnisleg augu í smágerðu andliti og ég man að ég horfði á hana svífa hlæjandi niður stigann og hugsaði að þessi hrífandi vera hlyti að hafa stigið út úr einhverju ævintýri í bókahillunum. Kannski gerði hún það líka. Alténd kunni hún þá list að breyta hversdagslegum hlutum í meinfyndinn skáldskap, fékk jafnvel frystikistur til að tala. Þá var gaman að vera samferða henni og mikið hlegið. Erfiðara þegar hvunndagurinn varð að dimmum skógi og við hin hluti af skóginum og henni ekkert skjól. En sögurnar sem hún sagði síðar þaðan í ljóðum, oft undurnæmum, afhjúpuðu að jafnvel þegar viðkvæmni hennar og ótti var mestur yfirgaf kímnigáfan hana aldrei alveg.

Ég þakka Nínu fyrir þær mörgu stundir sem ég fékk að hlæja með henni, nöfnin sem hún gaf mér, og vináttu sem ég var kannski aldrei manneskja til að axla sem skyldi. Braga og drengjunum hennar sem vernduðu hana og studdu sendi ég hlýjar kveðjur.

María Kristjánsdóttir.

Nína Björk Árnadóttir, skáldkona og leikari, lifði einhvers staðar mitt á milli alvöru og leiks. Hvort var hvað vissi maður ekki alltaf vegna þess valds sem hún hafði á leiknum. Og vegna þess valds sem hún hafði á húmor og orðum. En aldrei var hún ósnertanleg, Nína var áþreifanleg og augu hennar einsog hvíla enn á manni og fallegu hendurnar hennar eru rólegir vængir í minningunni.

Fyrir mánuði síðan las Nína upp fyrir okkur úr bókinni sem hún var með í smíðum. Það er ekki víst að okkur verði trúað ef við notum orðið galdur fyrir upplifunina á skáldskapnum hennar en galdur var það nú samt, að hlusta á textann hennar lesinn af henni sjálfri. Til stóð að halda framhaldsupplestur, því hún var búin að skrifa meira, þegar við allar værum lausar við kvefpestirnar.

Þrjár skáldkonur

í hvítum brjóstahöldum

sitja í kringum lágt

hringborð.

Með bók við hönd.

Maður klæddur sjóræningjapeysu

kemur inn um dyrnar

úr snjóroki og sest

við borð kvennanna.

Klæðir sig úr peysunni.

Þegar hann snertir

eina þeirra

eru þær allar dánar.

Og lifna ekki við.

Þó þær bíði eftir kossum hans.

Þá stendur hann upp,

tekur hina snertu í fang sitt

og heldur á henni út.

Gegnumtrekkurinn

þegar dyrnar opnast og lokast

flettir síðum bókanna

þriggja.

Nína Björk, við söknum þín og hlökkum til næsta lesturs.

Kristín Ómarsdóttir og Vigdís Grímsdóttir.

Kynni okkar af Nínu Björk voru ekki af leiðandi rithöfundum sinnar kynslóðar á Íslandi, heldur sem móður Ara Gísla, besta vinar okkar. Það var heldur ekki svipfagur og sterkur yfirbragur hennar sem við minnumst nú, heldur sá hlýleiki sem hún bar í innra brjósti. En eins og bókaunnendur, útvarpshlustendur og sjónvarpsáhorfendur, nutum við hins vegar frásagnargleði og kímni hennar. Ólíkt þeim hins vegar, fengum við Nínu Björk beint í æð; í miðnætur-ísnum á aðfangadagskvöld eða öðrum samverustundum á Sólvallagötunni. Það var ekki bara frásögnin sem var fyrsta flokks, framsögn Nínu Bjarkar var einning frábær. Við vinir Ara Gísla leituðum eitt sinn leiðsagnar Nínu Bjarkar til að bæta framsögn og framburð. Lítil æfing, sem hún hafði látið leiklistarnemendum í té, var ljóðræn í einfaldleika sínum, en samt áhrifamikil. Það var því leiðinlegt að Nína Björk náði ekki að kenna sonardóttur sinni lestur og framsögn. Ragnheiður Björk mun þó seint gleyma sögunum sem amman sagði.

