HÚSNÆÐI Byrgisins, kristilegs líknarfélags við Vesturgötu 18-24 í Hafnarfirði, var rýmt í gær þegar frestur sem slökkviliðsstjóri Hafnarfjarðar gaf til að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi brunavarnir í húsinu rann út.
HÚSNÆÐI Byrgisins, kristilegs líknarfélags við Vesturgötu 18-24 í Hafnarfirði, var rýmt í gær þegar frestur sem slökkviliðsstjóri Hafnarfjarðar gaf til að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi brunavarnir í húsinu rann út. Í fréttatilkynningu frá Byrginu segir að í bréfi frá 12. apríl sl. hafi verið tilkynnt sú ákvörðun lögregluembættisins í Hafnarfirði að húsnæðinu yrði lokað fimmtudaginn 27. apríl vegna almannahættu, og að slökkviliðsstjóri hafi í samtali við forsvarsmenn Byrgisins á miðvikudag ítrekað kröfu sína um lokun og skorað á þá að sjá til þess að húsnæðið verði rýmt og ekki í því búið eftir 27. apríl.

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að fólk væri að ganga út áður en að því kæmi að sýslumaður Hafnarfjarðar yrði að beita hörku í málinu. "Við viljum hlíta lögum og reglum og viljum því fara út áður og krefjast síðan þeirra svara sem við höfum beðið um að fá."

Að sögn Guðmundar hefur Byrgið beðið eftir að fá upplýsingar um það frá slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar til hvaða aðgerða þurfi að grípa varðandi brunavarnir í húsinu. Hann segir slökkviliðsstjóra setja heimilisfólk Byrgisins út í skjóli þess að ekki hafi verið sinnt þeim úrskurði sem umhverfisráðuneytið kvað upp á sínum tíma.

"En úrskurðurinn segir orðrétt að þeim beri að láta okkur allt það í té sem við þurfum að vita fyrir 6. apríl til að geta haldið áfram verkefninu og þá um leið að veita okkur lengri frest. En þeir gerðu ekkert af því, hvorki sögðu okkur hvað við ættum að gera né hafa látið okkur hafa frest, heldur notar slökkviliðsstjórinn sér það að dómsorðið kveður á um að við förum út ef við höfum ekkert gert þarna á ellefu dögum."

Guðmundur segir engar upplýsingar hafa borist frá slökkviliðsstjóra eða byggingarfulltrúa um það hvað gera þurfi við húsnæðið til þess að brunavörnum sé komið í gott lag. Hann bendir á að samkvæmt úrskurðarorði umhverfisráðuneytisins eigi slökkviliðsstjórinn í Hafnarfirði að leggja fram framkvæmdaáætlun fyrir Byrgið um heildarúrbætur á húsnæðinu, en sú áætlun hafi aldrei borist Byrginu frá slökkviliðsstjóranum.

"Við ætlum hins vegar að kæra þessar aðgerðir því þær eru algerlega út í hött og ekki stafkrókur fyrir þá að byggja á. Þeir benda líka bara hver á annan í dag."