Eins og fólk flest naut Nína Björk ekki alltaf sólar í lífi sínu. Útgeislun hennar var hins vegar sterk. Við söknum þeirrar hlýju sem Nína Björk sýndi okkur. Missir hennar er mikill fyrir fjölskylduna. Við sendum Ara Gísla og bræðrum, Braga, Ragnheiði Björk og Sirrý innilegar samúðarkveðjur.

Björn Kristjánsson.

Sumt fólk hefur svo mikla persónutöfra að fyrstu kynni við það líða manni ekki úr minni. Nína Björk Árnadóttir var slík kona en ég man enn vel fyrsta fund okkar þótt liðin séu næstum tuttugu ár. Þá voru hjónin Nína Björk og Bragi Kristjónsson ásamt þremur mannvænlegum sonum nýflutt vestur yfir Læk, nánar tiltekið í myndarlegt einbýlishús við Sólvallagötu 30. Við Ari Gísli, sonur Nínu Bjarkar, kynntumst þegar við sátum saman í ritnefnd Hagaskóla og nefndarfundirnir voru að sjálfsögðu haldnir í kjallaranum á Sólvallagötu 30. Þegar við höfðum sest niður kom Nína Björk færandi hendi með mjólk og snúða sem var þegið með þökkum. Hlýlega spurði hún okkur um blaðið og efnistök þess. Ritnefndin var sjálfsprottin og sjálfsagt einhver uppreisnarandi gagnvart ríkjandi hefðum í félagslífi og skipulagi skólans. Nína vildi fá að heyra allt um það og síðan hló hún dátt að ungu ritvillingunum. Róttækni var henni að skapi.

Kjallarinn á Sólvallagötunni varð brátt samastaður skólapilta og ungskálda, sem vildu kynnast lífinu og það fljótt. Aðsóknin var stundum svo mikil að frú Nínu fannst kjallarinn líkastur umferðarmiðstöð. Tók hún þá í taumana og las okkur pistilinn; sagði að námið yrði að vera í öndvegi, skáldskapur og skemmtan gætu komið síðar. Unglingsárin eru vissulega erfiður tími í lífi margra enda hrifnæm og viðkvæm í senn. Nína hafði ríkan skilning á basli okkar félaganna á þessum árum og skildi "unglingavandamálin" betur en margir aðrir. Um leið og við kynntumst Ara Gísla urðu þau hjónin einnig vinir okkar.

Fjölskyldan á Sólvallagötu 30 var engin venjuleg vísitölufjölskylda og hafði á sér ótal spennandi hliðar í hugum okkar félaganna. Húsmóðirin var skáld en húsbóndinn rak fornbókaverslun og sendiráð og ók stundum um á virðulegum sendiráðsbíl. Á heimilinu voru auk þess kettir að ógleymdum snillingshundinum Sókratesi. Fornbókaverslun fjölskyldunnar var órjúfanlegur hluti heimilisins og heill ævintýraheimur út af fyrir sig í hugum pilta sem vita fátt skemmtilegra en að grufla og grúska.

Heimilisbragurinn á Sólvallagötu 30 var um margt ólíkur því sem við vinirnir áttum að venjast. Jafnvel jólahaldið var öðruvísi. Heimilisfólkið fór í miðnæturmessu í Landakotskirkju og hápunkturinn var síðar um jólanóttina þegar vinum og vandamönnum var boðið í ísveislu á Sólvallagötuna. Mér þótti ómaksins vert að laumast að heiman eftir miðnætti niður á Sólvallagötu þar sem Nína bar á borð sinn heimalagaða ís, besta ís sem ég hef bragðað. Sjálf fóru hjónin á kostum og skemmtu okkur með sögum af sjálfum sér og öðrum. Þar var ekki komið að tómumkofunum því Nína virtist þekkja allt skrýtnasta og skemmtilegasta fólkið, frá rónum til ráðherra og allt þar á milli. Og Nína hafði þann fágæta hæfileika að geta sífellt komið á óvart með líflegum frásögnum og hnyttnum tilsvörum.

Nína Björk vann yfirleitt heima en ferðaðist víða til að sækja sér innblástur eða fá næði til skrifta. Var ekki laust við að ungar sálir, sem fylgdust með henni, sæju skáldastarfið í hillingum. Reyndar var engu líkara en þessi ritgleði smitaði út frá sér því um tíma gátum við vinirnir talið upp a.m.k. þrjár kaþólskar skáldkonur við Sólvallagötuna.

Ferðalögum sínum lýsti Nína Björk gjarnan fyrir okkur félögunum af mikilli innlifun þegar heim kom. Við hlýddum hugfangnir á og gilti þá einu hvort hún hefði verið vikum saman í dönsku klaustri í fullkominni kyrrð eða á rithöfundaþingi í Indlandi þar sem hitinn var þrúgandi og mannmergðin yfirþyrmandi. Nína Björk var þó ekki einungis komin alla leið til Indlands til að sitja á rithöfundaþingi eða láta dekra við sig í fínum forsetaveislum. Þegar færi gafst, stalst hún út af þinginu og fór um fátækrahverfi Nýju Delhí til að sjá kjör alþýðunnar með eigin augum. Þessi skoðunarferð hafði djúp áhrif á Nínu og örbirgðin var svo mikil að það lá við að henni féllust hendur. Nína Björk var afar viðkvæm og tók bágindi annarra afskaplega nærri sér eins og fram kemur í ritverkum hennar.

Þegar vel lá á Nínu var gaman að spjalla við hana um hvað sem er enda lét hún sér fátt mannlegt óviðkomandi. Hún hafði róttækar stjórnmálaskoðanir og vildi af heilum hug bæta kjör hinna verst stöddu. Hún hafði dálæti á tilfinningaríkum hugsjónamönnum, hvort sem þá var að finna á meðal rithöfunda eða stjórnmálamanna. Eitt sinn sagði hún mér frá chileska rithöfundinum Pablo Neruda, útlaganum sem gerði allan heiminn að heimkynnum sínum. Vera má að Nína hafi fundið ákveðna samsvörun með honum þar sem henni fannst hún stundum vera útlagi á meðal manna, ferðaðist víða og ljóð hennar höfðuðu til margra enda þýdd á mörg tungumál.

Langvarandi veikindi Nínu Bjarkar tóku vissulega sinn toll og settu mark sitt á hana og fjölskylduna. Margir undruðust þó þann kraft, sem ætíð bjó í Nínu, og mikil afköst þrátt fyrir veikindin. Hún sótti mikinn styrk í trúna og það hjálpaði henni mikið þegar andbyrinn var sem mestur.

Eftirsjá er í hverjum þeim samferðamanni sem heltist úr lestinni að "líkstaða tjaldstað", sérstaklega þegar bjartar og góðar minningar um hina látnu koma upp í hugann á skilnaðarstundu. Mestur er þó missir fjölskyldunnar sem engum duldist að var helsti fjársjóður Nínu. Hún var stolt af sonunum þremur, Ara Gísla, Valgarði og Ragnari Ísleifi, og ömmubarnið, Ragnheiður Björk, var augasteinninn hennar síðustu árin. Ég tel mig ríkari eftir að hafa kynnst Nínu Björk og vil að endingu fyrir hönd okkar félaganna senda fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Kjartan Magnússon.

Það var á Mokkaárunum þegar Mokkakaffi var miðja heimsins þar sem málin voru reifuð og rædd utan og ofan við bardús smáborgaranna, sem voru í heldur litlu áliti, að lítið fiðrildi með eldrautt hár tók að flögra um staðinn. Og dag einn þarsem ég sat við gluggann á daglegu tali við lífsreynda fastamenn staðarins, þá Kristin Pétursson listmálara, Angantý son Guðmundar skólaskálds og Þorvarð í Kron, að fiðrildið settist hjá okkur og bauð okkur fyrstu bók sína. Ung ljóð heitir hún og ber réttnefni, þetta eru ung viðkvæm ljóð og dálítið brothætt einsog höfundurinn. Ég man ekki betur en við tækjum allir við bókinni. Hvað við borguðum fyrir hana, ef eitthvað var, man ég ekki, enda skipti ungt skáld meira máli en allir peningar heimsins.

Við Nína Björk ræddum stundum saman á Mokka og víðar, ekki síst um frænda hennar Stefán frá Hvítadal, sem hún mat mikils. Ég lærði ljóð hans í æsku og ásamt Jónasi Hallgrímssyni var Stefán mér kærastur skálda. Ég söng ljóð hans "Erla góða Erla ég á að vagga þér/svíf þú inn í svefninn vð söng frá vörum mér". Ein af leiksystrum mínum hét Erla. Ég kynntist raunar tveimur sonum Stefáns, þeim Jóni prentara í Hólaprenti, fínlegum manni og þægilegum, og bróður hans Marteini sem stundum kom á Mokka. Hann var stærri og grófgerðari, hafði lært múrverk minnir mig og verið á sjó. Hann var þungur nokkuð en skýr og frumlegur í hugsun. Það komu fleiri á Mokka. Prúðastir allra voru verðandi uppreisnarmenn synir Guðmundar rammaskalla, Eyjólfur frændi þeirra og Hreinn frá Bæ í Dölum. Meistarar þeirra Hringur Jóhannesson og Jón Gunnar með listrænan sjarma og oftast umvafðir kvenfólki. Einnig sáust heimsmenn einsog Dieter Roth og Sverrir Haraldsson, Jón Engilberts og Kvaransystur og Róska. Ari Jósefsson fór einsog stormur um stíg og sal, hafði aðeins gefið út æskuljóð sín þegar hann drukknaði. Þorsteinn frá Hamri varfærinn og traustur. Dagur Sigurðarson einhver stórstígasti maður sem þetta land hefur alið, jafnan bjartur með yfirlýsingar eins og Sólin elskar mig, áttu ekki fyrir kaffi Nonni? Og verðandi allsherjargoði frá Draghálsi með gömlu bændamenninguna í skegginu. Stundum kom Alfreð Flóki í lausbeisluðum frakka og reyndi að gera sprell. Í fylgd með honum var gjarnan efnilegt skáld, Jóhann Hjálmarsson, seinna stórskáld á akri Morgunblaðsins. Flóki hafði fundið upp surrealismann og myndir hans í engu líkar öðru í íslenskri myndlist. Hann átti sér hóp aðdáenda og þar á meðal var Nína Björk sem síðar skrifaði bók um meistarann. Trúlega hefur þetta verið þroskandi félagsskapur og næsta bók hennar, Undarlegt er að spyrja mennina, þótti mér bera þess merki.

Svo yfirgaf ég þennan háskóla og fór að sandblása grjót í stað þess að leggjast í skáldskap svo börnin mín gætu fengið að éta og tilað borga húsaleiguna. Ég fylgdist þó með Nínu Björk úr fjarlægð og hitti hana stöku sinnum. Mér virtist henni vegna vel, hún átti ágætan mann og efnileg börn, hélt áfram að semja ljóð og leikrit og fékk svonefndar viðurkenningar úr þar til gerðum höndum. En þegar ég kom í bæinn aftur eftir tuttugu ára útlegð í Breiðholtinu var Mokka að vísu enn óbreytt en heimur þess horfinn. Er ég hitti Nínu Björk hér á götunum sá ég að henni var brugðið. Hún var ekki lengur fiðrildi. Hún hafði ekki þolað veruleikann þrátt fyrir bærileg ytri skilyrði og þann guð sem hún batt traust sitt við. Það var einsog hjá César Vallejo: "Öll þessi ást og þó máttlaust gegn dauðanum." Það hefur aldrei verið auðvelt að vera fiðrildi hér á landi. Því veldur ekki aðeins blásturinn frá jöklunum, en ekki síður kuldinn í þjóðlífinu, hinir sjálfstæðu bændur einsog Bjartur í Sumarhúsum og félagi hans hreppstjórinn með sitt eilífa fjárrag og ævinlega sparkandi í allt sem ekki borgaði sig fyrir þá sjálfa. Og nú hefur maddaman á Rauðsmýri með sitt kalda bros tekið völdin ásamt börnum sínum kaupfélagsstjóranum, sem ekki er lengur kaupfélagsstjóri, og fegurðardrottningunni, sem ekki er lengur fegurðardrottning. Þau hafa tekið próf útúr fínum skólum án þess að hafa lært nokkuð um mannlífið og nú skulu allar konur gerðar að búkonum og fiðrildi bannsungin, enda hafa þau aldrei borgað sig.

Ég kveð Nínu Björk með söknuði, votta fjölskyldu hennar samúð mína um leið og ég þakka henni það sem hún var, fiðrildi sem brá lit og hlýju yfir kaldar stéttarnar hér í þorpinu. Megi guð vera sál hennar náðugur.

Jón frá Pálmholti.

Tindrustu tindrandi augun,

bjartasta bjarta brosið,

djúpustu djúpu spékopparnir:

fyrir sig, fyrir mig, fyrir okkur.

Lífið getur verið svo ótótlegt og erfitt, þótt það sé það eina sem við eigum.

Erfitt að taka á móti því:

þola sig og mig og okkur - allt.

Elskulegust Nína Björk:

farin ertu - vertu sæl mín kæra, vertu sæl.

Birna Þórðardóttir.

Ég gleymi því aldrei þegar ég heyrði Nínu Björk lesa upp eftir sig ljóð í útvarpið í fyrsta sinn. Ég var þá unglingur og röddin hennar og ljóðin runnu saman og fluttu mig í þá töfraveröld sem umlukti alltaf Nínu Björk. Löngu seinna lágu svo leiðir okkar saman í kór Landakotskirkju og við áttum eftir að verða miklar vinkonur.

Fyrir utan að vera það mikla skáld sem hún var, var Nína Björk skarpgáfuð og með hæfileika á nánast öllum sviðum. Hún var líka ákaflega góð og skilningsrík manneskja og bjó yfir mikilli mannþekkingu. Sérstaklega hafði hún mikinn skilning á hlutskipti þess fólks sem af einhverjum ástæðum getur ekki gengið þann breiða og slétta veg sem öllum er gert að halda sig á. Þetta gilti um hvaða svið sem var.

Nína Björk var kaþólikki og mjög trúuð en trú hennar var hafin yfir allar kreddur. Meira en allir aðrir sem ég hef þekkt tókst Nínu Björk að varðveita barnið í sjálfri sér.

Nína Björk hafði óskaplega falleg og tjáningarfull augu. Og sjötta skilningarvitið hafði hún líka í ríkara mæli en fólk gerði sér grein fyrir. Það fannst mér koma sérstaklega í ljós á Þingvöllum. Reyndar fannst mér enginn staður hæfa henni betur en Þingvellir, hún hafði nefnilega ýmsa eiginleika huldufólksins.

Nína Björk var manna skemmtilegust og hafði mikið skopskyn. Fáir voru skemmtilegri en hún á góðri stundu. Hún gat sagt þannig frá að fólk veltist um af hlátri.

Það er mikill harmur að Nína Björk skuli nú vera burtkölluð úr þessum heimi svona snemma því að hún hafði ennþá svo mikið að gefa. Nína Björk studdi svo oft annað fólk miklu meira en hún sjálf gerði sér grein fyrir.

Nína Björk bar alltaf hag sona sinna og Braga mjög fyrir brjósti og kunni vel að meta þá einstöku umhyggju sem þeir sýndu henni allir ef eitthvað bjátaði á. Hún elskaði börn og litla sonardóttir hennar var sólargeislinn í lífi hennar.

Ég sendi fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur og er sannfærð um að Nína Björk er nú komin í bjartari veröld en þá sem við nú gistum.

Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir.

Nína Björk Árnadóttir skáldkona er látin. Ég þekkti hana í sjón af félagsfundum í Rithöfundasambandi Íslands, en þar hafði hún verið félagi frá 1968, og er skráð í félagatali þess sem ljóðskáld, skáldsagnahöfundur, leikskáld og þýðandi. Auðvitað þekkti ég hana líka af ljóðum hennar, og sá hana í fleiri en eitt skipti vera að vitja að sölu bóka sinna í Bókabúð Máls og menningar.

Hún var um áratug eldri en ég, en hins vegar kynntist ég betur Ara Gísla Bragasyni rithöfundi, syni hennar, sem er um áratug yngri en ég. Var það árið 1994, þegar hann ritstýrði bókinni Ljóð og laust mál; 60 ára afmæli Hressingarskálans. Var þar Nína Björk þá látin vera þar annað skáldið í virðingarröðinni, með ljóð er nefnist Stjörnur.

Tveir rithöfundafélagar mínir hafa sagt mér að hún væri í katólska söfnuðinum á Íslandi, ásamt þeim. Þykir mér því við hæfi að kveðja hana með því að vitna í kafla úr þýðingu minni á helgileiknum Morð í dómkirkjunni eftir T.S. Eliot. (En hann gengur um þessar mundir í endurnýjun lífdaga sem handritshöfundurinn að söngleiknum Cats.) Vitna ég hér í upphaf verksins; en þar er kór alþýðufólks saman kominn, til fulltingis Tómasi Becket erkibiskupi í Kantaraborg á Englandi á tólftu öld:

Hér lát oss standa, þétt upp að dómkirkjunni.

Hér lát oss bíða.

Togar hættan okkur hingað? Er

það vitundin um öryggi

sem dregur fætur okkar

hingað að dómkirkjunni? Hvaða

hætta má bíða okkar,

hinna fátæku,

hinna vesælu kvenna Kantaraborgar?

Hvaða prófraunir

sem okkur eru ei nú þegar kunnar?

Okkur er ekki hætt

og það er engin vernd

í dómkirkjunni. Einhver fyrirboði athafnar

sem augu vor eru neydd

til að verða vitni að

hefur neytt fætur okkar hingað

til dómkirkjunnar.

Við erum neydd til að bera vitni.

Tryggvi V. Líndal.

Eiginlega er vart annað við hæfi en yrkja ljóð eftir hana Nínu Björk svo ljóðræn var öll hennar sál. En okkur venjulegum dauðlegum er fæstum fært að yrkja sem skyldi og því verða nokkur fátækleg kveðjuorð í lausu máli að duga.

Í ljóðunum og á leiksviðinu var rödd hennar sterk, svo mikið strá sem hún þó stundum var í tilverunni. Hún hafði sem sagt ekki þykkan skráp og því var sársauki hennar sárari en flestra; en gleði hennar var líka glaðari. Ljóð hennar og leikrit bera þessu vitni.

Nú þegar litið er til baka verður manni ljóst að Nína Björk var harla afkastamikill höfundur. Ljóðabækurnar urðu ekki færri en níu, leikritin enn fleiri; auk þess var skáldsagan Móðir kona meyja, sem er býsna athyglisverð, og hin einnig, Þriðja ástin, og svo ævintýrabókin um Alfreð Flóka.

Ég átti þess kost að fylgjast allnáið með leikritasmíð Nínu, enda var hún í hópi þeirra leikskálda sem héldu uppi myndarlegri framrás íslenskrar leikritunar í Þjóðleikhúsinu á áttunda áratugnum. Nína gekk ung á leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og bjó að því sem leikskáld. Úr þeim skóla kom hópur, sem stóð að Litla leikfélaginu í Tjarnarbæ á sjöunda áratugnum; ótrúlega margir úr þeim hóp hafa látið að sér kveða sem leikskáld, auk Nínu Bjarkar Kjartan Ragnarsson, Þórunn Sigurðardóttir, Jón Hjartarson og fleiri. Þau hin staðnæmdust í leikhúsinu en Nína Björk gerðist atvinnumaður á ritvellinum. Til þess þarf bæði þor og þrá og hvort tveggja átti hún í ríkum mæli. Kom reyndar fljótt í ljós, að hún hafði erindi sem erfiði og tóku tvær fyrstu ljóðabækurnar, Ung ljóð (1965) og ekki síst Undarlegt er að spyrja mennina (1968) af öll tvímæli um það. Síðan rak hver ljóðabókin aðra og hróður hennar sem ljóðskálds óx jafnt og þétt; sú síðasta nefndist Alla leið hingað (1996).

Sem leikskáld vakti hún fyrst verulega athygli einmitt í hópi þeirra í Litla leikfélaginu með einþáttungnum Hælið, sem seinna kom fyrir alþjóð í Sjónvarpinu. Þar kom fram hennar ríka samúð með lítilmagnanum og þeim sem heyja erfiða lífsbaráttu, samfara næmu skyni fyrir formi og möguleikum leiksviðsins. Þetta var 1969, en tveimur árum síðar var leikrit hennar Fótatak í hópi þeirra íslensku verka sem Leikfélag Reykjavíkur valdi til sýningar í tilefni af 75 ára afmæli sínu og staðfesti enn hæfileika hennar.

Atvik höguðu því þannig að tvö af bestu leikverkum Nínu Bjarkar, Hvað sögðu englarnir? (1979) og Súkkulaði handa Silju (1982), voru sýnd í Þjóðleikhúsinu í leikhússtjóratíð minni. Í hinu fyrra kom skýrt fram hinn sérstæði ljóðræni stíll Nínu Bjarkar, allt annars konar en hjá öðrum íslenskum leikritahöfundum. Sú ljóðræna var þó engan veginn á kostnað hins dramatíska, sem teflt var fram með ýmsum stílbrigðum í báðum þessum verkum, þó að Súkkulaði handa Silju sé raunsæilegra í byggingu. Báðar sýningarnar voru skínandi vel úr garði gerðar og mér til efs, að rými Litla sviðs Þjóðleikhússins í kjallaranum hafi í annan tíma verið betur nýtt en í þessari sýningu þeirra Stefáns Baldurssonar og Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur á Englunum. En í Silju fóru leikkonurnar Þórunn Magnea Magnúsdóttir og Anna Kristín Arngrímsdóttir á kostum. Súkkulaði handa Silju var síðar einnig leikið á Akureyri.

Af síðari leikritum Nínu Bjarkar fannst mér mest til um Fugl sem flaug á snúru hjá Nemendaleikhúsinu. Aftur á móti hafði ekki reynt nóg á öll hennar verk; ég sé fyrir mér að Lítill, trítill og fuglarnir gætu tekið sig harla vel út í sjónvarpi.

Ljóð Nínu Bjarkar voru auðvitað misgóð eins og ljóð allra dauðlegra skálda. En í hinum bestu kvað við einlægan og sáran tón sem hitti mann í hjartastað. Og þannig var Nína Björk sjálf, að hún hitti mann í hjartastað. Þess vegna er hún nú kvödd með miklum söknuði. Blessuð sé minning hennar.

Sveinn Einarsson.

Elsku Nína mín! Nú hefurðu öðlast hvíldina sem þú hefur þráð svo lengi.

Eitt af ljóðunum þínum sem þú ortir til vinkonu þinnar heitir "Heimurinn bar þig ofurliði - Lorraine" og það var einmitt það sem henti þig. Þú varst svo viðkvæm að sársaukinn sem fylgir því að lifa var þér ofviða.

Það er svo undarlegt að þó að þrjátíu ára aldursmunur hafi verið á okkur töluðum við alltaf saman eins og jafnöldrur og við skiptumst á leyndarmálum.

Ég hikaði aldrei við að segja þér allan sannleikann því ég vissi að þú myndir aldrei dæma mig. Við skildum hvor aðra. Þegar ég heimsótti þig í síðasta sinn fyrir nokkrum dögum spurði ég þig hvort ljóðið þitt "Hvíti trúðurinn" fjallaði um það hvernig þú upplifðir sjálfa þig, þ.e. manneskju sem er alltaf öðruvísi en aðrir og passar hvergi inn í. Þegar þú sagðir svo vera varð ég þess fullviss að í þér hefði ég fundið sálufélaga minn eins og mig hafði svo lengi grunað. Svo fórum við saman með ljóðið, héldumst í hendur og grétum báðar.

Það sem ég er að reyna að segja þér er að ég skil þetta allt of vel og ásaka þig ekki en ég má samt sakna þín. Þú varst ekki aðeins vinkona mín sem sýndir mér væntumþykju án skilyrða. Þú varst líka kona sem gerðir heiminn fallegri með skrifum þínum og fylltir hann blíðu.

Ég man þig alltaf, elsku vinkona.

Hvíti trúðurinn

Ekki bak við hurð

Ekki bak við tjald

heldur á torginu miðju

heldur í veislunni miðri

berandi vel ydd vopnin

þau eru hálfopnir hlátrar

þau eru kæfð óp

en þú verður hjá mér

í nótt

kveikir okkur eldinn

brennur næturbálið

allt gleymist - allt grær

uns dagurinn kemur aftur

og opnar sárin

Og ég stend

á torginu miðju

í veislunni miðri

Trúðurinn

hvíti trúðurinn

(Nína Björk Árnadóttir; úr bókinni Hvíti trúðurinn)

Þín

Ragna Sól.

Nína Björk Árnadóttir var ekki lík neinum sem ég hef kynnst, hvorki í sinni né skinni. Hún minnti ekki á nokkurn mann nema sjálfa sig. Hún var í senn dyggðug og breysk, veik og sterk, innan hins borgaralega ramma og utan hans. Stundum fannst mér hún frekar vera ljóð en ljóðskáld. Nú þegar hún er öll og minningarnar þyrpast inn í hugann, er mér ekki hugstæðast andríki hennar og skáldskapur, ekki sérstætt útlit hennar og þokki og ekki viðkvæmni hennar, heldur hvað hún gat verið ólýsanlega skemmtileg. Hvernig hún gat gert hversdagslegustu umræður um menn og málefni að andans veislu með beittri en sakleysislegri íroníu.

Hún var næm og fundvís á sjálfsblekkingu og leikaraskap í mannlegum samskiptum og í þeim húmor hlífði hún ekki sjálfri sér.

Við kynntumst í hópi ungmenna sem hélt saman um tíma og urðum vinkonur. Tvær gjörólíkar manneskjur sem nutu þess að tala saman. Nína bjó þá hjá fósturforeldrum sínum í húsi við Garðastræti. Herbergi hennar var innaf eldhúsinu, þar sem móðir hennar var gjarnan að sýsla, fádæma stillt og hæglát kona. Við sátum þar löngum stundum og ræddum allt milli himins og jarðar; trúmál, sem við báðar veltum fyrir okkur, hún þó af mun dýpri alvöru en ég, leituðumst við að skilgreina það sem einkenndi hin ýmsu ljóðskáld og muninn á eldri skáldum og yngri. Við ræddum líka um framtíðina sem og mál dagsins; skemmtanalíf bæjarins eins og það var þá og þá sem þar létu ljós sitt skína.

Þótt Nína Björk væri næm og viðkvæm, var hún mun einbeittari og kraftmeiri en framkoma hennar og fas benti til. Allt sem hún ræddi um að hana langaði til að gera við líf sitt á þessum stundum í Garðastrætinu gerði hún og meira til.

Hún útskrifaðist úr leiklistarskóla, lærði dramaturgi, sem í orðabókum kallast sjónleikjafræði, skrifaði mörg leikrit, og annan skáldskap, varð ljóðskáld, sem var hjarta hennar næst á þessum árum, þýðandi og virtur upplesari. Þar að auki tók hún kaþólska trú, sem var henni mikils virði. Þar með er ekki sagt að lífið hafi leikið við hana. Fjarri því. En þegar það valdi henni lífsförunaut, var gæfan hennar megin í heiminum.

Fundum okkar hafði fækkað, ég var flutt vestur á land með manni og barni, þegar ég hitti hana eitt vetrarsíðdegi á Barónsstígnum og hún vildi endilega að ég kæmi með henni heim í mat. Mamma hennar væri með kálböggla, sagði hún. Eftir matinn settumst við inn í herbergið hennar og hún sagði mér frá stúdentinum sínum. Hún var ekki sérlega upphafin í þeirri frásögn, en ég skildi að þessi maður væri öðruvísi en aðrir menn og þar að auki skemmtilegur, sagði hún og augun hurfu í brosinu.

Árin liðu og við komumst smám saman á viðverðumendilegaaðfaraaðhittast-stigið, en það er minningasafn vináttunnar. Á það safn kemur maður öðru hvoru til að minnast þess sem var en er ekki lengur, þótt væntumþykjan búi með manni ævina á enda, hafi hún á annað borð verið fyrir hendi.

Við Nína lifðum hvor í sínum heimi næstu áratugi, hittumst stöku sinnum á förnum vegi, en sjaldan þess utan. Ég hafði spurnir af því að henni og lífinu gengi misvel að ná saman, þyrftu ítrekað aðstoð til að ná sáttum og að henni gengi æ verr að sætta sig við þá skilmála sem lífið setti henni. Nú hafa fjötrarnir verið leystir af vængjum andans og himnarnir opnast.

Á kveðjustund þakka ég ógleymanleg kynni og samvistir við þessa konu sem hafði einhvern tæran streng sem engir skuggar náðu til. Braga Kristjónssyni sendi ég hlýjustu kveðjur og dýpstu virðingu. Sonum þeirra og öðrum aðstandendum votta ég einlæga samúð.

Guð blessi minningu Nínu Bjarkar Árnadóttur.

Jónína Michaelsdóttir.

Sigríður Hjaltested.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.